Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.04.2013, Page 40
40 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21.4. 2013
Föt og fylgihlutir
Arnar Már Jónsson er 23 ára og hefur haft áhuga á fatahönnun
frá unglingsaldri. Hann er annar tveggja karlkyns nemenda
sem útskrifast í ár en á fyrsta ári stunda fimm strákar nám og
áhugi þeirra því augljóslega fyrir hendi. Arnar Már hefur unnið
talsvert með textíl í gegnum árin sem má segja að fari hönd í
hönd við fatahönnun og hefur hann hug á að vinna með hvoru
tveggja í framtíðinni.
„Skemmtilegast við námið er klárlega útskriftarsýningin en
margt við námið hefur komið mér skemmtilega á óvart. Ég
kunni t.d. ekkert að sauma þegar ég hóf nám en tel mig vera
nokkuð góðan í því í dag,“ segir Arnar Már. Hann vann út-
skriftarlínuna sína út frá útópískum heimi sem hann bjó til og
byggði á því að textíll væri lifandi. Eftir alls konar prufur varð
sú hugmynd ofan á að flíkur væru sífellt að umbreytast og end-
urspeglar fatnaðurinn það. Arnar Már hefur t.a.m. búið til göt á
fötin úr gömlu jakkaefni og saumað á milli, blandað saman
hálfri peysu og hálfum jakka og þar fram eftir götunum.
„Ég vildi nýta efnin eins vel og ég gat og nýtti það langmest
með því að slíta þræði úr jökkum og nota á fötin. Ég notaði
mestmegnis íslenska ull sem ég vann með og þæfði, litaði og
gerði mýkri. Glófi sá mér fyrir allri ull og prjón sem var mjög
gott,“ segir Arnar Már. Hann segir áhrifavald sinn í hönnun
helst vera Raf Simons þó svo að sín eigin hönnun sé ekki
sérlega lík hans.
ARNAR MÁR JÓNSSON
Lifandi textíll
í útópískum heimi
Arnar notar mestmegnis íslenska ull sem hann þæfir og mýkir.
Morgunblaðið/Rósa Braga
Bethina Elverdam Nielsen er dönsk að uppruna en hefur búið
hérlendis í fjögur ár. Það hafði ætíð blundað í Bethinu að læra
fatahönnun en hún prófaði þó fyrst að læra viðskiptafræði og
fann að það hentaði sér ekki. Þó segir hún viðskiptafræðina
eflaust geta komið til góða síðar meir með hönnuninni.
„Ég hef alltaf saumað mikið og leikið mér með mismunandi
stíl. Ég saumaði mér t.d. búninga áður en ég fór á tónleika þeg-
ar ég var yngri. Skemmtilegast við námið er hvernig það hefur
ýtt mér í nýja átt. Áður en ég byrjaði í náminu hélt ég að ég
gæti mun meira en var í raun og ég hef lært ótrúlega mikið á
þessum tíma,“ segir Bethina.
Línan hennar Bethinu er klassísk og innblásin af þeim breyt-
ingum sem urðu á kventískunni í byrjun 20. aldarinnar. Þá
byrjuðu konur að ganga í buxum og um leið urðu pilsin víðari
og þægilegri. Má segja að þessi tími hafa verið ákveðinn
frelsistími í kvenfatnaði og segir Bethina hafa verið gaman að
sökkva sér ofan í rannsóknarvinnu um þessar breytingar sem
síðan skili sér í hönnuninni. Hún notar mikið til ull og silki í
fatnaðinn en einnig leður sem hún hefur prentað á sjálf.
„Ég hef alltaf verið meira fyrir götustíl heldur en eiginlega
tísku og get því ekki nefnt ákveðinn áhrifavald í minni hönnun.
Auðvitað er alltaf eitthvað flott og spennandi í kringum mann
en ég sæki líka minn innblástur í lista- og mannkynssöguna,“
segir Bethina.
BETHINA ELVERDAM NIELSEN
Frelsi í kvenfatnaði einkennir útskriftarlínu Bethinu.
Morgunblaðið/Rósa Braga
Konur í buxum
innblásturinn
Elísabet Karlsdóttir er 24 ára og segir það hafa legið beint við
að fara í fatahönnunarnám enda hafi hún haft áhuga á hönnun
alveg síðan hún hannaði dúkkulísuföt í barnæsku.
„Ég hef alltaf saumað mikið á sjálfa mig en ég hef aldrei get-
að gert neitt eftir uppskrift heldur hef frekar viljað breyta þeim
eftir eigin höfði. Þetta hefur verið kostur í náminu þar sem að
lögð er áhersla á að hanna eftir eigin hugmyndum,“ segir
Elísabet. Hún segir að það hafi verið mjög gott við námið að fá
leiðsögn og mest hafi það gefið henni að vinna raunveruleg
verkefni eins og lokatískusýninguna. Í þeim undirbúningi
kynnist nemendur líka fleiri hliðum tískuheimsins.
Lína Elísabetar er innblásin af gráköldum veruleika Sovéts-
ins þar sem hún vinnur með grátóna skala og notar Sovét-
blokkirnar í mynstur á efnið.
„Ég hafði lengi verið að velta fyrir mér myndum af Sovét-
blokkum sem ég tók á ferðalagi og hugsaði með mér hvort ég
gæti ekki notað þær einhvern veginn. Þetta varð síðan niður-
staðan en ég nota mjúk efni eins og feld, flauel og ullarefni til að
fá smá mýkt í línuna í bland,“ segir Elísabet. Hún segir helst
fylgjast með hönnun Christophers Kanes. Hann sé spennandi
og upprennandi ferskur hönnuður sem sé óhræddur að blanda
saman hefðbundnum og óhefðbundnum stíl. Eftir útskriftina
langar Elísabetu að reyna fyrir sér erlendis og þá helst að
komast í starfsnám eða vinnu í London.
ELÍSABET KARLSDÓTTIR
Sovétblokkir eru skemmtilega óvenjulegt mynstur á fatnaði.
Morgunblaðið/Rósa Braga
Grákaldur veruleiki
Sovétsins
Tíu manna hópur fatahönnunarnema útskrifast umþessar mundir af fatahönnunarbraut ListaháskólaÍslands eftir þriggja ára nám. Í náminu er lögðáhersla á fagmennsku og framsækni nemenda.
Blaðamaður og ljósmyndari litu inn þar sem nemendur
voru í óðaönn að undirbúa útskriftarsýningu sína.
„Þau eru öll að vinna með eigin stíl og hugmyndin
þarf að vera glæný og ekki eitthvað sem þú gætir keypt
úti í næstu verslun. Að geta komið með eigin hugmyndir
tryggir árangur í framtíðinni en um leið verður fatnaður-
inn að vera tískufatnaður og eitthvað sem hægt er að
ganga í,“ segir Linda Björg Árnadóttir, aðjunkt og fags-
tjóri fatahönnunarbrautar.
Fatnaður nemendanna er eins fjölbreyttur og þeir eru
margir en Linda segir að þar megi sjá sitt lítið af hverju,
þjóðleg áhrif, framúrstefnuleg og allt þar á milli.
Gestakennarar hafa vanið komur sínar í deildina en í
vetur var gestakennarinn Robert Cary-Wiliams. Linda
segir gott að fá erlenda kennara í heimsókn sem gjarnan
hugsi langt út fyrir boxið til að hrista upp í krökkunum.
Spurð um framhaldið hjá nemendum í kjölfar útskriftar
segir Linda að þeir séu margir með ákveðnar hugmyndir.
Nokkrir séu ákveðnir í að vinna í útlöndum en spenn-
andi tækifæri hafa skapast með samstarfi við tískuversl-
unarkeðjuna H&M. Síðastliðin tæp tvö ár hafa tveir nýút-
skrifaðir nemendur verið ráðnir þangað til starfa.
„Starfsmannastjóri H&M kemur á tískusýninguna í ár
og tekur alla nemendur í starfsmannaviðtöl. En í fyrra
sendum við portfólíó nemenda út til hennar. Ég hef
reynt að nýta þau sambönd sem ég hef komið upp til
að koma nemendum að hjá fyrirtækjum sem þau hafa
áhuga á að vinna hjá. Ég hef rekið mig á að oft átta þau
sig ekki á þeim tækifærum sem þau hafa og nýta þau
ekki eins vel og þau gætu. En það er mikilvægt að grípa
tækifærin um leið og þau gefast,“ segir Linda. Aðsókn í
fatahönnunarnám hefur verið jöfn og þétt en Linda segir
einn af hverjum fjórum umsækjendum komast að.
„Það er fín stærð að hafa tíu nemendur í hópnum.
Það er alveg mátulega mikið álag á kennarana því námið
er að stórum hluta samræður við einstaklinginn. Það
sem hefur gerst hins vegar síðastliðin ár er að ég er
alltaf að fá betri og betri umsækjendur sem vita æ meira
um fagið. Ef þú hefur á annað borð áhuga á tísku hefur
þú enga afsökun fyrir því að koma af fjöllum í inntöku-
viðtalinu. Ég vil fá þá tilfinningu að viðkomandi hafi kynnt
sér og viti eitthvað um tísku, geti nefnt hönnuði og blöð
og sé sæmilega vel að sér,“ segir Linda og bætir við að
þeir nemendur sem hafi útskrifast síðastliðin ár úr fata-
hönnun hafi gjörbreytt landslaginu í tískuheiminum og
taki þátt í að byggja upp fag sem eigi framtíðina fyrir
sér.
Fatahönnun er fag sem á framtíðina fyrir sér
ÚTSKRIFTARLÍNUR FATAHÖNNUNARNEMA AF FATAHÖNNUNARBRAUT LISTAHÁSKÓLA ÍSLANDS ERU JAFN ÓLÍKAR
OG NEMENDURNIR ERU MARGIR. HÉR MÁ SJÁ BROT AF ÞVÍ SEM ÚTSKRIFTARNEMENDUR HAFA HANNAÐ Í ÁR.
María Ólafsdóttir maria@mbl.is