Fréttablaðið - 04.02.2012, Blaðsíða 26
4. febrúar 2012 LAUGARDAGUR26
É
g hef verið á milljón síðan ég
kom, í ýmsu stússi fyrir mynd-
ina og svo er ég líka að skoða
önnur verkefni fyrir árið. Á
þeim vígstöðvum er ýmislegt
á seyði en ekkert þó svo fast í
hendi að ég geti greint frá því. Reyndar hef
ég ekki tölu á því hversu oft ég hef flogið
fram og til baka í vetur og gæti best trúað
því að svona verði það næstu árin. Þetta er
ansi mikið flakk,“ segir leikarinn Þorvald-
ur Davíð Kristjánsson þegar hann sest niður
með blaðamanni á Kaffivagninum í örstuttu
stoppi hér á landi.
Þorvaldur býr í Los Angeles á vesturströnd
Bandaríkjanna en hyggst heimsækja Ísland
aftur í lok mánaðarins vegna frumsýningar
kvikmyndarinnar Svartur á leik í leikstjórn
Óskars Þórs Axelssonar. Þorvaldur fer með
sitt fyrsta aðalhlutverk í myndinni og er að
vonum spenntur fyrir útkomunni.
Fór á rúntinn í dóp-partí
Svartur á leik er byggð á samnefndri
skáldsögu Stefáns Mána frá árinu 2004 og
fjallar um átök í undirheimum Reykjavíkur,
sem er ekki lengur lítil, saklaus borg, í
kringum aldamótin síðustu. Þorvaldur fer
með hlutverk ungs manns að vestan, Stefáns
Kormáks Jónssonar (nafn sem myndi hæfa
presti í Kollafjarðarnesi, eins og Þorvaldur
Davíð kemst að orði) sem ávinnur sér
gælunafnið Stebbi „psycho“ eftir því sem
á líður söguþráðinn. Stebbi flytur í bæinn,
gengur illa í Iðnskólanum og flækist inn í
heim glæpa og eiturlyfja.
Þetta eru þá væntanlega dekkstu hliðar
Reykjavíkur sem kafað er ofan í?
„Já. Í raun fjallar myndin öðrum þræði
um þróun íslensks glæpaheims, hversu mikil
harka hljóp í hann á þessum tíma í kringum
aldamótin, og þessi heimur verður sífellt
hrottalegri. Persónan sem ég leik, Stebbi
„psycho“, hittir gamlan kunningja sinn frá
sveitaplássinu fyrir vestan, Tóta, og biður
hann um að gera sér greiða. Tóti er sjóaður í
bransanum og þegar fólk er byrjað að þiggja
greiða í þessum heimi er erfitt að komast
út úr þeim vítahring. Stebba finnst þetta
spennandi til að byrja með en eftir því sem
hann sekkur dýpra og grefur upp meiri skít
líður honum verr og verr og fer nánast niður
til helvítis. Samt á hann erfitt með að losa sig.
Þannig er nú fíknin.“
Hvernig undirbjóstu þig fyrir hlutverkið?
„Ég lagðist í meðvitaða rannsóknar vinnu,
fór meðal annars á rúntinn með eiturlyfja-
sölum og í nokkur dóp-partí. Ísland er svo
lítið land og einhver þekkir alltaf einhvern.
Það þurfti bara nokkur símtöl til og ég var
kannski kominn í partí á þriðjudagskvöldi
þar sem flestir voru í neyslu. Í þessum
heimi er keyrsla allan sólarhringinn og engu
skiptir hvaða dagur er. Þetta var vissulega
skrýtið að ganga í gegnum þessa reynslu.
Dapurlegast þótti mér að horfa í augun á
mörgum og merkja falinn harm sem leynist
í þeim. Flestir sem eru í neyslu vilja komast
út úr henni en vita ekki hvernig þeir eiga
að fara að því. Þegar ég bý til karakter
í samvinnu við leikstjórann reyni ég að
skilja hvernig sá karakter hugsar, stúdera
muninn á samfélaginu nú og þá og reyni að
skilja neysluna, hvernig líkaminn bregst
við ákveðnum fíkniefnum. Ég vinn dálítið
eins og rannsóknarlögreglumaður. Leita
að vísbendingum og einhvers konar svari,
sem þó er aldrei fullmótað því manneskjan
er svo margbreytileg.“
Raunveruleg mynd af Reykjavík
Undirheimarnir eru fullir af ofbeldi, eins
og þú bendir á, og myndin væntanlega líka.
Mun Svartur á leik hneyksla áhorfendur?
„Myndin gæti eflaust hneykslað ákveðinn
aldurshóp. En best gæti ég trúað að fólk
verði fyrst og fremst sjokkerað að sjá
að svona er raunveruleikinn. Mörg af
atvikunum í myndinni eru byggð á sönnum
atburðum og eru því raunveruleg.“
Mæddi mikið á þér í þínu fyrsta aðalhlut-
verki við upptökur á myndinni?
„Já, því ég leik aðalsöguhetjuna, sögu-
manninn, og kem fyrir í næstum hverju
einasta atriði í myndinni. Ég var alltaf á
staðnum og þetta voru langir vinnudagar.
Sumir halda að það sé eintómur glamúr að
leika í bíómynd, en það er lítill glamúr í
því að bíða blautur í kaldri rútu í Hvalfirði
um miðja nótt eða láta berja sig í snjónum.
Að því sögðu var þetta auðvitað yndisleg
reynsla og algjör forréttindi að taka þátt í
gerð myndarinnar.“
„Reyndu upptökurnar á þig líkamlega?“
„Slagsmálaatriði og kynlífssenur reyna
á mann bæði líkamlega og andlega. Þessi
mynd er í raun eitt stórt adrenalínrúss og
tók virkilega á. Ég fann ekki fyrir miklu
stressi, en þjáðist af svefnleysi og á tímabili
var ég kominn með álagsbólur á vangana.
Bólurnar sjást í myndinni og ég er enn að
berjast fyrir því að þær verði teknar fram
í kreditlistanum í lok myndarinnar. Það
getur líka vel verið að öll þessi neikvæða
orka í kringum þennan heim sem ég setti
mig inn í hafi haft sitt að segja. Ég trúi á
samband líkama og sálar, þótt ég sé alls
enginn spíritisti.“
Áhugamálin setið á hakanum
Síðustu fjögur árin hefur Þorvaldur stundað
leiklistarnám í hinum virta Juilliard-
listaháskóla í New York, en hann útskrifaðist
úr skólanum í vor.
Hvernig er svo tilfinningin að vera
útskrifaður leikari?
„Hún er góð. Ég hef auðvitað leikið á
sviði frá því ég var tólf ára patti, en það
var mikill léttir að útskrifast því þetta var
að vissu leyti erfitt nám. Frábært nám og
gagnlegt, en gerði það að verkum að ég hafði
lítið svigrúm til að láta hugann reika og öll
áhugamál sátu á hakanum. Það tók líka
dálítið á að vera útlendingur og leika á öðru
tungumáli en ég er vanur. Í raun og veru
er ég fyrst að ná áttum núna eftir þetta allt
saman.“
Þú segir áhugamálin hafa setið á hakan-
um, hafðirðu þá engan tíma til að spila fót-
bolta?
„Nei, ekki enn þá en núna er ég að leita
mér að fótboltahópi í Los Angeles til að
spila með. Ég var mikið í fótbolta fram að
fimmtán ára aldri eða svo og var nokkuð
góður, spilaði með fantagóðu liði Þróttar,
varð Íslandsmeistari í 6. flokki og nokkrum
sinnum Reykjavíkurmeistari. En ég var
alltaf frekar lítill, dálítið tilfinninganæm-
ur listamaður líklega, og held ég hafi valið
rétt þegar ég valdi leiklistina fram yfir bolt-
ann. Fótboltinn fer þó aldrei úr mér og mér
finnst rosalega gaman að spila hann.“
Í náminu fæddist þó annað áhugamál hjá
þér, tónlistin, sem varð til þess að þú hefur
gefið út nokkur lög?
„Já, ég byrjaði að læra á gítar til að bæta
samhæfinguna, að gera nokkra hluti í einu
eins og að syngja og spila, gagngert til að
verða betri leikari. Svo fór ég að semja lög
[lagið Sumarsaga sem Þorvaldur Davíð
samdi ásamt æskuvini sínum, grínistanum
og rithöfundinum Sólmundi Hólm, náði
nokkrum vinsældum sumarið 2009] og geri
enn. Einhvern tíma geri ég plötu, en fyrst
og fremst er tónlistin áhugamál hjá mér. Ég
hlusta á flestar tegundir af tónlist og læt
skapið ráða för. Þegar ég fer út að skokka
hef ég Metallica í botni, Chopin hlusta ég á
meðan ég læri, Stevie Wonder þegar ég er að
koma mér í gírinn og svo framvegis.“
Best að leika á íslensku
Eins og áður sagði flutti Þorvaldur Davíð frá
New York til Los Angeles ásamt Hrafntinnu
Karlsdóttur unnustu sinni og hefur parið
nýlega komið sér fyrir í íbúð í austurhluta
Hollywood Hills-hverfisins. Leikarinn er
þar með samning við umboðsskrifstofu og
segist hafa í hyggju að einbeita sér fyrst og
fremst að kvikmyndaleik á næstunni, þótt
hann sé reiðubúinn að skoða verkefni hvar
og hvernig sem þau bjóðast.
„Skemmtilegast finnst mér þó að leika á
íslensku, því tungumálið er í mér. Ég kann
mjög vel við mig í Los Angeles og borgin
er skemmtilegri en ég þorði að vona. Í
New York labbaði maður um allt en í Los
Angeles er maður alltaf að krúsa um með
K-EARTH 101 í útvarpinu og njóta sín í
sólinni. Kærastan mín er mikil félagsvera
og við erum aðeins farin að kynnast fólki,
ætlum til dæmis að mæta á þorrablótið
sem verður haldið í byrjun mars. Ég get vel
hugsað mér að búa í Los Angeles næstu árin,
en við sjáum hvað setur.“
Það þurfti bara nokkur símtöl til og ég var
kannski kominn í partí á þriðjudagskvöldi
þar sem flestir voru í neyslu.
Stakk sér ofan í undirheimana
Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikur Stebba „psycho“, sitt fyrsta aðalhlutverk í bíó, í myndinni Svartur á leik sem frumsýnd er í
byrjun næsta mánaðar. Leikarinn býr í Los Angeles en hitti Kjartan Guðmundsson í stuttum skreppitúr til Íslands í vikunni.
KLIKKAÐUR Jóhannes Haukur Jóhannesson, vinur Þorvaldar Davíðs, sem einnig leikur í Svartur á leik, æfði stíft og bætti á sig miklum vöðvum fyrir sitt hlutverk. „Ég þurfti hins vegar að grenna mig,“ segir Þorvaldur
Davíð. „Það var sameiginleg ákvörðun mín og leikstjórans að hafa Stebba mjóan og dálítið klikkaðan.“ FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON