Læknablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 22
150 LÆKNAblaðið 2014/100
Danmörku. Fósturlátstíðnin þar var 1,4% við legvatnsástungur og
1,9% við fylgjusýnitökur. Í nýlegu kerfisbundnu fræðilegu yfirliti10
var tíðni fósturláta við legvatnsástungur talin vera 0,9% og eftir
fylgjusýnitökur 1,3% innan 24 vikna meðgöngulengdar. Íslensku
tölurnar eru því sambærilegar við erlendar tölur frá stöðum með
mun fleiri tilvik, en sýna um leið að með því að gera ástungurnar
á aðeins einum stað á landinu næst ásættanlegur fjöldi aðgerða til
að halda góðri færni allra sem koma að aðgerðinni.
Miklar breytingar áttu sér stað á þessu 10 ára tímabili sem
rannsóknin nær yfir, þar sem legástungum fækkaði umtalsvert
en fylgjusýnitökum fjölgaði. Tíðni fósturláta lækkaði bæði eftir
fylgjusýnitöku (úr 2,2% í 0,8%) og legvatnsástungu (úr 0,9% í 0,7%).
Á fyrra tímabilinu framkvæmdu fjórir læknar legástungurnar en
á síðara tímabilinu aðeins tveir. Margar erlendar rannsóknir sýna
að betra er að legástungur séu framkvæmdar af fáum sérfræð-
ingum sem hafa mikla reynslu og að með því sé hægt að draga
úr fósturlátstíðninni.9,18 Í leiðbeiningunum frá Royal College of
Obstetricians and Gynaecologists er talið að hver sérfræðilæknir
þurfi að lágmarki 30 legástungur á ári til að viðhalda færni.17 Með
tilkomu fyrsta þriðjungs skimunar hefur legástungum fækkað
umtalsvert. Hér á landi voru legvatnsástungur framan af fram-
kvæmdar á Akureyri og á Landspítala en ákveðið var að hætta
legvatnsástungum á Akureyri 2007 vegna þess hversu fáar þær
voru. Fylgjusýnitökur hafa einungis verið framkvæmdar á Land-
spítalanum. Með þessu hefur fækkað þeim stöðum þar sem leg-
ástungur eru gerðar í samræmi við rannsóknarniðurstöður.9
Á rannsóknartímanum breyttust ástæður fyrir legástungum
eftir að skimun varð í boði fyrir allar konur. Þessi 10 ár, 1998-2007,
á meðan nýjar aðferðir voru innleiddar, voru tími breytinga þar
sem hratt dró úr legvatnsástungum en fylgjusýnitökum fjölgaði.
Fósturgreining færðist framar á meðgönguna vegna samþætta lík-
indamatsins. Á seinna 5 ára tímabilinu, 2003-2007, var skimunin
farin að festast í sessi sem viðbót utan hefðbundinnar meðgöngu-
verndar hjá meginþorra kvenna. Næmi prófsins er allt að 90% og
meira hjá eldri konum en þeim yngri.19 Því velja fleiri eldri konur
en yngri að fara í legástungu, enda aukast líkur á litningafráviki
með aldrinum. Danir innleiddu fyrsta þriðjungs skimun á árun-
um 2004-2006 og urðu svipaðar breytingar hjá þeim og á Íslandi og
legástungum fækkaði þar um helming.9 Á aldrinum 35-39 ára eru
líkur á þrístæðu 21, sem er algengasta litningafrávikið, frá 1:250
til 1:100.7 Með tilkomu fyrsta þriðjungs skimunar greindust fleiri
fóstur með litningafrávik en með færri inngripum. Skimunin varð
því markvissari og náði um leið til allra sem vildu þiggja hana í
stað mun minni hóps ef einungis var miðað við aldur,9 og sama
breyting sást hér á landi.
Andvana fæðingar voru um 0,8%, sem er nálægt almennri tíðni
andvana fæðinga hér á landi á síðastliðnum fimm árum (0,5%).13
Í þeim tilvikum þar sem andvana fæðing varð eftir að kona hafði
farið í legástungu, tengdist það afbrigðilegri niðurstöðu úr óm-
skoðun við 20 vikna meðgöngulengd eða síðar hjá þriðjungi
kvennanna. Hjá tveimur af þessum konum var hugsanlega hægt
að rekja ástæðuna til afbrigðilegra líffræðilegra þátta í samþætta
prófinu sem hafa tengst aukinni almennri meðgönguáhættu í
fjölda rannsókna, jafnvel þegar niðurstöður litningaprófs voru
eðlilegar.7 Í tveimur tilvikum að auki var um tvíburameðgöngu að
ræða þar sem annar tvíburanna fæddist andvana. Líkur á missi
í tvíburameðgöngu eru meiri en þegar um einburaþungun er að
ræða og litningafrávik eru algengari.16
Þrístæður voru algengustu litningafrávikin eins og vænta mátti,
eða hjá 3,6% af þýðinu, og þá fyrst og fremst Down-heilkenni sem
fannst í 2,5% þungananna. Kynlitningafrávik voru rúmt 1%, en
önnur litningafrávik sjaldgæfari. Af þeim rúmlega 170 konum sem
völdu að enda meðgönguna var ástæðan oftast litningafrávik fóst-
urs eða meiriháttar sköpulagsgalli sem fannst fyrr í meðgöngunni
en unnt var að gera áður fyrr.20 Alls tóku 7% kvennanna ákvörðun
um að rjúfa meðgönguna vegna litningafrávika eða meiri háttar
sköpulagsgalla í kjölfar greiningaraðgerðanna.
Á hverju ári stendur lítill hópur þungaðra kvenna og verðandi
foreldra frammi fyrir þeirri ákvörðun að þiggja eða hafna boði um
legástungu til að greina litningagerð fósturs í kjölfar jákvæðrar
niðurstöðu úr fósturskimun á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Mikil-
vægt er að upplýsingarnar sem standa þessum konum til boða séu
byggðar á gagnreyndri þekkingu og rannsóknum á aðstæðum og
árangri á heimaslóð. Ráðgjöfin má þó ekki vera leiðandi. Klínískar
leiðbeiningar um meðgönguvernd þar sem lögð er áhersla á að það
sé val kvenna að þiggja eða hafna rannsóknum, eru nauðsynlegar
og tiltækar á Íslandi. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til
þess að fósturlátstíðni í kjölfar legástungu sé sambærileg við það
sem best gerist erlendis. Mikil þróun hefur átt sér stað á undan-
förnum árum á sviði fósturskimunar og fósturgreiningar, og
verður eflaust áfram á komandi árum. Mikilvægt er að starfsfólk
heilbrigðisþjónustunnar fylgist vel með á þessu sviði og tileinki
sér nýjungar sem byggðar eru á gagnreyndri þekkingu til að bjóða
bestu þjónustu sem til er hverju sinni.
Þakkir
Dr. Viðari Halldórssyni hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
er þökkuð aðstoð við tölfræðilega úrvinnslu. Ljósmæðrafélag Ís-
lands veitti Kristínu Rut Haraldsdóttur styrk vegna rannsóknar-
innar. Guðrúnu Garðarsdóttur, ritara Fæðingaskráningarinnar, og
Lilju Þorsteinsdóttur, hjúkrunarfræðingi á Landspítala, er þökkuð
aðstoð við gagnaöflun.
R A N N S Ó K N