Andvari - 01.01.2010, Síða 127
ANDVARI
AÐ VERÐA AÐ ALVÖRU MANNI
125
með tönnunum eins og hákarl en tuggði það eins og kanína“. (Seiður og hélog,
154-155). Það er ekki fjarri lagi að hægt sé að tengja þessa lýsingu á Steindóri
beint við söguna af Gosa. Þar koma fyrir bæði hákarl og kanínur, svo um
vísun í Disney og Gosa þarf vart að fjölyrða. Samviskuflugan segir eitt sinn
við Gosa: „Mundu, að drengir, sem gera ætíð það eitt er þeir vilja, iðrast þess
fyrr eða síðar.“ Páll bregður sér iðulega í hlutverk flugu þessarar og reynir
að vera rödd samviskunnar og skynseminnar í samtölum við Steindór en það
kemur fyrir lítið. Páll hefur í upphafi mikið álit á Steindóri en það álit minnk-
ar og vex á víxl eftir hegðun Steindórs. Steindór endar sem óhamingjusamur
og drykkfelldur gagnfræðaskólakennari sem yrkir í mesta lagi danslagatexta
við ameríska slagara. Ósagt skal látið um iðrun Steindórs en minna verður
úr honum en efni stóðu til. Vert er að taka hér fram að persóna Steindórs er
ekki eins einföld og af þessari samlíkingu mætti ætla. Hún þjónar öðru og
veigameira hlutverki í þríleiknum sem andstæða en jafnframt spegilmynd
aðalpersónunnar, uppreisnarseggur og talsmaður óþægilegs sannleika sem
Páll vill ekki horfast í augu við.
V
Gosi er oft iðrunarfullur og vorkennir sjálfum sér talsvert. Þar má finna
samhljóm með honum og Páli. í Gangvirkinu ber á talsverðri sjálfsvorkunn
hjá Páli og miklum trega. Gosi endurtekur sömu mistökin æ ofan í æ, iðrast
jafnan ógurlega og grætur sáran. Hann segir iðulega eitthvað á þá leið að hann
sé ólánsgrey sem hafi orðið að þola margt og í einu örvæntingarkastinu segir
hann: „Jeg hefi aldrei lifað glaðan dag alla mína æfi. Hamingjan hjálpi mjer.
Hvað verður um mig? Hvað verður um mig?“ (Gosi, 138). Páll spyr sjálfan sig
margra og erfiðra spurninga og lýkur öðru bindi á þeirri sömu og Gosi spyr
sjálfan sig í örvæntingu: „Hvað verður um mig?“ (Seiður og hélog, 340). Því er
einnig líkt farið með Páli og Gosa að báða langar þá til að verða að „alvöru“
mönnum. Gosi verður, þegar á líður, uppgefinn á því að vera spýtukarl og
langar í eitthvað annað og meira. Hann barmar sér og segir: „Skelfing leiðist
mér að vera alt af gerfikarl [...] mig langar til að verða maður“. (Gosi, 125).
Gosi veit að hann verður að taka sig á og vinna fyrir því en á langa og erfiða
leið fyrir höndum. Páll segir snemma í fyrstu bók þríleiksins, Gangvirkinu,
þegar ekkert blasir við honum nema fátækt og basl í Reykjavík, hann er
auralaus og atvinnulaus og orðinn þreyttur á sultarlífinu: „Ég hef um skeið
gefið mig á vald barnalegum draumórum, en nú er það liðið hjá. Nú langar
mig einungis til að vera vandaður og prúður maður“. (Gangvirkið, 36). Páll er
vandaður að upplagi en hann á líkt og Gosi eftir að þreyta marga prófraunina
í þessari viðleitni sinni.