SunnudagsMogginn - 04.03.2012, Blaðsíða 36

SunnudagsMogginn - 04.03.2012, Blaðsíða 36
36 4. mars 2012 Það er með undirheima Norræna hússins eins ogaðra undirheima, Hel ræður þar ríkjum. Gyðjantekur skarpeygð á móti manni, ægifögur á annanvangann, holdlítil á hinn. Um leið og þetta af- kvæmi Loka og Angurboðu fæddist kastaði Óðinn henni niður í Niflheim – þar sem hún ríkir bersýnilega enn. Í Ragnarökum berst Týr við hundinn Garm sem var bundinn fyrir Gnipahelli í Hel. Týr er vanur að kljást við úlfkynjaða óvætti og berst hraustlega en Garmur er honum sterkari og gleypir hann. Áður en Týr gefur upp öndina í kviði Garms stingur hann sverði sínu í hjarta hundsins innanfrá og drepur hann. Ekki er á þá logið, æsina. Inni í salnum, sem væntanlega mun kallast Éljúðnir næstu tvær vikurnar, tekur Einar Hákonarson listmálari á móti mér. Hann las norræna goðafræði sem drengur en það sem kveikti í honum nú var kvikmyndin „Hetjur Valhallar – Þór“ sem frumsýnd var á síðasta ári. „Það vakti áhuga minn hvað myndin var langt frá mínum hugmyndum um goðafræðina og þess vegna fór ég að glugga aftur í hana. Hún er þvílíkur hafsjór af myndefni ef maður bara vill. Dramatíkin er mikil og goðafræðin tvímælalaust grunnur í okkar menningu enda þótt efnið sé heiðið. Það býr svo margt í okkar menningu sem vert er að horfa á þegar þetta peningaæði er runnið af fólki.“ Álfar upp um alla veggi Enda þótt norræn goðafræði opni sýninguna liggur Einari margt fleira á hjarta að þessu sinni – sem endranær. Sýn- ingin er stór í sniðum, yfir fimmtíu ný olíumálverk, mest- megnis stórir flekar. „Það er búið að mála mikið á Strönd- um,“ upplýsir Einar sem undanfarin ár hefur búið og málað á Hólmavík. Kom sér upp vinnustofu, þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Álfar leika lausum hala á sýningunni og Einar við- urkennir að þeir séu honum hugleiknir í seinni tíð. „Eftir að hafa búið á Ströndum skil ég af hverju álfasögur urðu til. Þegar maður leitar í ræturnar verður goðafræðin ekki bara á vegi manns, heldur ekki síður álfar og tröll. Þetta er mitt framlag til að byggja Ísland upp aftur.“ Honum finnst hann vera nær upprunanum fyrir norðan (eða vestan, eftir því hvernig á það er litið). Meiri einlægni og hreinleiki sé í hugum fólksins en hér syðra. „Það lifir og deyr í sátt við umhverfið og sjálft sig,“ segir Einar og vísar til þess að Bragi Kristjónsson bóksali hafi haldið því fram í Kiljunni í sjónvarpinu fyrir skemmstu að hvergi væri betra samfélag á Íslandi en á Ströndum. Með lífið í lúkunum Sumar myndanna eru persónulegri. Einar nemur staðar við mynd sem hann kallar „Með lífið í lúkunum“. „Ég fór í mikinn uppskurð á síðasta ári og var satt best að segja býsna smeykur. Hér lýsi ég þeirri upplifun.“ Fjölbreytnin á sýningunni er mikil, eldar og hiti brenna í sumum myndanna, í öðrum bítur kuldinn kinn. „Veturinn getur verið langur og auðvitað hefur hann tekið sinn toll af þessari þjóð. Það má hins vegar ekki gleyma því að hann getur verið ægifagur líka,“ segir listmálarinn. „Hvenær fer dramað úr myndinni?“ hrópar nú sýning- arstjórinn, Hjálmar sonur Einars, skyndilega. Hann er að stilla lýsinguna í salnum og þarf kalt mat. Hann býr ekki að amalegum ráðgjöfum í salnum, Einari Hákonarsyni og Ragnari Axelssyni ljósmyndara. Þeir vita eitt og annað um lýsingu. Ég kinka bara kolli. Það er hófadynur í salnum og Einar viðurkennir að hann hafi dálæti á íslenska hestinum. „Ég hef að vísu aldrei verið hestamaður, nema sem strákur í sveit, en íslenski hest- urinn er ótrúleg skepna, sterk og þolmikil með mikla að- lögunarhæfni.“ Á það líka við um íslensku þjóðina? „Það getur meira en verið. Það er hins vegar hægt að eyðileggja með því að halda að henni lágmenning- arkúltúr.“ Túlki það hver fyrir sig. Spurningin er ekki úr lausu lofti gripin en Einar hefur oft notað hesta sem ígildi mannfólksins í verkum sínum. Tvær myndir æpa á mann á þessari sýningu. Annars vegar getur að líta skelkað folald sem má sín lítils andspænis höf- uðskepnunum og voðaverkum okkar mannanna. Skyldi folaldið vera íslenska þjóðin? Hin myndin sýnir sjálfan Sleipni, áttfættan hest Óðins í goðafræðinni, í vígamóð. Í orðsifjaorðabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir að orðið sleipnir sé skylt orðinu sleipur og að eiginleg merking þess sé: Sá sem rennur hratt áfram. Er Sleipnir ef til vill íslenska þjóðin – í náinni framtíð? Spurður hvort við séum að jafna okkur eftir gjörninga- veður síðustu ára hallar málarinn sér aftur í stólnum, hugsi. „Mér finnst alltof mikil deyfð yfir fólki,“ segir hann svo. „Kannski stafar það af því að stjórnvöld gera ekki nógu mikið, eins og þeim ber, til að skapa jarðveg svo fólk geti látið hendur standa fram úr ermum. Þegar ég kom, ungur maður, til Austur-Þýskalands og Póllands var eins og mara lægi yfir öllu. Ástandið hér á landi nú minnir mig á það, sérstaklega þegar maður kemur til Reykjavíkur. Ég örvænti samt ekki enda veit ég sem Íslendingur að í þessari þjóð býr óbeislaður kraftur sem hlýtur að brjótast út fyrr en síðar.“ Auka má þorskkvótann Einari þykir við vera að missa alltof margt fólk úr landi og að landsbyggðin njóti sín ekki sem skyldi vegna rangrar stefnu við stjórn fiskveiða. „Þegar ég var á síðutogurunum í gamla daga mokuðu allra þjóða kvikindi fiski upp á mið- unum við landið. Frá því að kvótakerfið var tekið upp fyrir 28 árum komst vissulega regluverk á veiðar en mörg sjáv- arpláss koðnuðu niður þegar kvótinn fór frá þeim. Sjávar- útvegurinn er líka byggðastefna. Fiskur kemur og fiskur fer, það er gömul saga og ný. Mætti ekki stórauka þorsk- kvótann, sérstaklega á handfæri? Það er alla vega mín til- finning. Maður sér hvað lifnað hefur yfir sjávarplássunum eftir að strandveiðin var tekin upp.“ Að áliti Einars er hægt að heimfæra þennan vandræða- gang á myndlistarlífið í Reykjavík. „Ég hef lengi haldið því fram að miðstýringin og einvaldastefnan í íslensku mynd- listarlífi sé argasta austantjaldspólitík. Heil kynslóð eldri málara hefur kerfisbundið verið haldið frá opinberum sýn- ingarsölunum í yfir 20 ár þar sem hugmyndlistin hefur verið allsráðandi. Það er sorglegt að margir málarar af gamla skólanum sem nú eru látnir voru settir til hliðar í lifanda lífi og þjóðinni nánast gleymdir. Það er von mín að minning og heiður þessara málara verði endurreistur og list þeirra kynnt þjóðinni. Ljósi punkturinn er að það er mikil vakning í málverkinu á heimsvísu, ekki síst hjá ungu listafólki. Þessi sýning hérna í Norræna húsinu er fyrsta sýningin sem ég held í opinberu sýningarrými í tvo ára- tugi. Kannski er það vegna þess að forstjóri Norræna húss- ins Max Dager er sænskur.“ Hann hlær. Einari þykir yfirdrifið nóg að forstöðumenn stóru safn- anna sitji í fjögur ár – átta ár sé óheilbrigt fyrir greinina og leiði til þröngsýni. „Fyrir vikið eru salir safnanna galtómir, nema á opnunum. Viljum við hafa það þannig? Er ekki betra að leyfa öllum miðlum að blómstra?“ Eins og blómi í eggi Einar lifir eins og blómi í eggi á Hólmavík og sér eiginlega eftir því að hafa ekki flutt þangað fyrr á lífsleiðinni. „Ég hef svo mikið næði þarna. Það er ekkert sem truflar mig. Ekki misskilja mig ég elska líka stórborgir, svo sem New York, þar er svo mikil dínamík. Það er hins vegar hvergi betra að vinna úr upplifun sinni en í kyrrðinni á Ströndum.“ Einari finnst hann alls ekki einangraður. „Eftir að int- ernetið kom til sögunnar getur maður fylgst ótrúlega vel með öllu – hvar sem er í heiminum. Hægt er að skoða heilu sýningarnar á netinu og ég nota netið líka mikið til að kynna mig og selja verk.“ Hann kveðst selja mest í Þýskalandi og Bandaríkjunum. „Þjóðverjar virðast vera hrifnir af myndunum mínum, kannski vegna þess að myndheimurinn er svo norrænn. Ég er norrænn málari.“ Stigið niður til Heljar „Það býr svo margt í okkar menningu sem vert er að horfa á þegar þetta peningaæði er runnið af fólki,“ segir Einar Hákonarson listmálari en norræn goðafræði, álfar, hestar, dulúðugt landslag og íslenska þjóðin eru meðal þess sem hann yrkir um á stórri sýningu í Norræna húsinu sem opnuð verður í dag, laugardag, og stendur til 18. mars. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Myndir: Ragnar Axelsson rax@mbl.is Einar Hákonarson og Sleipnir á góðri stundu. ’ Eftir að hafa búið á Ströndum skil ég af hverju álfa- sögur urðu til. Þegar maður leitar í ræturnar verður goðafræðin ekki bara á vegi manns, heldur ekki síður álfar og tröll. Þetta er mitt framlag til að byggja Ís- land upp aftur.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.