Læknablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 53
LÆKNAblaðið 2014/100 181
tíma kom fyrir að við vorum spurðar hvort
við værum „Björks’ dancers“. Það fannst
okkur mjög fyndið.“
Stúlknakórinn sem Björk tók með
sér héðan frá Íslandi var upphaflega 24
stúlkur en fjöldinn hefur verið nokkuð
breytilegur eftir því sem persónulegir
hagir breytast, að sögn Elínar Eddu, nám,
barneignir og ýmislegt annað hefur eðli-
lega haft sín áhrif á ferðamöguleikana, svo
stundum hafa þær verið færri, en aldrei
fleiri.
„Þegar við fórum fyrst út sumarið 2011
vissum við ekkert hvað við vorum að fara
útí. Þetta var heimur sem engin okkar
þekkti og skyndilega vorum við farnar að
umgangast heimsfrægar stjörnur úr tón-
listarbransanum. Við héldum þá að þetta
yrði ekkert meira en þetta verkefni, um
haustið yrði þetta búið og við allar komn-
ar í okkar eðlilegu rútínu aftur. Þá var haft
samband og okkur boðið á tónlistarhátíð á
Isle of Wight í Bretlandi. Fljótlega kom svo
í ljós að þetta var miklu stærra verkefni
en við höfðum haft hugmynd um og Björk
hafði hugsað sér að hafa kórinn með sér á
tónleikaferðum um allan heim næstu eitt
til tvö árin. Okkur var því í rauninni boðin
vinna við þetta og það var sannarlega
mjög spennandi. Þetta kom í kjölfarið á
tónleikunum átta sem Björk hélt hér heima
í Hörpunni í tengslum við Airwaves-há-
tíðina í október 2011. Það var ekkert mál að
taka þátt í því, þó ég væri komin á annað
ár í læknisfræðinni, enda æfingar og tón-
leikar ekki á skólatíma.”
Aðspurð um hvort líf rokkstjörnunnar
hafi heillað, segir hún að þetta hafi verið
ævintýri frá upphafi til enda. „Einhver
gæti kannski haldið að maður fengi nóg
eftir eina eða tvær ferðir en svo var alls
ekki. Þetta var alltaf alveg ótrúlega spenn-
andi og frábært að fá tækifæri til að sjá alla
þessa staði. Þetta sameinar svo ótal margt.
Fá innsýn í líf rokkstjarnanna og venjast
því að hitta þær baksviðs og fara út að
skemmta sér með heimsfrægu fólki. Svo
var auðvitað hópurinn sem ferðaðist með
okkur samansettur af miklum fagmönnum
úr öllum áttum og vorum við í lokin orðin
eins og ein stór fjölskylda. Tónlistarmenn-
irnir, tæknimenn og Björk ásamt ýmsu
aðstoðarfólki og vinum voru að jafnaði
um 40 talsins. En þrátt fyrir að hafa verið
í hópi góðra vina, þá naut ég þess alltaf að
skoða landslag og borgir ein míns liðs og
hafði yfirleitt tíma til að leyfa mér slíkt í
þessum ferðum.”
Um veturinn 2011 var kórinn kallaður
til að syngja í sjónvarpsþætti Jools Holland
í breska sjónvarpinu ásamt Red Hot Chili
Peppers og Noel Gallagher, svo einhverjir
séu nefndir. „Við vorum auðvitað sjúklega
spenntar fyrir þessu. Þetta var eiginlega
of mikið fyrir okkur. Næsta verkefni var
síðan fimm vikna tónleikaröð í New York
í febrúar 2012. Við Begga (Bergljót Rafnar)
tókum þá ákvörðun að við gætum ekki
farið út ásamt því að halda áfram á sama
stað í náminu. Stelpurnar voru því aðeins
færri í þetta skiptið og í framhaldinu var
farið í tónleikaferð um nokkur lönd Suður-
Ameríku, meðal annars Mexíkó, Brasilíu
og Argentínu. Þetta stóð alveg fram í maí
og nokkrar stelpnanna þurftu að taka
sér hlé frá námi vegna þessa. Við Begga
vorum heima og kláruðum annað árið í
læknisfræðinni á meðan.
Um sumarið 2012 var okkur svo boðið
að taka þátt í tónleikaferð um Marokkó
og Evrópu, ferð sem stóð frá byrjun júní
fram í miðjan ágúst, akkúrat sumarfríið.
Þarna upplifðum við ekta líf rokkstjarn-
anna, ferðuðumst á milli tónlistarhátíða í
svokölluðum „tourbus“ með ýmsum fríð-
indum og bjuggum á hótelum á hverjum
stað þess á milli. Þetta var bara… geðveikt.
Við vorum 14 í kórnum í þessum túr,
allar á svipuðum aldri, og búnar að vera
vinkonur frá unga aldri. Hversu frábært er
það að ferðast heilt sumar með vinkvenna-
hópi og syngja fyrir tugþúsundir á tón-
leikum með einni stærstu stjörnu veraldar
Á fullri ferð á tónleikum á Fuji Rock tónlistarhátíðinni í Japan sumarið 2013. Björk er lengst til hægri á myndinni, en Elín Edda lengst til vinstri. Ljósmynd/Kenji Kubo.