Læknablaðið - 15.11.1990, Blaðsíða 27
LÆKNABLAÐIÐ 1990; 76: 449-56
449
Ása Guðmundsdóttir, Hildigunnur Ólafsdóttir, Þórður Harðarson, Helgi Tómasson,
Júlíus K. Björnsson, Tómas Helgason
REYKINGAKÖNNUN Á RÍKISSPÍTÖLUM
ÚTDRÁTTUR
Gerð var könnun á reykingum, þekkingu
á skaðsemi þeirra og viðhorfum til
reykingabanns á heilbrigðisstofnunum meðal
alls starfsfólks Ríkisspítala. Svör bárust frá
60.5% starfsfólks. Um fjórðungur svarenda
kvaðst reykja. Mun fieiri reykja meðal yngri
starfsmanna en þeirra eldri. Fæstir reykja í
hópi lækna (7%), en meðal ræstinga-, vakt- og
aðstoðarfólks eru miklu fleiri reykingamenn.
Þekking á skaðsemi reykinga er almennt
góð, meiri meðal yngra fólks, en aðeins
15% svarenda virðast vita um hættur tengdar
reykingum foreldra fyrir fóstur og böm.
Næstum helmingur svarenda vill að reykingar
á heilbrigðisstofnunum verði alveg bannaðar,
en alls vilja um 98% að reykingar verði
takmarkaðar. Fleiri þeirra sem ekki reykja
vilja að reykingar verði alveg bannaðar og
fleiri með miðlungs- eða mikla þekkingu vilja
algert bann. Um 82% reykingafólks vilja hætta
að reykja, fleiri konur en karlar. Um 89%
reykingamanna finnst að Ríkisspítalar eigi að
bjóða upp á námskeið fyrir þá sem vilja hætta
að reykja.
INNGANGUR
Nú eru um 30 ár síðan færðar voru órækar
sannanir fyrir því að tóbaksreykingar
auka tíðni lungnakrabbameins (1,2) og
kransæðasjúkdóma (3). Rannsóknir á áhrifum
tóbaksnotkunar hafa í auknum mælj sýnt
fram á skaðsemi tóbaksreykinga og hefur sú
þekking mótað viðhorf almennings og dregið
úr tóbaksnotkun.
Fyrsta lagaákvæði um tóbaksvamir komst
í framkvæmd árið 1969 er aðvaranir um
skaðsemi tóbaks voru settar á umbúðir
tóbaksvamings (4). Árið 1971 var síðan
sett bann við tóbaksauglýsingum utandyra
Fyrirspurnir, bréfaskipti; Ása Guðmundsdóttir, geðdeild
Landspítala.
og í kvikmyndahúsum og fjölmiðlum. Auk
þess átti að ráðstafa 2% af brúttótekjum
vegna sölu tóbaks í landinu til þess að
vara við tóbaksreykingum, en aðvaranir á
sígarettupökkum voru lagðar niður vegna
annmarka á framkvæmd. Sérstök lög um
tóbaksvamir tóku síðan gildi árið 1985 (5).
Er þeim ætlað að draga úr tóbaksneyslu og
þar með því heilsutjóni sem hún veldur, og
að vemda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks,
þ.m.t. óbeinna tóbaksreykinga. Samkvæmt
lögunum má því aðeins hafa tóbak til sölu eða
dreifingar að skráð sé aðvörun um skaðsemi
þess á umbúðimar. Tóbaksreykingar eru nú
óheimilar á þeim stöðum þar sem almenningur
sækir þjónustu, nema á skemmtistöðum, og
er skylt að merkja sérstaklega að 'reykingar
séu bannaðar. Á sjúkrahúsum má einungis
leyfa reykingar á tilteknum stöðum þar sem
þær eru ekki til óþæginda fyrir þá sem reykja
ekki. Samkvæmt lögunum varðar sektum að
halda áfram að reykja í húsakynnum þar sem
bannað er að reykja, enda hafi umráðamaður
húsakynna veitt áminningu.
Setning laganna um reykingavamir sýnir að
orðið hefur veruleg hugarfarsbreyting meðal
Islendinga og meira tillit tekið til þeirra sem
ekki reykja. Sums staðar hafa reykingar verið
alveg bannaðar, annars staðar hafa verið
afmörkuð sérstök svæði þar sem reykingar eru
leyfðar. Enn er sú lausn þó víða ófullkomin,
jafnvel á sjúkrahúsum, þar sem ekki hefur
tekist að afmarka reykingasvæði, hvorki fyrir
sjúklinga né starfsfólk, þannig að ekki valdi
óþægindum þeim sem ekki reykja.
Víða erlendis hefur náðst mjög góður árangur
í baráttunni gegn reykingum og á sumum
háskólasjúkrahúsum bæði austan hafs og
vestan hafa reykingar verið alveg bannaðar.
Einnig má benda á að ýmis flugfélög hafa
bannað reykingar á ákveðnum leiðum og
reykingabann er að ganga í gildi í öllu
innanlandsflugi í Bandaríkjunum, en það getur
tekið allt að fimm klukkustundir.