Læknablaðið - 15.09.1990, Blaðsíða 24
342
LÆKNABLAÐIÐ
//. 6. Áhcetta samfara lceknisaðgerð
Þá vil ég víkja að öðrum norskum dómi (RG
1960, 372), sem einnig fjallar um skemmda
taug, en af allt öðru tilefni. Með aðgerð voru
þrjú þykkildi fjarlægð af hálsi á konu og við
síðari rannsókn kom í ljós að í þeim voru
berklar. En í aðgerðinni hafði læknir skaddað
taug, sem leiddi til varanlegrar örorku.
Læknirinn var sýknaður í skaðabótamáli
gegn honum. Var talið ósannað að tjónið yrði
rakið til vanrækslu eða læknisfræðilegra eða
tæknilegra mistaka. Þá sagði í forsendum
dómsins að umrætt tjón hafi ekki verið fyrir
utan þá áhættu, sem eðlilegt er að ætla að
sérhver sjúklingur verði að taka á sig er
hann gengst undir læknisaðgerð. Ég tel að
í þessum dómi komi fram viðhorf, sem
viðbúið er að íslenskir dómstólar muni taka
undir að óbreyttum réttarreglum, það er að
í læknisaðgerðum felist ætíð viss hætta á að
eitthvað fari úrskeiðis með þeim afleiðingum
að sjúklingur verði fyrir tjóni, sem ekki var
reiknað með. Ef ekki er sýnt fram á saknæma
háttsemi læknis við aðgerð, gáleysi eða
mistök, þá verði hann ekki talinn bótaskyldur
fyrir slíku tjóni.
II. 7. Formreglur
Undir vissum kringumstæðum kann læknir
að þurfa að gæta vissra formreglna svo
honum sé heimilt að framkvæma aðgerð,
sem ella kann að leiða til skaðabótaskyidu.
Á gildi slíkra formreglna reyndi í dómi
Hæstaréttar frá árinu 1979 (Hrd. 1979,
1285). Tvítug stúlka, andlega vanheil, gekkst
undir botnlangaaðgerð árið 1961. Læknirinn
notaði tækifærið og rauf báða eggjaleiðara
konunnar í sömu aðgerð og gerði hana þar
með ófrjóa. I sjúkraskýrslu sagði að þetta
hafi verið gert fyrir brýna beiðni aðstandenda
stúlkunnar og nánustu ráðamanna og með
hliðsjón af andlegri heilsu hennar. Hins vegar
yfirsást lækninum að leita leyfis landlæknis
til að framkvæma ófrjósemisaðgerðina, en
slíkt var fortakslaust skilyrði samkvæmt
ákvæðum í þágildandi lögum nr. 16/1938
um ófrjósemisaðgerðir og fleira. Sakir
þessa heimildarskorts ályktaði Læknaráð að
aðgerðin hafi ekki verið tilhlýðileg. Á sama
grundvelli var læknirinn og sjúkrahúsið,
þar sem aðgerðin var framkvæmd, dæmd
bótaskyld gagnvart stúlkunni.
II. 8. Sönnun og sönnunarbyrði
Ekki er skilyrði fyrir sök að læknir hafi
með athöfn sinni eða athafnaleysi brotið
lagareglur eins og til dæmis einhver ákvæði
læknalaganna. Þó kann það að auðvelda
sönnun fyrir sök, ef hægt er að sýna fram á að
læknir hafi brotið gegn einhverjum ákveðnum
settum lagareglum. Sem dæmi má nefna ef
sýnt er fram á að læknir hafi brotið gegn 13.
gr. læknalaganna um skyndihjálp og heilsutjón
orðið, þá er til muna auðveldara en ella að
staðreyna að háttsemi læknisins hafi einnig
verið saknæm og bótaskylda því til staðar.
Samkvæmt almennu skaðabótareglunni, sem
fyrr var nefnd, er það meginregla, að sá sem
fyrir tjóni verður skal sanna að annar maður
hafi valdið tjóninu með saknæmum hætti.
Sem meginregla gildir þessi regla einnig
varðandi sönnun á meintum skaðaverkum
lækna. Oft eru aðstæður þó þannig að tjónþoli
á erfitt með að afla tilskilinna sönnunargagna.
Kemur þá bæði til að læknir býr einn yfir
sérfræðilegri þekkingu um málsatvik og
hann einn hefur undir höndum öll gögn
varðandi sjúkling og hans sjúkdóm, til dæmis
sjúkraskýrslur. Þegar þannig háttar getur verið
rétt að slaka á meginreglunni um sönnun
til hagsbóta fyrir tjónþola það er sjúkling.
Getur sönnunarbyrði þá snúist við og lækni
gert að færa sönnur á tilvik sem til dæmis
eiga að vera skráð í sjúkraskýrslur. Á slíka
undantekningu frá meginreglunni reyndi til
dæmis í fyrrgreindum Hæstaréttardómi frá
í febrúar síðastliðnum. Eftir að konan hafði
lagst inn á fæðingardeild sjúkrahússins var
tengdur við hana síriti. Fram kom í málinu,
að strimill úr síritanum hafði upphaflega
fylgt sjúkraskýrslu um konuna en týnst síðar
af ókunnum orsökum. í dómi var talið að
skráningu í skýrslur deildarinnar hafi verið
verulega ábótavant, jafnframt að nefndur
strimill, sem var mikilsvert gagn, hafi farið
forgörðum. Athuganir á vegum sjúkrahússins
hafi ekki skýrt frekar þau atriði, sem á skorti.
Eigandi sjúkrahússins var því látinn bera halla
af skorti á sönnun um atvik að því er bamið
fæddist með heilasköddun.
II. 9. Orsakasamband og sennileg afleiðing
Þótt sök sé sönnuð þá er og skilyrði fyrir
bótaskyldu að orsakasamband sé á milli
hinnar saknæmu háttsemi og þess tjóns,