Dagblaðið Vísir - DV - 01.06.2007, Blaðsíða 34
FÖSTudagur 1. júní 200734 Sport DV
Golf er sífellt vaxandi íþrótt hér
á landi sem annars staðar. Iðkend-
um fjölgar ár frá ári og það á ekki
síður við um iðkendur sem eiga við
fötlun að stríða. Skipulagðar æfing-
ar fyrir golfara með fötlun fara fram
í Básum á hverjum miðvikudegi á
milli klukkan 16 og 18. Umsjónar-
maður verkefnisins, sem er á veg-
um Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi
(GSFÍ), er Hörður Barðdal.
Golfæfingar fyrir fatlaða hófust
fyrir tíu árum síðan og auk Harð-
ar eru valinkunnir golfþjálfarar á
staðnum til að leiðbeina krökk-
unum. Golfsamband Íslands og
Íþróttasamband fatlaðra stofnuðu
á sínum tíma Golfsamtök fatlaðra
og Hörður segir að þörfin sé mikil.
„Golfíþróttin er samkvæmt
skýrslum önnur fjölmennasta
íþróttin á Íslandi. Það kæmi mér
nú ekki á óvart þótt hún væri fjöl-
mennust. Þá hlýtur að vera svipað
hlutfall milli fatlaðra og ófatlaðra í
þessari íþrótt eins og öðrum. Það
kæmi mér ekki á óvart að á milli
150 til 200 fatlaðir einstaklingar
væru farnir að iðka golf. Það er ekki
eingöngu fyrir okkar tilstilli.
Íþróttin sjálf dregur einstakl-
ingana að sér. Við erum bara hluti
af þessu og við viljum veita fólki
möguleikann á því að iðka íþrótt-
ina þrátt fyrir fötlun sína,“ segir
Hörður og bætir við að nauðsyn-
legt væri að foreldrar og börn geti
stundað sama áhugamál þrátt fyrir
fötlun eins fjölskyldumeðlims.
„Mér finnst skemmtilegast að
sjá að foreldrar koma með börnin
sín hingað til að þau geti farið sam-
an í golf. Börnin eiga ekki að þurfa
að vera heima á meðan foreldrarnir
spila golf, eingöngu vegna þess að
barnið er fatlað. Svo er ekki verra ef
barnið getur dregið foreldrana með
sér í golf. Þetta er tilgangur okkar,“
segir Hörður.
Frá níu ára upp í áttrætt
Æfingarnar í Básum stunda ein-
staklingar með ýmis konar fötlun
og um tíu einstaklingar stunda æf-
ingarnar reglulega. Iðkendur eru á
öllum aldri, eða allt frá níu ára upp
í áttrætt. Hörður segir að GSFÍ ætli
sér að leggja áherslu á sitjandi golf
í sumar. En það er golf fyrir þá sem
eru bundnir við hjólastól.
„Við erum komin með stól sem
hægt er að sitja í og slá úr, fyrir fólk
sem er lamað fyrir neðan mittið.
Þetta er möguleiki sem ekki hefur
verið boðið upp á áður og við ætl-
um að hafa þetta í sumar. Við heyr-
um alltaf um slys á ungu fólki sem
hryggbrotnar og því er þá kippt út
úr flestri starfsemi en þarna er einn
möguleiki. Þeir eru auðvitað fjöl-
margir hjá Íþróttasambandi fatl-
aðra en golfið er einn í viðbót,“ segir
Hörður.
„Það er annar hópur sem við vilj-
um líka fá inn í sumar og það eru
þeir sem hafa misst aðra höndina.
Því að þeir geta spilað á báða vegu,
bæði með forhönd og bakhönd. Það
er minnsta mál í heimi. Það þarf
leiðréttingar hvað varðar tæknina
og annað en við höfum þekkinguna
til að leiðbeina þessu fólki. Við vit-
um alveg nákvæmlega hvernig þetta
er gert,“ segir Hörður.
Hann segir að aukningin hafi
verið mikil ár frá ári. „Það er tíu til
fimmtán prósenta aukning á hverju
einasta ári. Við byrjuðum að vísu í
Hafnarfirði og við vorum með nem-
endur þar sem bjuggu á því svæði.
Svo þegar við fluttum hingað í
þessa aðstöðu þá var eins og þeir
krakkar hafi ekki skilað sér hing-
að. Ekki eins og við vorum að von-
ast til. Þannig að líklega verðum við
að setja upp aðstöðu þar aftur,“ segir
Hörður en æfingarnar í Básum eru
einu æfingarnar sem skipulagðar
eru fyrir golfara með fötlun.
Hann segir þó að fyrirhugað sé
að fara til Akureyrar og halda nám-
skeið þar. „Við viljum koma þessu
út um allt, því okkar fólk er úti um
allt.“
Fékk lömunarveiki níu ára
Hörður fékk lömunarveiki árið
1955, þá níu ára gamall. Hann segist
ekki hafa smitast af golfdellunni ung-
ur. „Ég rakst einhvern tímann á golf-
sett í geymslunni heima hjá mér. Ég
tók eina kylfuna og var að hamast við
að slá og allt í einu hitti ég boltann og
hann flaug. Þetta einhvern veginn sat
í mér þar til ég hafði efni á að kaupa
mér golfsett og átti möguleika á að
spila,“ segir Hörður.
Hann segir að þeir sem hafa
áhuga á að byrja að æfa golf þurfi
aðeins að mæta á æfingu. „Við erum
með áhöldin og við erum með golf-
bílinn fyrir þá sem eru sitjandi,“ segir
Hörður og bætti við að þeir sem eru
sitjandi ættu að hafa samband við
Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur hjá
ÍF eða senda tölvupóst á hordur@
ehp.is. Hann sagði einnig að sama
hver fötlunin væri, allir fengju þá
aðstoð sem þeir þyrftu við að spila
golf við góðar aðstæður.
dagur@dv.is
LÁTA FÖTLUN EKKI AFTRA SÉR
Spáð í spilin Snæbjörn Áki og Sveinbjörn vanda til
verksins þegar kemur að því að pútta.
Allir vegir færir Hörður Barðdal sýndi góð tilþrif á
golfbílnum góða sem tilvalinn er fyrir fólk í hjólastól.
Efnilegir spilarar Páll Ágúst, Snæbjörn Áki og Sveinbjörn eru
hér ásamt golfkennaranum Sigurmanni á grafarholtsvelli.
Skipulagðar æfingar fyrir
golfara með fötlun eru viku-
lega í Básum í Grafarvogi.
Nýlega eignuðust Golfsam-
tök fatlaðra bíl sem gerir
sitjandi fólki kleift að spila.
DV leit við á æfingu í vik-
unni og ræddi við Hörð
Barðdal, umsjónarmann
verkefnisins.