Frjáls verslun - 01.11.2009, Blaðsíða 93
um áramótHvað segja þau ?
F R J Á L S V E R S L U N • 1 1 . T B L . 2 0 0 9 93
Gestur G. Gestsson, forstjóri SKÝRR
Hvað stóð upp úr hjá þínu fyrirtæki á
árinu þrátt fyrir kreppuna?
Miðvikudaginn 18. nóvember síðastliðinn
voru Eskill, Kögun, Landsteinar Strengur og
Skýrr sameinuð undir nafni Skýrr. Rekstur
fyrirtækjanna allra var með miklum ágætum
þrátt fyrir niðursveifluna í atvinnulífinu. Slíkur
árangur næst ekki nema með samhentu
átaki frábærs starfsfólks, sem sýnir aðhald
og útsjónarsemi í rekstri og lagar sig snöggt
og vel að gjörbreyttum aðstæðum á mark-
aði.
Í hvaða úrbótum er fyrirtæki
þitt nú að vinna?
Sameiningin er skiljanlega langstærsta verk-
efnið innanhúss í augnablikinu. Sameiningin
felur í sér flutninga á mannskap, sameiningu
vinnustöðva, samþættingu verkefnahópa,
breytta ásýnd, endurskipulagningu vöruúr-
vals og svo framvegis. Vissulega fylgir sam-
einingunni ákveðin hagræðing, en hún var
þó ekki forsendan. Framar öðru var ástæða
sameiningarinnar vilji til að skapa sterka
einingu, sem hefur kunnáttu og slagkraft til
að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjón-
ustu á öllum sviðum upplýsingatækni.
Hvernig metur þú stöðuna á næsta ári?
Ýmis teikn eru á lofti um að við séum við
það að nálgast botn niðursveiflunnar. Hvort
sem það er rétt eða ekki, þá er ég sann-
færður um að viðspyrnan upp á við verður
öflug. Fyrirtæki hafa tekið mjög hressilega til
í sínum rekstri og viðað að sér hugmyndum
og sóknarfærum. Ég skynja sóknarhug
í samfélaginu, jafnt hjá stjórnendum og
starfsfólki fyrirtækja og stofnana. Fyrirtækin
í landinu standa sig vel í dag og munu gera
það áfram. En framar öðru er það fólkið í
landinu, sem stendur sig frábærlega við erf-
iðar aðstæður með takmörkuð úrræði.
Hvaða lærdóm getum við dregið af
núverandi krísu?
Allt hefur upphaf og endi, jafnt góðæri sem
niðursveiflur. Aukið gegnsæi, bætt eftirlit og
stífari leikreglur fyrir viðskiptalífið eru meðal
ávaxta kreppunnar. Atvinnulífið mun fara
varlegar í framtíðinni. Það er annars vegar
mikilvægt að halda áfram að virkja þann fít-
onskraft sem býr í íslensku þjóðinni og hins
vegar að halda áfram að auka fjölbreytni
og ýta undir vaxtarsprota og nýsköpun í
íslensku atvinnulífi.
Er krónan búin að vera sem gjald-
miðill? Ef svo er; hve langt er í evruna?
Íslenska krónan er agnarsmár og máttvana
gjaldmiðill. Dramatískar gengissveiflur und-
anfarinna mánaða hafa glögglega leitt það í
ljós. En upptaka evru er auðvitað illmöguleg
án aðildar að Evrópusambandinu. Evran er
mikilvægt pólitískt tæki á vettvangi ESB og
hún verður ekki aðskilin frá spurningunni
um aðild að sambandinu. Persónulega er
ég hlynntur inngöngu í Evrópusambandið og
upptöku evru, en það veltur að sjálfsögðu á
þeim samningum og kjörum sem í boði eru.
Ef þú ættir að gefa forsætisráðherra
gott ráð, hvert yrði það?
Heilræði eru ódýr og yfirleitt meira fram-
boð af þeim en eftirspurn. Bandaríska
gamanleikaranum George Burns fannst
það alltaf synd og skömm að fólkið með
öll bestu ráðin væri upptekið við að aka
leigubílum og klippa hár. Ég segi pass við
þessari spurningu.
Hvað var minnisstæðast hjá sjálfum
þér á árinu?
Ég lét af störfum hjá einu frábæru fyrirtæki
til að taka við stöðu forstjóra hjá öðru frá-
bæru fyrirtæki. Þau vistaskipti standa óneit-
anlega upp úr.
Fólkið í landinu stendur sig
frábærlega við erfiðar aðstæður
Gestur G. Gestsson, forstjóri SKÝRR.