Morgunblaðið - 05.12.2013, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 05.12.2013, Blaðsíða 35
MINNINGAR 35 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. DESEMBER 2013 inn í hið öfluga körfuboltasam- félag í Keflavík við hlið Alla. Vin- átta okkar varð enn meiri þegar við vorum ófrískar á sama tíma og Ragga skráð þremur vikum á undan mér. Þegar ég var sett í keisaraskurð var þungt í henni hljóðið. Hún var gengin fram yfir og ég þurfti ekki einu sinni að klára meðgönguna! Ég man því eins og gerst hefði í gær þegar síminn hringir inn á skurðstofu. Konráð læknir tilkynnir að Ragnheiður vinkona sé mætt í fæðingu! Við eignuðumst báðar strák þennan dag og lágum sam- an í þvílíku yfirlæti í Keflavík þar sem körfuboltahetjurnar okkar Albert og Jón Kr. komu og fóru eins og þeim hentaði. Við fundum að þarna bundumst við fjögur ei- lífðar vináttuböndum. Mánudagar voru tileinkaðir Röggu eftir að hún greindist í annað sinn og eru þær heimsókn- ir ofarlega í huga mér. Aðdáun- arvert var að upplifa styrkinn sem Alli sýndi, hann stóð við hlið hennar og strákanna og var klett- urinn í veikindum sem tóku sig upp aftur og aftur. Guðrún móðir Röggu þreyttist seint við að sinna dóttur sinni af æðruleysi og óeig- ingirni. Væntumþykja og þakk- læti voru auðsýnd og samheldni og samkennd í hinum stóra vina- og ættingjahópi var augljós. Í haust ákváðum við fjögur að fara saman til Boston. Tilhlökk- unin var mikil og nú skyldi njóta. Krabbameinið yrði skilið eftir heima eins og Ragga orðaði það og eftirvænting vegna ferðarinn- ar og þess að Aron Ingi sonur þeirra væri að koma heim setti öll veikindi á bið. Ferðin var ynd- isleg og varð enn betri þegar vin- ir okkar, Falur og Magga, ákváðu að koma með. Efst í huga mér er þakklæti fyrir þessar samveru- stundir sem gengu út á að Ragga og Alli fengju að njóta sín og ég vil trúa að okkur hafi tekist að skapa rými fyrir gleði, samveru og ljúfar minningar. Tveimur dögum eftir heimkomu fór að bera á nýjum einkennum, höggið var afar þungbært og Röggu hrakaði hratt. Ekki grunaði okk- ur þegar við vorum í Boston að hún myndi ekki lifa jólin. Krabbameinið ætlaði sér að sigra þessa sterku og fallegu konu og hafði því miður betur. Ragga vinkona var mikill fag- urkeri. Heimili hennar og Alla ber þess merki og glæsileiki og útgeislun voru aðalsmerki henn- ar. Brosið var breitt og hláturinn smitandi. Ragga var nákvæm og vandvirk í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og anaði ekki að neinu. Hún var traust og góð vin- kona sem sýndi það í verki, afar ákveðin og falleg að utan sem innan. Hún var frábær móðir þriggja drengja sem hún og Alli hafa skapað örugga umgjörð með ástúð og stuðningi. Ég verð Alla og fjölskyldu ætíð þakklát fyrir að fá að sitja hjá Röggu síðustu dagana ásamt vinkonum, þessar stundir eru okkur afar dýrmætar. Elsku Alli, Ragnar Gerald, Ar- on Ingi, Hrannar Már, Guðrún, Ragnar, Inga Birna, Árni, Einar og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og ég bið Guð að gefa ykk- ur styrk til að takast á við miss- inn og sorgina. Megi minning um yndislega Röggu lifa með okkur. Ég kveð góða vinkonu með söknuði. Auður Sigurðardóttir. Haustkvöld. Langvegir. Ljósafjöld sveitanna slokknuð og allt þagnað – nema einn lækur einn hestur sem þræðir beinan stíg og ber mig í dimmunni yfir heiðalönd feðra minna til fjarlægs staðar. Engu þarf að kvíða. Nú kular úr opnum skörðum og lækurinn hljóðnar í lautunum mér að baki. Engu þarf að kvíða klárinn fetar sinn veg - stefnir inn í nóttina með stjörnu í enni. (Hannes Pétursson) Þessar fallegu ljóðlínur Hann- esar Péturssonar komu upp í hugann þegar fregnir bárust af því að Ragga væri lögð af stað í sína hinstu för. Það lá fyrir í hvað stefndi en vonarneistinn logaði þó í hjörtum allra sem þótti vænt um þessa yndislegu stúlku. Ragga var hvers manns hugljúfi og hennar stóra bros kemur fyrst upp í hugann þegar hennar er minnst. Á gömlum bekkjarmynd- um og myndum úr skólaferðalög- um er alls staðar að sjá þetta sama bros sem vekur ljúfsárar minningar um vel gerða, greinda og fallega stúlku. Síðastliðið vor fögnuðum við 30 ára fermingarafmæli á heima- slóðum suður með sjó og þar var mikil gleði. Ragga var með okkur og þá gáfu nýjustu fréttir vonir um að góðir tímar væru framund- an, hún leit vel út, var bjartsýn og skemmti sér vel. Hópurinn átti frábæran dag saman og við lék- um á als oddi enda mætingin góð og hópurinn sem hefur þroskast saman með aldrinum naut sam- vistanna. Fljótlega eftir þennan góða dag tóku veikindin sig hins- vegar upp aftur og nú enn ágeng- ari. Í veikindum Röggu sást vel hversu góðan og traustan vina- hóp hún átti, auk sterkrar fjöl- skyldu. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með þeim samhug sem umkringdi hana í baráttunni og stendur þar ekki síst upp úr minningin um Reykjavíkurmara- þonið í sumar þar sem hlaupa- hópur Röggu safnaði milljónum. Sá góði dagur skilaði ekki bara styrk til góðs málefnis heldur líka miklum andlegum styrk til henn- ar sem naut dagsins og árang- urins umkringd sínu fólki. Í okkar hópi á Ragga ekki bara skólasystkin, heldur líka marga vini og jafnvel samstarfsfólk og öll syrgjum við ótímabært fráfall hennar. Það er sárt að sjá á eftir ungri glæsilegri konu í blóma lífsins sem skilur eftir sig eigin- mann, þrjá drengi, foreldra og systkini. Þeirra missir er mikill og við hugsum hlýlega til ykkar sem og annarra fjölskyldumeð- lima og vina. Við treystum því að klárinn hafi skilað henni upp til hinna stjarnanna sem skína skært og vitum að þar vakir hún yfir drengjunum sínum. Mér þykir leitt að geta ekki fylgt Röggu til grafar í dag vegna dvalar erlendis en hugur minn er hjá aðstandendum og ég ber öll- um þeim sem syrgja innilegar samúðarkveðjur frá skólasystk- inum. Hvíl í friði, fallega stelpa. Minningin lifir. F.h. 6́9 árgangsins í Keflavík, Hulda G. Geirsdóttir. Elsku Ragga. Það er ekki sjálfgefið að eign- ast góða vinkonu, vinkonu sem hægt er að treysta, hlæja og gráta með, jafnt í gleði og sorg. Vinkonu sem alltaf er til staðar. Leiðir okkar lágu saman haustið 1999 er við hófum störf í Heiðarskóla sem átti eftir að vera sameiginlegur vinnustaður okkar til dagsins í dag. Við vissum hvor af annarri þar sem feður okkar höfðu verið góðir vinir og sam- ferðamenn í starfi sínu sem skip- stjórar. Þú reyndist mér sannar- lega ein besta vinkona sem hugsast getur og ég á þér mikið að þakka. Það var gott að leita til þín, bæði þegar eitthvað bjátaði á og einnig til að fá góð ráð og stuðning. Þú varst alltaf til staðar og hvattir mig í því sem ég tók mér fyrir hendur. Varst alltaf fyrst til að hrósa þegar mér gekk vel, varst gagnrýnin en sann- gjörn. Það er næstum óbærilegt að hugsa til þess að þín skuli ekki njóta við lengur. Við eignuðumst drengina okkar Rúnar og Hrann- ar Má sama ár, fluttum ári síðar á sama tíma í sömu götu, hlið við hlið. Við hjónin vorum svo heppin að þið Alli höfðuð gaman af ferða- lögum og minningarnar frá okkar ferðum saman eru svo dýrmætar. Fiskidagarnir á Dalvík standa uppúr þar sem við bjuggum til útihátíð á Sunnuhvoli og nutum okkar vel. Þá eru einnig ofarlega ferðir okkar með starfsfólki Heiðarskóla og höfum við oft rifj- að upp ferðina til Minneapolis þegar við æddum búð úr búð og ég, aðframkomin af hungri, skelli fram þeirri hugmynd hvort við ættum ekki að setjast niður og fá okkur að borða, þá dettur þessi snilldarsetning upp úr þér: „Þú mátt nú alveg við því að missa úr eina máltíð, Guðný mín.“ Þessi setning hefur oft verið rifjuð upp og uppskorið hlátur og gleði. Glæsileiki einkenndi þig alla tíð, þú varst alltaf vel tilhöfð, fín og smart svo að eftir var tekið. Þú varst líka einstök í þínu starfi sem kennari og síðar deildar- stjóri og verður verka þinna minnst í Heiðarskóla um alla framtíð. Þegar þú greindist fyrir tveimur árum af þeim sjúkdómi sem að lokum sigraði þrátt fyrir þá öflugu baráttu sem einkenndi þig allan tímann, tókst þú veik- indum þínum með æðruleysi, barðist hart, ákveðin í að sigra. Það var ótrúlegt að fylgjast með baráttuvilja þínum, hvernig þú tókst á hlutunum og hélst áfram að því marki að ná bata með eig- inmanninn, Alla, sem þína styrk- ustu stoð ásamt fjölskyldu og vin- um. Ég trúði á kraftaverk allt þar til yfir lauk, trúði því að næst þegar ég kæmi til þín sætir þú uppi í rúminu og tækir brosandi á móti mér. Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig, elsku vin- kona, en þyngst er þó sorgin hjá Alla, strákunum, foreldrum þín- um og systkinum. Nú er komið að leiðarlokum og mig langar að þakka þér fyrir einstaka vináttu sem aldrei gleymist. Fjölskyldu þinni þakka ég fyrir að fá að vera nálæg síðustu daga baráttunnar og sendi þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur með ósk um að Almættið veiti þeim styrk. Guð blessi minningu þína, elsku Ragga. Og hvert sem þú ferð og hvar sem ég verð þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig. (Rúnar Júl.) Þín vinkona, Guðný Kristjánsdóttir, og fjölskyldan á B11. Í dag kveðjum við ástkæra vin- konu. Hún Ragnheiður er farin frá okkur og ekkert í okkar huga finnur sanngirni í því að hún hafi ekki fengið lengri tíma hér meðal fjölskyldu ættingja og vina. Ragga, eins og hún var oftast kölluð, var einstök kona og eru samverustundir okkar með henni, fjölskyldu hennar og vina- hópi ómetanlegar. Í hennar erf- iðu veikindum sýndi hún mikinn innri styrk og æðruleysi í því sem að höndum bar. Álagið sem hún og hennar fjölskylda voru undir er ekkert sem auðvelt er að komst í gegnum en Albert og strákarnir stóðu þétt við hlið hennar og sýndu engu síðri styrk. Ragga gerði meira en margur á stuttri ævi og var fljót að full- orðnast, standa á eigin fótum og naut lífsins. Ólöf og Ragga mynd- uðu sterk vinabönd sem héldust fram á hennar síðasta dag. Þær unnu saman sem leiðbeinendur í Myllubakkaskóla aðeins tvítugar að aldri en kennsla var það ævi- starf sem Ragga síðan valdi sér og var hún einstaklega fær í því starfi og vel liðin. Þá strax var hún flutt að heima, farin að sjá um alla hluti sjálf og var ábyrgð- arfull og sjálfstæð ung kona. Hún og Albert stofnuðu fjölskyldu, fluttu til Ameríku þar sem Alli lauk flugvirkjanámi og frá fyrstu dögum þeirra sambúðar stýrði hún heimili þeirra af einstakri ein- lægni og myndarskap. Ragga var mikill fagurkeri og hafði næmt auga fyrir tísku og fallegri hönn- un. Hún var einstaklega smekk- leg, alltaf smart og þrátt fyrir mikil veikindi undir lokin hafði hún fyrir því metnað að líta alltaf sem best út. Með okkur lifa minningar um öll þau ferðalög sem við fórum saman í, svo sem golfferðir til Spánar, útilegur og skíðaferðir. Síðasta skíðaferðin hennar Röggu er okkur mjög svo minnisstæð þar sem Hrannar Már sonur hennar kallaði yfir allan hópinn neðst í fjallinu „Þarna er mamma mín að koma niður brekkuna, þessi í grænu úlpunni … sjáið þið hvað hún er glæsileg“. Þarna var Ragga að kljást við þennan illvíga sjúkdóm en lét það ekki á sig fá og var staðráðin í að berjast af öllum mætti. Einnig voru matarboðin ófá sem slegin voru upp með litlum fyrirvara bara til að njóta samvista, borða góðan mat og gleðjast. Oft sátum við lengi sam- an, röbbuðum um lífið og til- veruna og hlustuðum á góða tón- list. Oft höfum við hugsað hversu margt og mikið okkur langaði að gera til að hún kæmist yfir þenn- an sjúkdóm en við ofurefli var að etja og því sitjum við eftir með sorg í hjarta en svo margar góðar minningar í huga að það mun ylja okkur um ókomin ár. Við vottum Alberti, Ragnari, Aroni og Hrannari ásamt fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð á þessum erfiðu tímum. Við munum varðveita allar góðu minningarn- ar um frábæra konu Hvíldu í friði, kæra vinkona. Ólöf Einarsdóttir og Guð- jón Skúlason Mikið er sárt að skrifa þessi minningarorð um elsku Röggu, æskuvinkonu mína, sem nú er fall- in frá í blóma lífsins. Ég var alltaf svo viss um að hún Ragga myndi sigra krabbameinið sem hún barðist svo hetjulega við en í þeirri baráttu sýndi hún svo sann- arlega hvað í henni bjó. Hún tókst á við illvíga sjúkdóminn af miklu æðruleysi og hugrekki, kvartaði aldrei og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hetjulegri baráttu er lokið sem skilur okkur öll eftir í djúpri sorg. Við Ragga kynntumst þegar við vorum 5 ára gamlar er ég flutti í Þverholtið. Hverfið var fullt af krökkum á svipuðum aldri sem léku sér saman og brölluðu ým- islegt skemmtilegt og var hug- myndaflugið oft mikið eins og þegar okkur datt í hug að búa til tappahljómsveit með því að safna saman töppum af gosflöskum í búðum og búa til hljóðfæri úr þeim. Ég fann nýlega myndir hjá foreldrum mínum úr saumaklúbb sem teknar voru þegar við vorum 8 ára hlæjandi stelpur með kross- saumsmyndir og súkkulaðiköku. Ljúfar minningar sem yndislegt er að rifja upp nú á kveðjustund. Við vorum samferða í gegnum barna- og gagnfræðaskólann en ég fór svo í Versló og flutti til Reykjavíkur í framhaldinu. Þó leiðir okkar hafi skilið í einhver ár þá var strengurinn á milli okkar alltaf sterkur og fundum við hvor aðra aftur, báðar komnar með fjölskyldu, og er ég svo endalaust þakklát fyrir það. Ragga fann sinn draumaprins, hann Alla, sem sannarlega stóð undir nafni og eignuðust þau þrjá flotta stráka, þá Ragnar Gerald, Aron Inga og Hrannar Má sem er jafngamall yngsta syni mínum. Sá kom heim úr Vatnaskógi í hitti- fyrra og sagði mér að hann hefði leikið mest með frænda sínum úr Keflavík, ég var ekki alveg viss um hvern hann var að tala en svo kom í ljós að þeir Hrannar Már höfðu smollið saman og voru viss- ir um að þeir væru frændur. Okk- ur vinkonunum fannst þetta ótrú- lega krúttlegt og skemmtilegt. Ragga var alltaf stórglæsileg og með einstaklega fallegt bros sem hún var óspör á sem og góð- an húmor og var alltaf stutt í hláturinn. Hún var alltaf ótrú- lega smart klædd og vel til höfð fram á síðasta dag og má segja að hún hafi haft einstaklega mik- inn áhuga á og auga fyrir falleg- um fötum og fylgihlutum. Elsku Alli, Hrannar Már, Ar- on Ingi og Ragnar Gerald, Guð- rún og Ragnar Gerald, Inga Birna, Árni, Einar og fjölskyld- ur, megi Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg, bjartar minn- ingar og þakklæti fyrir góðar stundir og vinskap munu lifa í hjörtum okkar. Megi Guð blessa minningu Ragnheiðar Ragnarsdóttur. Auður Einarsdóttir Mínar fyrstu minningar um vináttu okkar Ragnheiðar eru frá árinu 1973. Þá vorum við fjögurra ára, tilbúnar að takast á við lífið í leik og gleði. Við bjugg- um hlið við hlið í Þverholtinu, urðum strax góðar vinkonur og lékum okkur saman nánast upp á hvern dag. Við hófum og lukum skólagöngu saman, lékum okkur í dúkkó, barbie, á skautum og skíðum, stofnuðum tappahljóm- sveit og seldum inn á tónleika og leiksýningar í bílskúrum í hverf- inu. Það var frábært að búa við hliðina á bestu vinkonu sinni og fá að taka þátt í gleði og sorgum hvor annarrar sem styrkti vin- áttu okkar enn frekar. Þegar ég lít til baka yfir þau 40 ár sem vin- átta okkar varði get ég ekki ann- að en brosað og þakkað fyrir að hafa átt svo góða vinkonu sem Ragga var. Það er gulls ígildi að eiga minningar um allt sem við höfum gert og upplifað saman sem koma til með að ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð. Það er með mikilli sorg sem ég kveð kæra vinkonu í dag. Það er sárt þegar ung kona kveður í blóma lífsins. Ragnheiður var baráttukona, vinur í raun og góð fyrirmynd sem snart hjörtu allra sem hana þekktu. Ég og fjölskylda mín sendum Alberti, sonum, foreldrum og systkinum Ragnheiðar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir Ég varð þeirrar gæfu aðnjót- andi að kynnast Röggu þegar við vorum 16 ára, busar í Fjöl- brautaskóla Suðurnesja. Þrátt fyrir að alast upp þar sem aðeins um 2 km eru á milli æskuheim- ilanna þekktumst við ekki neitt fyrr en í FS. Þegar við byrjuðum í FS þá breyttist margt, kunningjahóp- urinn stækkaði og nokkrir nýir vinir bættust í hópinn. Fyrir ut- an allskyns uppákomur sem til- heyra menntaskólaárum. Þá unnum við Ragga og vinkonur okkar mikið með skólanum en við nutum líka þess að vera til og stóðum okkur ágætlega í nám- inu. Á einhverjum tímapunkti datt okkur í hug að fara sem skiptinemar til Bandaríkjanna. Við fengum báðar fjölskyldur í Minnesota og heimsóttum hvor aðra meðan á ársdvöl okkar stóð. Símtölin á milli voru ófá og ýmist hlegið eða grátið í símann þegar erfiðleikar og heimþrá létu á sér kræla. Með Röggu urðu margar af mínum bestu minningum á þess- um árum. Hvort sem það var rúnturinn á bílnum hennar Guð- rúnar sem ég ók, (því Ragga varð ekki 17 fyrr en í september), hlátursköstin, Ameríkudvölin, skólaböllin, næturlærdómur fyr- ir próf og fleira. Ragga var metn- aðarfull í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og gerði það sem hún ætlaði sér. Minningabrotin streyma fram; Ragga á brúð- kaupsdaginn, geislandi og flott. Ragga í kennó, ólétt. Ragga að sýna föt. Ragga hundaeigandi. Ragga og fjölskyldan. Ragga á 40 ára afmælisdeginum með öll- um sínum vinum og fjölskyldu og Ragga á menningarnótt í mara- þoninu að hvetja alla áfram. Í síðasta sinn sem við hittumst í þessu jarðlífi ræddum við um gildi, kærleikann, vináttu, traust og fyrirgefningu. Hún var þakk- lát fyrir svo margt og stolt af fólkinu sínu og sérstaklega hon- um Alla sem stóð eins og klettur við hlið hennar. Hún ætlaði að sigra í þessari baráttu og gerði allt hvað hún gat. Mér hefur alltaf þótt vænt um vináttu okkar og á eftir að sakna Röggu mikið en sárastur er missir Alla og sonanna þriggja: Ragnars, Arons Inga og Hrann- ars. Guð styrki þig, Alli minn, og verndi þig og drengina ykkar um ókomna tíð. Guðrún mín, Ragn- ar, Inga Birna, Árni, Einar og fjölskyldur, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Hún var einstök perla. Afar fágæt perla, skreytt fegurstu gimsteinum sem glitraði á og gerðu líf samferðamanna hennar innihaldsríkara og fegurra. Fáar perlur eru svo ríkulega búnar, gæddar svo mörgum af dýrmætustu gjöfum Guðs. Hún hafði ásjónu engils sem frá stafaði ilmur umhyggju og vináttu, ástar og kærleika. Hún var farvegur kærleika Guðs, kærleika sem ekki krafðist endur- gjalds. Hún var vitnisburður um bestu gjafir Guðs, trúna, vonina, kærleikann og lífið. Blessuð sé minning einstakrar perlu. (Sigurbjörn Þorkelsson) Ingigerður Sæmundsdóttir. Það voru forréttindi að vera vinir Röggu, eða það fannst okk- ur. Raunar nutu ansi margir þeirra forréttinda því lífssaga Röggu er líka saga samfélags. Ragga fæddist inn í stóra fjöl- skyldu og var þátttakandi í sam- félagi sem naut þess að hafa hana í liðinu. Sama hvert litið er, alls staðar var Ragga límið, hvort sem er í vinkvennahópnum, ætt- inni, gamla árganginum, hópi samstarfsmanna, í foreldrastarf- inu eða samfélaginu. Þannig var Ragga, hún gaf öðrum þá tilfinn- ingu að þeir væru einhvers virði. Það var þess vegna sem að sam- félagið allt barðist með henni og fjölskyldunni til síðustu stundar og syrgir innilega mikilvægan liðsmann. Ragga var stórkostlegur upp- alandi, kennari, samstarfsmaður og vinur. Það fengum við að reyna og njóta. Árin okkar í Heiðarskóla voru frábær og Ragga var þar hrókur alls fagn- aðar. Mikið hlegið, en líka grátið því með Röggu tókum við allan skalann. Þannig eru bestu vin- irnir. Við þökkum Röggu samfylgd- ina og sanna vináttu. Elsku Alli, Ragnar, Aron og Hrannar, við vottum ykkur okkar dýpstu sam- úð, sem og foreldrum, fjölskyldu og vinum. Elsku Ragga, hvíl þú í friði. Ég þakka fyrir þig sem ert mér vinur og þekkir mig oft betur en ég sjálfur, því án þín verð ég allur meyr og linur og ekki nema í besta falli hálfur. (Sigurður Ingólfsson) Kristinn og Steinþóra SJÁ SÍÐU 36

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.