Andvari - 01.01.2010, Síða 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
innar og fóru menn nú að flytja inn sjónvarpstæki í stórum stíl. Þar með varð
málinu ekki lengur vísað inn í framtíðina, stjórnvöld hlutu að aðhafast í því,
ef þau ætluðu ekki að láta bandaríska herinn einan um að þjóna íslendingum
á þessu sviði.
Sama ár og orka varnarliðsstöðvarinnar var aukin fékk Ríkisútvarpið sér-
fræðing frá EBU, George Hansen að nafni, til að koma hingað til lands og
athuga aðstæður til sjónvarps. Hann samdi ítarlega álitsgerð. Niðurstaða hans
var sú að framkvæmanlegt væri að koma á fót íslensku sjónvarpi. Lagði hann
til að reist yrði sendistöð í Reykjavík sem mundi ná til 100 þúsund manna.
Gæti 20 manna starfslið skilað 2ja til 3ja klukkustunda dagskrá, ef notað væri
allmikið erlent efni.
Orkuaukning Keflavíkurstöðvarinnar olli miklum deilum. Stjórnarand-
staðan á Alþingi gagnrýndi hana harðlega og lagði til að útbreiðsla stöðvarinn-
ar yrði heft og bundin við herstöðina eina. Fóru áherslur manna nokkuð eftir
afstöðunni til varnarsamstarfsins, en flestum þótti þó með öllu óviðunandi
frá menningarlegu og þjóðmetnaðarlegu sjónarmiði að láta Bandaríkjamenn
á Vellinum sjá Islendingum fyrir sjónvarpi. Benedikt Gröndal flutti langa
ræðu við umræðuna. Hann taldi ekki ástæðu til að banna varnarliðsstöðina,
en vildi leggja alla áherslu á að hraða undirbúningi íslensks sjónvarps. Hann
ræddi möguleika á alls konar fræðslu og skemmtiefni í sjónvarpi og sagði:
„Ég skil ekki þá bölsýnismenn sem telja sjónvarpið óalandi og óferjandi,
þótt sýnilega séu þeir á hverju strái hér á íslandi...Ég hef staðfasta trú á að
Islendingar ráði fjárhagslega við rekstur sjónvarps. Ég er sannfærður um að
sjónvarpið muni reynast máttugt tæki til fræðslu, til aukinnar menningar,
og það muni styrkja þann íslenzka arf, sem er líf okkar og tilveruréttur sem
sjálfstæðrar þjóðar. Ég vona, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé á
sama máli, hvað sem þeir fínu menntamenn í Reykjavík segja, og að ekki
standi á Alþingi og ríkisstjórn í þessu frekar en öðrum framfaramálum.“
(Alpt, 1961, B, 2696-2702)
A næsta ári, 1962, var flutt frumvarp um tekjur af viðtækjasölunni. Þá fékk
Benedikt samþykkta tillögu um að nota hagnað Viðtækjaverslunar af inn-
flutningi útvarpstækja til að undirbúa rekstur sjónvarps. En ríkisstjórnin hélt
þó að sér höndum, enda var Ólafur Thors forsætisráðherra alveg andvígur
sjónvarpsáformum. Benedikt Gröndal kvað svo að orði í grein löngu síðar:
„Ólafur átti þetta viðhorf sameiginlegt með öðrum hárprúðum forsætis-
ráðherra og vini sínum, Davíð Ben Gurion í ísrael. Lönd þeirra urðu meðal
hinna síðustu til að taka upp eigið sjónvarp.“ (Samvinnan, 5, 1981)
Eftirmaður Ólafs á stóli forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafði allt
aðra afstöðu og fáum dögum eftir að hann tók við, í nóvember 1963, sam-
þykkti ríkisstjórnin að hrinda af stað undirbúningi að stofnun íslensks sjón-
varps. Sett var á fót nefnd sem skyldi gera tillögur um „með hverjum hætti