Morgunblaðið - 19.04.2014, Síða 21
en hún varð oft vör við að einhver
væri að fylgjast með sér. Hefur hún
verið mjög berdreymin og stundum
getað sagt fyrir um hver kæmi í
heimsókn eða hringdi. „Ég er ekki í
nokkrum vafa um að mér hefur oft
verið hjálpað, þegar erfiðleikar hafa
steðjað að.“
Stutt er síðan Elísabet fór til dval-
ar á Heilbrigðisstofnuninni en hún
fer enn reglulega heim til sín á
Hólmagrundina á Króknum þar sem
fjölskyldan hittist og drekkur kaffi
saman. Þar stofnuðu þau Skarphéð-
inn heimili árið 1972, eftir að þau
brugðu búi á Gili. Eftir að hafa komið
upp öllum barnaskaranum var Elísa-
bet útivinnandi um nokkurra ára
skeið, eða til ársins 1988. Lengst af
starfaði hún á saumastofunni Vöku
en einnig á sláturhúsi kaupfélagsins.
Ekkert barnanna skilið
Afkomendur Skarphéðins eru
margir hverjir búsettir í Skagafirði
eða annars staðar á Norðurlandi.
Einhverjir hafa komið sér fyrir á
suðvesturhorninu og aðrir á Norð-
urlöndunum. Fjölskyldan öll er mjög
samhent og hafa Gilsararnir komið
saman á hverju sumri í Skagafirði
nokkur undanfarin ár. Alltaf hefur
Elísabet mætt til að eiga glaðan dag
með sínu fólki. Til marks um sam-
heldnina þá hefur ekkert barna El-
ísabetar sagt skilið við sinn maka,
hjónaböndin halda enn eftir áratuga
sambúð!
Elísabet er vel ern og segist við
ágæta heilsu, les bækur og blöð og
prjónar sokka í gríð og erg. Í fyrra,
þá 95 ára að aldri, tók hún uppá því að
læra skrautmálun, þar sem hún málar
á keramikmuni margskonar. Getur
blaðamaður vitnað um að munirnir
eru listilega vel málaðir og vandaðir.
„Ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni
og get ekki hugsað mér að gera ekki
neitt,“ segir Elísabet en það er einnig
nokkur starfi að fylgjast með öllum af-
komendunum; afmælum þeirra og
tímamótum. Um jólin rignir inn kveðj-
um og pökkum og þetta árið eru sex
fermingar í ættinni. Elísabet heldur
skrá yfir sína afkomendur en nýjasti
meðlimurinn, sá 154. í röðinni, kom í
heiminn í lok febrúar sl. Og þeir eiga
eftir að verða fleiri, svo mikið er víst,
því von er á þeim 155. á næstu vikum.
Fjölskylda Elísabet og Skarphéðinn Pálsson (sitjandi fyrir miðju) með börnum sínum og barnabörnum árið 1966.
Síðan þá hefur fjölgað verulega í hópnum. Faðir Elísabetar, Stefán Jón Sigurjónsson, er við hlið Skarphéðins.
Morgunblaðið/Björn Jóhann
Ríkust Elísabet Stefánsdóttir með einn platta af mörgum sem hún hefur
skreytt í tómstundastarfi sínu á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.
FRÉTTIR 21Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. APRÍL 2014