Læknablaðið - 15.02.1997, Qupperneq 26
98
LÆKNABLAÐIÐ 1997; 83
lingi, 7. óskir fjölskyldu sjúklings, 8. framlag
sjúklings til samfélagsins, 9. þjáningar vegna
meðferðar, 10. annað, 11. kostnaður. Hjá
hjúkrunarfræðingum var röðin þessi: 1. lífs-
gæði, 2. aldur sjúklings, 3. eðli sjúkdóms, 4.
líkamleg færni, 5. líkur á að meðferð gagnist
sjúklingi, 6. framlag sjúklings til samfélagsins,
7. óskir sjúklings, 8. óskir fjölskyldu sjúklings,
9. þjáningar vegna meðferðar, 10. kostnaður,
11. annað. Það er athyglivert hve neðarlega
óskir sjúklings lenda hjá Bandaríkjamönnun-
um, en taka verður tillit til að niðurstöðurnar
eru átta ára gamlar.
Einnig er mikil samstaða um að æskilegt sé
að innan spítala séu til staðar skráðar leiðbein-
ingar um takmörkun meðferðar við lífslok.
Þessar niðurstöður eru í samræmi við þær er-
lendu rannsóknir sem vitnað er til að framan
(5-7). Þeir sem völdu liðinn annað í spurning-
unni um rök fyrir skráðum leiðbeiningum
sögðu flestir þær tryggja starfsöryggi, þar sem
hlutirnir lægju skýrir fyrir. Dæmi um svör úr
þeim lið eru: Pað stuðlar að því að þessi
ákvörðun sé tekin í tíma og dregur úr óöryggi
unglækna og annarra sem starfa utan dagvinnu-
tíma. Eykur öryggi og hjálparfólki að tala sam-
an. Einfaldar ákvarðanatöku fyrir lækninn.
Meðferð verður markvissari og allir vita út á
hvað hún gengur. Eykur öryggi starfsfólks og
eykur traust milli starfsfólks og skjólstæðinga.
Minnkar líkur á að tilgangslausri meðferð, sem
skapar sjúklingi þjáningar, sé haldið áfram.
Læknar og hjúkrunarfræðingar eru sammála
um að undir engum kringumstæðum sé réttlæt-
anlegt að deyða ákvörðunarhæfan, ólæknandi
sjúkling þótt hann æski þess. Læknar og hjúkr-
unarfræðingar eru tilbúin að virða óskir sjúk-
lings upp að því marki sem þær samrýmast
skyldum þeirra. Líknardráp er ekki ein af
skyldum lækna eða hjúkrunarfræðinga og
raunar ólöglegt víðast hvar. Hollendingar og
íbúar Norðurfylkis Ástralíu leyfa þó líknar-
dráp við ákveðin skilyrði (14,15) og umræða er
um slíkt leyfi í sumum fylkjum Bandaríkjanna,
svo sem Oregon (16) og Massachusetts (17).
í öðrum málum eru skoðanir skiptar. Þegar
spurt er hvert vísa eigi ágreiningi um takmörk-
un meðferðar, innan heilbrigðisstétta eða milli
heilbrigðisstétta og skjólstæðinga eru hóparnir
einungis sammála um að slíkur ágreiningur eigi
ekki erindi fyrir dómstóla nema í undantekn-
ingartilvikum. Læknar á íslandi vilja að læknar
leysi þann ágreining sem upp kemur, annað
hvort innan spítala í siðanefndum eða utan
hans hjá landlæknisembættinu. I þeim leið-
beiningum um takmörkun meðferðar við lífs-
lok sem í gildi eru á Borgarspítala segir að
verði ágreiningur milli lækna og aðstandenda
skuli leita úrskurðar landlæknis en verði
ágreiningur milli lækna innbyrðis skuli leita
álits starfs- og siðanefndar læknaráðs (12).
Hjúkrunarfræðingar vilja hins vegar að þver-
fagleg siðanefnd úrskurði þegar upp kemur
ágreiningur. Þessi munur kemur ekki á óvart,
margir læknar telja að ákvörðun um meðferð
sé einungis á valdi lækna og hjúkrunarfræðing-
ar gætu talið hagsmunum sjúklings betur borg-
ið þar sem fleiri sjónarmið koma fram.
Læknar telja sig eiga mun auðveldara með
að ræða takmörkun meðferðar við sjúklinga en
hjúkrunarfræðingar, enda kemur það í hlut
læknis að ræða horfur og meðferðarmöguleika
við sjúklinginn eða fjölskyldu hans.
Annað atriði sem læknar og hjúkrunarfræð-
ingar eru ekki sammála um er hvort læknar
hafi samráð við hjúkrunarfræðinga við ákvörð-
un um takmörkun meðferðar við lífslok. Það
skal tekið fram að hér var ekki verið að spyrja
hvort læknar teldu rétt eða æskilegt að slíkt
samráð sé haft, heldur einungis hvort það eigi
sér stað eða ekki. Það mikla misræmi sem er
milli þess hve oft læknar telja sig hafa samráð
við hjúkrunarfræðinga og hversu oft hjúkrun-
arfræðingar telja þá gera það vekur upp þá
spurningu hvort læknar og hjúkrunarfræðingar
leggi sömu merkingu í orðið samráð. Samráð
lækna og hjúkrunarfræðinga hlýtur að fela í sér
upplýsingamiðlun, en einnig faglegt mat á
meðferðarmöguleikum og horfum. Samráð
getur átt sér stað án þess að allir leggi jafnt til
umræðunnar. Fróðlegt væri að kanna nánar
skilning lækna og hjúkrunarfræðinga á hugtak-
inu samráð og hvernig því er best fyrir komið
með hagsmuni sjúklingsins í huga. I banda-
rískri könnun frá 1984 kemur fram að læknar
töldu sig hafa samráð við sjúklinga mun oftar
en þeir gerðu í raun (19). Vert væri að kanna
nánar samráð lækna við sjúklinga hér á landi,
skilning þeirra á hugtakinu og gæði þeirrar um-
ræðu. Hjá mörgum læknum kom fram að þeir
telja aðstandendur ekki aðila að ákvörðun um
takmörkun meðferðar og sjá því litla ástæðu til
að hafa samráð við þá. Þetta er í samræmi við
það að ákvörðunarhæfur sjúklingur getur tekið
sjálfstæðar ákvarðanir í samráði við lækni jafn-
vel þó að fjölskyldan hefði aðrar óskir. Hins