Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.08.1993, Blaðsíða 31

Læknablaðið - 15.08.1993, Blaðsíða 31
LÆKNABLAÐIÐ 1993; 79: 237-42 237 Kristinn Jóhannsson, Grétar Ólafsson, Jónas Magnússon ENDURAÐGERÐIR Á BRINGUBEINSLOSI OG MIÐMÆTISSÝKINGUM EFTIR OPNAR HJARTAAÐGERÐIR ÁGRIP Opnar hjartaaðgerðir eru nú framkvæmdar víða um heim. Til þess að komast að hjartanu er bringubeinið klofið að endilöngu og það síðan tryggilega fest í lok aðgerðar með stálvírum. Ef los kemst á beinið veldur það röskun og tíðni sýkinga í skurðsári vex. Allar enduraðgerðir vegna slíks loss eru sjúklingum erfiðar og ekki án áhættu. Góður mælikvarði á gæði skurðaðgerða er tíðni enduraðgerða. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna tíðni enduraðgerða eftir opnar hjartaaðgerðir vegna loss eða sýkingar. Frá 14. júní 1986-31. desember 1991 voru framkvæmdar 616 opnar hjartaaðgerðir á Landspítala, en frá 1. janúar 1983 til 31. desember 1986 var 481 opin hjartaaðgerð framkvæmd erlendis. Allar enduraðgerðir vegna loss eða sýkinga voru kannaðar afturskyggnt. Enduraðgerðimar voru framkvæmdar hérlendis en upphaflegu aðgerðirnar voru ýmist framkvæmdar hérlendis eða erlendis. Tíðni enduraðgerða hjá hópnum sem fór fyrst í aðgerð á Landspítala var 1,5%, en 5,1% hjá hópnum sem fór fyrst í aðgerð erlendis (p<0,001). Tíðni enduraðgerða eftir skurðaðgerð á Landspítala er lág og stenst fyllilega samanburð við besta árangur sem aðrir hafa náð. INNGANGUR Þegar hjartaaðgerðum fjölgaði þurfti nýjan skurð til þess að komast á fljótan og öruggan hátt inn að hjarta. Árið 1957 var farið að kljúfa bringubeinið eftir endilöngu til þess að komast að hjartanu. Reynslan hefur sýnt að þessi skurður þolist vel og verkir eftir Frá handlækningadeild Landspítalans. Fyrirspurnir, bréfaskipti: Kristinn Jóhannsson, brjóstholsskurðlækningadeild Landspítalans, 101 Reykjavík. aðgerð eru litlir þegar tekst að halda beininu tryggilega saman, venjulega með vírum, uns það er gróið eftir sex til 12 vikur. Festing á bringubeini getur gefið sig af ýmsum ástæðum og valdið losi á beininu. Enn alvarlegra er þegar húðin opnast einnig, því þá er greið leið fyrir sýkingar niður í miðmæti (1). Slíkar sýkingar þarf að uppgötva sem fyrst, annars getur sýkingin haldið áfram, eyðilagt bringubein og geislunga, skemmt og rofið sauma, sýkt lokur og græðlinga með slæmum afleiðingum. Tíðni slíkra sýkinga í heiminum er nú frá 0,37% upp í 8,4% (2-4). Skurðsárið getur sýkst blóðleiðina eftir aðgerð, vegna sýkinga annarsstaðar í líkamanum, en einnig við aðgerðina sjálfa (2-4). Opnar hjartaaðgerðir eru algengar víða um heim. Stærsti hluti þessara aðgerða eru kransæðaaðgerðir, gerðar með tækni sem þróuð hefur verið frá 1967 í Bandaríkjum Norður Ameríku (5). Hér á landi hófust opnar hjartaaðgerðir 14. júní 1986 og við árslok 1991 höfðu verið gerðar 616 aðgerðir. Hér er um stóran sjúklingahóp að ræða og það skiptir miklu máli að þessar aðgerðir gangi skjótt og vel fyrir sig og að tíðni aukakvilla sé í lágmarki. Á þann hátt verður sjúkrahúslegan styttri, kostnaður við aðgerðirnar minni og sjúklingar fljótari að ná sér eftir aðgerð og verða fyrr vinnufærir. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga tíðni sýkinga og loss á bringubeini hjá sjúklingum, sem skornir voru hérlendis og að gefa upp samskonar tíðnitölu fyrir Islendinga sem skornir voru erlendis 1. janúar 1983 til ársloka 1986, þar sem gera þurfti enduraðgerð vegna loss eða sýkingar. EFNIVIÐUR Um tvo hópa er að ræða, annars vegar sjúklinga, sem skornir voru upp á Landspítala og komu síðan til enduraðgerðar (hópur 1), og hins vegar sjúklinga sem voru skornir

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.