Andvari - 01.01.2010, Side 125
ANDVARI
AÐ VERÐA AÐ ALVÖRU MANNI
123
að uppi á teningnum hjá Gosa, enda er hann hættur að drepa samviskuna, og
hefur áhyggjur af því hvernig álfkonan kunni að bregðast við breytni hans
og honum finnst hún „[...] vera að toga í treyjuermina sína.“ (Gosi, 165).
Amma Páls togar heldur betur í treyjuermi Páls á ögurstundu þegar hann
er kominn að því að láta undan kynhvöt sinni, og er því lýst á kíminn hátt
þegar fætur stúlkunnar eru að skiljast og þau að því komin að renna saman:
„... hver stendur mér þá fyrir hugskotssjónum og horfir vandlega á mig, hver
nema amma sáluga, Sigríður Pálsdóttir, forðum yfirsetukona á Djúpafirði.
Hún segir ekki neitt, en kyrrlátur svipur hennar heldur mér í skefjum, knýr
mig til að rannsaka samvisku mína [...]“. (Gangvirkið, 205). Páll hlýðir rödd
samviskunnar, ömmu sinnar, að þessu sinni en hún megnar þó ekki að stöðva
hann í annað skipti sem holdlegar freistingar koma við sögu, enda fær hann
þar litlu um ráðið þegar Lovísa, dóttir húsráðenda Páls, ákveður að kveðja
hann með eftirminnilegum hætti.
í upphafi sögunnar um Gosa finnur viðarhöggvari trjádrumb sem hann
hugsar sér að höggva niður í eldivið en trjádrumburinn kveinkar sér þegar
til á að taka. Viðarhöggvarinn skoðar drumbinn og segir við sjálfan sig:
„Þetta er öldungis venjulegur eldiviður, öldungis einsog hver annar drumbur.
Hvað ætlar þetta að verða? Ætli eitthvað sé falið innan í honum?“ (Gosi, 9). I
Pálssögu er lagt upp með ákveðið viðfangsefni og má líkja því við ómótaðan
viðardrumb. Páll Jónsson er ungur sveitadrengur, nýkominn á mölina og lang-
ar til að læra. Þegar Gosi er á leið í skólann í fyrsta sinn með stafrófskverið
sem faðir hans hafði keypt handa honum með því að selja utan af sér spjar-
irnar, hefur hann háar hugmyndir og „einn loftkastalann byggði hann öðrum
fegri.“ (Gosi, 39). Það er skemmst frá að segja að hann lætur afvegaleiðast,
selur stafrófskverið til að eiga fyrir aðgöngumiða á gervikarlasýningu. Páll
Jónsson hættir námi sökum fátæktar, selur gömlu klukkuna hennar ömmu
sinnar og fer að vinna hjá vikuritinu Blysfara. Páll leggur upp með miklar
væntingar um menningarleg skrif í blaðið en þar er ekki birt neitt í líkingu
við það sem Páll gerir sér í hugarlund í fyrstu. Hann lendir í þeirri stöðu að
snúa vondum sögum, stela skrítlum og velja úr lélegum kvæðum til birtingar
árum saman þvert ofan í það sem hann trúir á. Lesendur Blysfara vilja ekki
menningu af því hún er svo leiðinleg en þó tala þeir iðulega um blaðið sem
mikið menningarblað. Þjóðin vill stundargaman og skyndiafþreyingu - yfir-
borðsmenningu. Það má þannig segja að Páll verði strengjabrúða í eins konar
gervikarlaleikhúsi, vanlíðan hans eykst jafnt og þétt og endar með því, í lok
fyrstu bókar, Gangvirkinu, að gangvirki það sem hann telur sig finna fyrir í
brjósti sínu stöðvast. Gangvirki þetta er gegnumgangandi stef í þríleiknum og
er m.a. tákn um lífsvilja og hreinleika hjartans. Þegar Páll gengur um of gegn
eðli sínu og samvisku stöðvast það.