Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Page 17
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 2013 17
helgi grÍmsson og anna KristÍn sigUrÐardóttir
Ég sagði og hef alltaf sagt að þetta eru meira svona starfshættir sem tíðkast á yngri
stigum grunnskóla. Þetta var nýrra fyrir unglingakennarana sem fannst þetta mjög
flókið í framkvæmd. Þar eru kennarar svo fastir í greinum.
Fulltrúi sveitarfélags Birkiskóla hélt því fram að sveitarfélög ættu sóknarfæri til
þróunar skólastarfs með því að huga vel að hönnun skólabygginga. Hann benti á að
skólar væru byggðir til langs tíma og þyrftu að geta hýst margar gerðir skólastarfs og
margar skólastefnur. Sveigjanleiki og fjölbreytileiki væru lykilatriði.
Arkitekt Greniskóla minnti á að í hönnun, líkt og svo mörgu í lífinu, kæmu tilteknir
hlutir í bylgjum og það ætti við um opnu skólana. Kennarar geti átt í erfiðleikum með
að taka upp nýjar starfsaðferðir í nýju umhverfi því sumir hafi trú á þessu en aðrir
ekki. Sumt fólk hafi fyrst og fremst reynslu af að kenna í hefðbundnu rými og fari því
fljótt í sitt gamla far. Arkitekt Furuskóla tók fram að í hans tilviki hefðu kennarar vitað
að hverju þeir gengju, sem væri kostur: „Þetta er náttúrulega nýr skóli, þannig að
kennarar sem að réðu sig í skólann þeir vissu náttúrulega að hvernig vinnuumhverfi
þeir gengu.“
Undirbúningur og innleiðing starfs í nýjum skóla
Segja má að undirbúningur starfs í skóla hefjist strax í hugmyndavinnu fyrir hönnun
byggingarinnar. Innleiðingu starfs lýkur ekki fyrr en reynsla er komin á skólastarfið og
skólasamfélagið hefur öðlast þjálfun, reynslu og leikni í að fylgja eftir þeim kennslu-
fræðilegu áherslum sem lagt var upp með.
Staðið var með ólíkum hætti að undirbúningi starfs í þeim skólum sem hér um
ræðir. Í tilviki Asparskóla og Birkiskóla hófst hann með vinnu að skólastefnu sveitar-
félagsins, í tilfelli Furuskóla með nýtingu á niðurstöðum hugmyndaferlis sem farið
var í við undirbúning hönnunar skólans og í tilviki Greniskóla með þátttöku kennara
í þróunarverkefni tengdu einstaklingsmiðuðu námi í aðdraganda endurbyggingar
skólans.
Skólastjóri Asparskóla hafði eitt ár til að þróa starfsgrundvöll skólans út frá skóla-
stefnu sveitarfélagsins og þeim möguleikum sem nýja skólabyggingin bauð. Þannig
var kominn tiltekinn rammi utan um starfið áður en starfsfólk var ráðið til starfa.
Skólastarf hófst í Furuskóla eftir að hugmyndavinnu lauk en hún fór fram með
virkri þátttöku alls skóla- og grenndarsamfélagsins og var skýrsla um hana leiðarljós í
þróun skólastarfsins sem fór fram í bráðabirgðahúsnæði fyrstu skólaárin. Skólastjórn-
andinn sagði að í upphafi starfsins hefðu þau sem starfshópur verið mjög meðvituð
um niðurstöður hugmyndavinnunnar og unnið talsvert eftir henni:
Við þekktum þetta allt frá upphafi og [vorum] sífellt að rifja það upp út á hvað þetta
gekk allt saman. Og vorum í raun og veru þokkalega trú þessum hugmyndum.
Þannig var alveg ljóst hvert skyldi stefnt og hver áherslan ætti að vera í skólanum.
Í Greniskóla var byrjað með þróunarverkefni um einstaklingsmiðað nám áður en
byggingarframkvæmdir hófust. Starfshópurinn fékk bæði handleiðslu frá fræðslu-
deild sveitarfélagsins og Kennaraháskóla Íslands varðandi einstaklingsmiðað nám og
hvernig mætti takast á við breytingar.