Andvari - 01.01.2010, Qupperneq 63
andvari
DÓMSDAGSMYND GUNNARS GUNNARSSONAR
61
Arnþrúður er komin góðan spöl upp í loftið ... Hver hefur teygt svo mjög úr stiga
mínum? Svo mjög, svo mjög! Því svo hár er hann orðinn að ekki sér fyrir endann á
honum upp á við! ...
Og hvaða söngur er nú þetta? Og hvaða ljós? Og mikil furða er að sjá hvað kerlingin
getur klifrað! Það er eins og hún þræði sig upp eftir gullnum köngulóarvef inn í
skínandi heiðríkju síðdegisins. (s. 218)
Kaflanum lýkur á því að höfundurinn kveðst ætla að ganga út og sjá hvernig
fari fyrir grafbúunum sínum „þarna efst í heiðríkjunni“ (s. 221) en í stuttum
eftirmála, sem skrifaður er af dönskum útgefanda verksins, kemur fram að
viku fyrir göngur hafi Jaki fundist dauður undir stiganum og handrit bókar-
innar á skrifborði hans.
Hugmyndir manna um lúðrablástur á dómsdegi byggjast á nokkrum ólíkum
ritningarstöðum í Biblíunni. Meðal lykiltexta í þessari hefð er ritningargrein í
Matteusarguðspjalli þar sem Kristur lýsir endalokum veraldarinnar: „Þá mun
tákn Mannssonarins birtast á himni og allar kynkvíslir jarðar hefja kvein-
stafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og
mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri og þeir munu
safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli“ (24:30-31). í tilviki
Vikivaka á þó enn betur við ritningargrein úr Fyrra Korintubréfi Páls postula
sem lýsir upprisu holdsins á efsta degi: „Því lúðurinn mun gjalla og þá munu
dauðir upp rísa óforgengilegir og við munum umbreytast“ (15:52). Á hvor-
ugum þessara ritningarstaða er rætt um að Kristur dæmi lifendur og dauða
við þetta tækifæri en því hlutverki hans er víða lýst í Nýja testamentinu, meðal
annars í Matteusarguðspjalli þar sem Kristur segir við lærisveinana: „Þegar
Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð
þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir ísraels“
(19:28). Aftar í guðspjallinu segir ennfremur að á dómsdegi muni allar þjóðir
safnast saman frammi fyrir Kristi, „og mun hann skilja hvern frá öðrum, eins
og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar Guð sér til hægri handar
en höfrunum til vinstri“ (25:32-33).
Svo vikið sé að Jakobsstiganum þá er honum lýst í frásögn Fyrstu Móse-
bókar af draumi Jakobs í Betel:
Hann tók stein er þar var og setti undir höfuð sér og lagðist þar til svefns. Og hann
dreymdi draum. Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru
upp og ofan eftir stiganum.
Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns,
og Guð ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. Þeir munu verða
fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og
allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. Og sjá, ég er með þér
og gæti þín hvar sem þú ferð og mun leiða þig aftur til þessa lands því að ég yfirgef þig
ekki fyrr en ég hef komið því til leiðar sem ég hef heitið þér.“