SunnudagsMogginn - 04.03.2012, Blaðsíða 34
34 4. mars 2012
Velflestir Íslendingar sem haldatil Kanaríeyja fara þangað til aðsleikja sólina, enda eru ferðirþangað auglýstar sem sól-
arferðir. Það má þó gera fleira þar en liggja
á ströndinni, svamla í sjónum eða þræða
barina, því fáir staðir henta betur til
gönguferða en einmitt eyjarnar þrettán.
Veðurfar er þar gott allan ársins hring,
landslag fjölbreytt og engar óttalegar
skepnur sem ógnað geta göngumönnum,
engar eiturpöddur, snákar eða mannýg
villidýr. Þegar við bætist að samgöngur
eru jafnan góðar um eyjarnar má segja að
hér sé komin paradís göngumannsins.
Ekki bara sólbað
Gran Canaria var forðum sú eyja sem
flestir Íslendingar fóru til, þó að nú fari
fjölmargir, og kannski flestir, til Tenerife
eða Lanzarote. Margir halda þó tryggð við
Gran Canaria og Ensku ströndina, Playa
del Ingles, og hér verður sjónum beint að
henni, enda hentar Gran Canaria
einstaklega vel til gönguferða, enda
fjöllótt og falleg og loftslag á henni fjöl-
breytt; því hefur verið haldið fram að hún
sé sem smágerð heimsálfa, enda er þar að
finna gullstrendur, eyðimerkur, hrikaleg
gil, fjalllendi með kyrkingslegum þykk-
blöðungum, háfjallagróðri og furuskóg,
en líka nánast regnskóg og hitabelt-
isplöntur.
Miðja eyjarinnar er fjalllend og veðurfar
eftir því, sjaldan of heitt á daginn og sjald-
an of kalt á nóttunni. Norðan við fjallið
mikla Pico de Las Nieves (1.949 metrar) og
hálendið í kringum það er veðurfar mild-
ara en fyrir sunnan, þar rignir meira og
gróðurfar er eftir því. Þannig getur verið
rigning og/eða þoka fyrir norðan fjall á
meðan fólk stiknar á ströndinni fyrir
sunnan þó að eyjan sé ekki stór; ekki
nema 1.560 ferkílómetrar og þvermál
hennar um 50 km. Það segir sitt um stærð
eyjarinnar að það tekur mann ekki nema
hálfan annan tíma eða svo að aka frá
ströndinni að miðju hennar og hæsta
punktinum.
Konunglegar asnaslóðir
Það bendir ekki margt til þess að Gran
Canaria sé gönguparadís þegar ekið er frá
flugvellinum norður til höfuðborgarinnar
La Palmas eða suður á sólarstrendurnar
við Playa del Ingles, Puerto Rico eða Ar-
guineguin. Hvarvetna blasir við auðn,
enda þrífst fátt í svo miklum hita og
þurrki og löngu aflögð tómataræktun sem
var upp um allar hlíðar í fyrndinni þó að
enn megi sjá merki um áveituskurði. Víst
er grænt að sjá í kringum sumardval-
arstaði á leiðinni, þar sem hóteleigendur
hafa komið upp grænu skjóli, en annars er
landslagið hrjóstrugt og óaðlaðandi. Það
er og svo víðast á suðurhlutanum, gróð-
urfar er með dauflegra móti og grænkar
ekki að ráði fyrr en maður er kominn
nokkuð hátt upp í fjöllin þó að það sé ekki
beinlínis gróskumikið nema á norður-
hlutanum.
Víða í fjöllunum eru merktar göngu-
leiðir, en ekki gott að treysta fullkomlega
á þær merkingar. Á undanförnum árum
hafa stjórnvöld lagt talsverða vinnu og fé í
að endurgera gamlar þjóðleiðir á eyj-
unum, svonefndar Caminos Reales, kon-
ungsvegi, sem voru þjóðleiðir á milli
þorpa og þá farin önnur leið styttri en nú-
verandi bílvegir, enda má klífa talsverðan
bratta á tveimur jafnfljótum með fótviss-
an asna sér til halds og trausts. Verkið er
mislangt á veg komið og þó að víða sé
hægt að feta sig eftir slíkum konunglegum
slóða er rétt að festa kaup á góðri göngu-
bók ef halda á upp í fjöll, til að mynda
bókinni sem getið er um hér til hliðar.
Möndlutré í blóma
Þeir sem haldið hafa í fjallgöngur og há-
lendisgönguferðir kunna flestir að klæða
sig, en samt er rétt að taka fram að gott er
að hafa með sér hlýjan fatnað ef ganga á á
Gran Canaria enda getur kólnað uppi í
fjöllum á Kanarí ekki síður en á Íslandi, þó
að ekki verði þar jafn kalt og íslenskt
vetrarveður. Þó að það sé 30 stiga hiti á
ströndinni getur verið 15 stiga hiti uppi í
fjöllum eins og getið er um hér að ofan, þó
að þar sé annars bjartviðri eða sólskin.
Ekki má svo gleyma því að vera vel birgur
af sólarvörn, með sólhatt og nóg af vatni
og svo að vera vel búinn til fótanna. Að
þessu sögðu eru þær gönguferðir sem hér
er getið um ekki erfiðar og ættu að henta
fyrir hvern og einn sem kemst langleiðina
upp Esjuna.
Íslendingar kannast vel við sig í fjall-
lendi Kanaríeyja, enda eru eyjarnar orðn-
ar til við eldgos í sjó líkt og Ísland. Á Kan-
aríeyjum er veðurfar þó með öðrum hætti
en á Íslandi, því þó að þar geti hvesst
hressilega og brostið á með
sannkölluðu steypiregni þá flís-
ar frostið ekki bergstálið líkt og
hér heima og á Gran Canaria
voru engir skriðjöklar sem
skófu út dali og slípuðu niður
fjalleggjarnar. Gilin eru því
mörg hrikaleg og jafnvel hrika-
lega hrikaleg og á sumum fjalla-
slóðum þarf að fara varlega.
Hvassar fjallseggjar og djúpir
gilskorningar gera svo sitt í að
tryggja fjölbreytt veðurfar og þó að það sé
rigning á ströndinni getur verið besta
veður uppi í fjöllum og öfugt. Best er að
ganga á suðurhluta eyjarinnar yfir vet-
urinn, frá nóvember fram að páskum, en
norðurhlutann er best að skoða frá febr-
úar fram í júní þegar gróður er þar í mest-
um blóma. Að því sögðu er hægt að ganga
hvarvetna á eyjunni allt árið og til að
mynda er mjög skemmtilegt að ganga í
gróðurlendi norðanlands upp úr miðjum
janúar þegar möndlutrén standa í blóma
og ekki síst þegar haldin er árleg mönd-
luhátíðarvika í þorpunum þar í lok jan-
úar/byrjun febrúar.
Taktu strætó
Á Gran Canaria er prýðilegar almennings-
samgöngur. Þeir sem hagvanir eru á
sunnanverðri eyjunni kannast eflaust
við Global-vagnana og þeir koma að
góðum not-
um þegar
leggja á
upp í lang-
ferðir. Ótal gönguleiðir eru að-
gengilegar frá suðurströndinni,
til að mynda sú sem ég lýsi hér,
en einnig er gott að taka rútuna og þá
oft vagn 18 sem leið hans liggur upp á
miðja eyju, til að mynda til San Bartolomé
de Tirjana eða Tejeda, en á þeim slóðum
eru margar skemmtilegar gönguleiðir.
Í annarri göngunni sem ég lýsi hér er
vagn tekinn til Puerto Rico frá Playa del
Ingles, til að mynda leið 33, en aðrir vagn-
ar fara sömu leið, og síðan gengið yfir fjöll
til Arguineguin og þaðan eftir ströndinni
til baka. Hin gangan er á norðurhluta eyj-
arinnar, í allt öðruvísi umhverfi, og þá
genginn hringur frá smábænum Vega de
San Mateo, en leiðin þangað lá til Las Pal-
mas með leið 30 og svo leið 303 til Vega de
San Mateo (hægt er að fara með 18 frá Las
Palmas til Vega de San Mateo).
Langi lesandann í frekari göngu-
ævintýri en hér eru rakin má benda á fyr-
irtæki sem sett hefur saman gönguleið á
milli gististaða sem gengin er á átta dög-
um. Gangan hefst í Arucas á norður-
hluta eyjarinnar, þaðan er gengið til
Tejeda, svo San Bartolomé,
Fataga og loks Agüimes, en
segja má að gönguleiðin liggi
nánast eftir eyjunni endilangri,
frá norðri til suðausturs. Far-
angur er fluttur á milli hótela
þannig að göngufólk þarf ekki
að bera nema göngupoka.
Sjá: http://goo.gl/YQCr5
Sól, sandur
og grjót
Gönguleiðalýsingarnar sem hér er sagt frá eru báðar upp úr bókinni Don’t Leave Gran Can-
aria Without Seeing it eftir Rambling Roger. Roger sá sem um ræðir er á sjötugsaldri og hef-
ur búið á Kanaríeyjum í hálfan annan áratug að hann segir sjálfur frá. Hann býr í Fataga,
sem er skammt frá San Bartolomé de Tirjana í hálendinu um miðbik eyjarinnar.
Í Don’t Leave Gran Canaria Without Seeing it eru 25 gönguleiðir, flestar um 4-5 tímar, fá-
einar styttri og sumar nokkru lengri. Lengsta gangan er hálfur áttundi tími með hækkun
upp á 1.300 metra og lækkun upp á 1.400 metra og því býsna strembin á pappírnum í það
minnsta.
Flestar göngurnar kemst maður í með því að taka strætó og allmargar eru miðaðar við
það að lagt sé upp frá Playa del Ingles en sumar eru þannig að maður þarf að hafa bíl við
höndina. Leiðarlýsingar í bókinni eru mun ítarlegri en þær sem ég læt fylgja, auk þess sem
Roger gefur upp GPS-punkta með reglulegu millibili allar gönguleiðirnar. Þess má og geta
að hann fer með hópa í gönguferðir á hverjum miðvikudegi og þær ferðir eru ókeypis fyrir
þá sem keypt hafa bókina, hvort sem það er á pappír eða í rafrænni útgáfu. Rafræna útgáf-
an hefur þann kost að maður getur prentað út þá gönguleiðarlýsingu sem framundan er og
haft lýsinguna samanbrotna í vasanum, sjá http://www.ramblingroger.com/.
Norðmannaklúbburinn, Club Noruego, sem starfræktur er í Arguineguin býður
líka upp á vikulegar gönguferðir með leiðsögumönnum sem sjá má á vefsetri
hans, http://www.den-norske-klubben.com/. Á hverjum sunnudegi er létt
ganga sem hefst kl. 10 að morgni, en síðan eru lengri og meira krefjandi göngur
á miðvikudögum. Þess má geta að um 8.000 Norðmenn taka sér vetrarfrí á
þessum slóðum á hverju ári.
Grupo Montañero de Mogán, http://www.trekkingmogan.com, býður líka
upp á fjallgöngur á hverjum sunnudegi og svo eru skipulagðar göngur á vegum
kanaríeyskra fjallamanna, Federación Gran Canaria de Montañismo, sjá:
http://www.fgcm.org/. Þessu til viðbótar er svo legíó af fyrirtækjum sem
skipuleggja ýmsar gönguferðir um Gran Canaria og eins um aðrar eyjar í klas-
anum. Slíkar gönguferðir kosta eðlilega meira en þær sem hér er getið.
Af göngugörpum
Kirkja norskra sjómanna
Flestir fara til Kanaríeyja til að liggja í
sólbaði, enda vita ekki allir að eyj-
arnar eru sannkölluð paradís göngu-
mannsins.
Árni Matthíasson arnim@mbl.is
Þegar komið er upp á tindana blasir við furuskógur.