Læknablaðið - 15.12.1994, Qupperneq 51
LÆKNABLAÐIÐ 1994; 80
559
ingtonteinum og strekkt á hrygg, í sex sjúklingum
(9%) voru notaðir Harringtonteinar af annarri gerð
og í 11 sjúklingum (16%) voru notaðar Williams-
Meurig plötur. Tuttugu og tveir sjúklingar (32%)
voru spengdir með beinfrauði. Meðalrétting á horn-
skekkju var 10,9%. Samfall á liðbol minnkaði að
meðaltali um 37,8%. Þrír sjúklingar fengu sýkingu
eftir aðgerð. Hjá níu sjúklingum losnaði innri festing
strax eftir aðgerð. I sex sjúklingum (9%) versnaði
taugastarsemi a.m.k. tímabundið strax eftir aðgerð.
Tveir af þessum sex sjúklingum höfðu engan taugaá-
verka fyrir aðgerð. Enginn sjúklingur dó eftir að-
gerð.
Lokaorð: Fylgikvillar voru fremur tíðir og rétting
á skekkju um áverkastað var ófullnægjandi nema
hornskekkju. Ofangreindar aðferðir við innri fest-
ingu og réttingu á hryggáverkum eru ekki lengur
notaðar við Borgarspítalann.
17. Botnlangataka með
kviðsjá eða opin aðgerð? —
Framsýn slembirannsókn
Auður Smith, Tómas Guðbjartsson, Höskuldur
Kristvinsson, Tómas Jónsson, Jónas Magnússon
Handlækningadeild Landspítala, læknadeild Há-
skóla Islands
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að botnlangataka
með kviðsjá er örugg og auðveld aðgerð. Þrátt fyrir
talsverðan fjölda rannsókna hefur ekki sannast að
kviðsjáraðgerð sé betri en hefðbundin aðgerð hjá
sjúklingum með bráða botnlangabólgu. Dregið er í
efa að nýja aðgerðin sé fjárhagslega hagkvæm enda
hefðbundin botnlangataka fljótleg og einföld. Til-
gangur rannsóknarinnar var að bera saman aðgerð-
artíma, sjúkrahúslegu og vinnutap eftir opna eða
lokaða aðgerð.
Gerð var framsýn slembuð samanburðarrannsókn
á botnlangatöku með kviðsjá og hefðbundinni að-
gerð á handlækningadeild Landspítala. Alls greind-
ust 40 sjúklingar (>15 ára) klínískt með botnlanga-
bólgu á 15 vikna tímabili og völdust 20 sjúklingar til
opinnar aðgerðar og 20 til kviðsjáraðgerðar. Meðal-
aldur og kynjaskipting var áþekk í hópunum tveim-
ur. Lagt var mat á fylgikvilla, aðgerðartíma, sjúkra-
húsdvöl og vinnutap eftir aðgerð.
Sjúklingar sem gengust undir kviðsjáraðgerð voru
komnir fyrr til vinnu (sjö dagar, miðtala) en þeir sem
fóru í opna aðgerð (10 dagar). Lítill munur var á
lengd sjúkrahúsdvalar eða tveir dagar fyrir kviðsjár-
hópinn en þrír dagar fyrir þá sem fóru í opna aðgerð.
Fylgikvillar voru óverulegir í báðum hópunum en
aðgerðatími var lengri við kviðsjáraðgerðirnar (75
mínútur á móti 45 mínútum).
Kviðsjáraðgerð á botnlanga er örugg aðgerð.
Legudagar eru enn óverulega færri en eftir opna
aðgerð. Hins vegar koma sjúklingar mun fyrr til
vinnu. Enn sem komið er tekur kviðsjáraðgerð
lengri tíma. Við teljum kviðsjáraðgerð álitlegan val-
kost fyrir sjúklinga með bráða botnlangabólgu, ekki
síst í tilvikum þar sem vafi leikur á greiningu.
18. Brjóstholsspeglanir og
aðgerðir við loftbrjósti um
holsjá
Guðjón Birgisson, Gunnar H. Gunnlaugsson
Skurðlækningadeild Borgarspítalans
Fyrsta gallblöðrutakan um holsjá á Borgarspítal-
anum var gerð í nóvember 1991. Eftir að ákveðin
reynsla hafði fengist af þessari tækni var byrjað á
brjósholsspeglunum og aðgerðum við sjálfkrafa loft-
brjósti um holsjá í apríl 1992. A tímabilinu apríl 1992
— mars 1994 var gerð 41 brjóstholsaðgerð um holsjá,
þar af voru 28 vegna loftbrjósts. Þessar loftbrjósts-
aðgerðir voru gerðar á 26 einstaklingum þar eð tveir
gengust undir aðgerðina, fyrst öðrumegin en síðar
hinumegin, á tímabilinu. Karlar voru í meirihluta
eða 23 og meðalaldur var 28 ár (16-67). Aðgerðirnar
voru í fyrstu einungis gerðar vegna hefðbundinna
ábendinga svo sem langvarandi loftleka, endurtek-
ins loftbrjósts eða tvíhliða loftbrjósts. Innlagnir
vegna loftbrjósts á tímabilinu voru því miklu fleiri en
aðgerðimar eða 56. Aðgerð stóð að meðaltali í 69
mínútur (32-144) og sjúklingar voru að meðaltali
komnir heim á þriðja degi frá aðgerð. Tveir einstakl-
ingar fengu fylgikvilla, annar lungnabólgu en hinn
lofthvarf (atelectasis) og vökva í fleiðruhol sem
hurfu án meðhöndlunar.
Á síðari hluta tímabilsins var farið að brjósthols-
spegla og gera við loftbrjóst strax við fyrstu innlögn
og hafa 10 einstaklingar gengist undir aðgerð við
loftbrjósti í fyrsta skipti. Fljótlega var það mark sett
að reyna að útskrifa sjúklinginn daginn eftir aðgerð.
Er þá klemmt fyrir brjóstholskera kl. 6 morguninn
eftir aðgerð, röntgenmynd er tekin kl. 11 og sýni hún
ekki merki um loftbrjóst er kerinn tekinn og sjúkl-
ingurinn útskrifaður. Þetta tókst hjá fimm sjúkling-
um af 10 en í hinum tilvikunum þótti vissara að hafa
kera einum til tveimur dögum lengur.
Meðhöndlun við fyrsta loftbrjósti tekur miklu
skemmri tíma með þessari aðferð en kerameðferð
eingöngu (einn til tveir dagar á móti sex til sjö) og
gera má ráð fyrir að endurinnlögnum fækki. Þar sem
það sama er gert við lungað hvort sem aðgerð er
gerð um holsjá eða opið má reikna með sama árangri
í báðum tilvikum. Aðgerð um sjá tekur skemmri
tíma en opin aðgerð (69 á móti 77 mínútum að
meðaltali), sem er óvenjulegt við holsjáraðgerð.
Sjúklingurinn verður vinnufær miklu fyrr. Segja má
að opnar aðgeðrir við sjálfkrafa loftbrjósti séu ekki
lengur gerðar á skurðlækningadeild Borgarspítal-
ans.