Vera - 01.10.2004, Qupperneq 21

Vera - 01.10.2004, Qupperneq 21
/ KARLMENNSKA OG OFBELDI / HER HVILIR JÓNA JÓNS HÚNREITTI HANNTILREIÐI - minningarathöfn á Arnarhóli 29. október 2004 Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty Hingað og ekki lengra, þið berjið ekki fleiri konur. Við erum hér saman komin til að jarða í eitt skipti fyrir öll það misrétti og ofbeldi sem konur hafa í gegnum tíðina orðið íyrir. Yf- irvöldum ber skylda til að tryggja vernd kvenna gegn hvers konar misrétti og ofbeldi. Ef sú vernd er ekki tryggð gerast yfirvöld sek um samþykki. Við berum öll ábyrgð og það er í okkar höndum að binda endi á ofbeldi gegn konum og tryggja að enginn komist upp með slíkt ofbeldi. Svo lengi sem karlar geta framið ofbeldisbrot gegn konum sér að meinlausu, án þess að þurfa að óttast ákæru eða refsingu, mun vítahringur ofbeldisins ekki verða rofinn. Við erum samsek vegna þess að ofbeldið er afsakað og það er látið viðgangast. Við leyfum yfirvöldum að láta undir höfuð leggjast að draga of- beldismenn til saka. Konur eru lattar til að sækja ntál sín gegnum réttarkerfið vegna þess að réttarkerfið er gegnsýrt þeirri hugsun að þær séu sjálfar ábyrgar fyrir ofbeldinu, að þær hafi „hvatt til” ofbeldisins eða „komið því af stað” með hegðun sinni. Við erum ábyrg vegna þess að ofbeldið er einkamál, vegna þess að ofbeldið eru heimiliserjur, vegna þess að sambúðin hefur verið stormasöm, vegna þess að ofbeldið á sér stað á heimilinu. Við lítum undan og skiptum okkur ekki af. Þetta er þeirra mál. Við slökkvum ljósið drögum sængina yfir höfuð, þá heyrum við ekki ópin og dynkina af efri hæðinni. Við segjum við vinkonu okkar: Þetta hlýtur að batna, bíddu bara, hann meinti þetta örugglega ckki. Hann er jú oftast mjög góður, ekki gera meira úr þessu, hann er búinn að biðja þig fyrir- gefningar... En síðar, þegar vinkonan þarf að fara á sjúkrahús því eftir eitt sparkið eyðilögðust nýrun og hún þarf að lifa við heilsuleysi það sem eftir er. Þá spyr maður sig: Hvers vegna var ég svo blind? Þetta var ekki þeirra einkamál, þetta voru ekki heimiliserjur, þetta var ekki stormasöm sambúð... þetta var gróft mannréttindabrot. Og hún er ekki ein, þær eru margar, þær búa í öllum hverfum borgarinnar, þær koma úr öllum stéttum, þær hafa mikla mennt- un og þær hafa litla menntun og þær eru á öllum aldri. En þær eru allar hræddar, hræddar við manninn sem þær giftust, hræddar á eigin heimili, hræddar af því að öllum er sama og allir eru þreyttir á því að heyra af erfileikunum. í dag minnumst við allra þeirra kvenna sem eru ekki lengur á meðal okkar. Sumar sviptu sig lífi, aðrar urðu öryrkjar, enn aðrar sögðu hingað og ekki lengra og mynduðu samtök gegn ofbeldinu og veittu konum skjól. Skjólið skipti máli en engin þessara kvenna hlaut þá vernd sem stjórnvöld og dómstólar eiga að veita, fáar fengu skaðabætur. Brot- in voru aldrei viðurkennd. Við minnumst í dag formæðra okkar og heiðrum minningu þeirra. Sorg þeirra, vonbrigði og kvöl var mikil en kjarkur þeirra var meiri. Um leið og við minnumst þeirra horfum við til framtíðar, framtíðar þar sem ofbeldi gegn konum og ofbeldi á heimilum er viðurkennt sem gróff mannréttindabrot. Brot sem verður að taka á, refsa fyrir og tryggja þeim sem verða fyrir slíkum brotum skaðabætur. Við horfum fram á veginn með þekkingu formæðra okkar, þekkingu þeirra sem þola slíkt ofbeldi í dag og vilja til að segja hingað og ekki lcngra. Þið berjið og ógnið ekki fleiri konum. Réttlætið þolir ekki frekari bið, þetta snýst um líf og dauða. Of- beldið og ofbeldisógnin skal ekki lengur takmarka líf kvenna og hindra lífsgæði þeirra. Það er í okkar höndum að breyta. Ofbeldið kemur okkur öllum við. vera / 5. tbl. / 2004 /

x

Vera

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.