Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 19

Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 19
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 19 lOFTUr gUTTOrmssOn aÐDraganDi ÞEManáMs Þótt breytingar þær sem gerðar voru á námsskipan og kennsluháttum í KHÍ 1975 hafi bætt úr ýmsum áberandi ágöllum miðuðust þær allar við meginreglu faggreindrar kennslu. Til marks um þetta eru m.a. þær ráðstafanir sem gerðar voru til að draga úr tvístringi námsins á 1. námsári: kennslugreinum á hvoru misseri var fækkað með því að færa saman kennslutíma nokkurra greina eftir misserum og með því að hefja nám í valgreinum á 2. misseri. Þótt með þessu væri stefnt að því að efla tengsl ákveðinna þekkingargreina og kennslufræði þeirra höfðu umbæturnar hvergi í för með sér sam- þættingu, þ.e. að stofnað væri til innbyrðis tengsla tveggja eða fleiri sjálfstæðra greina með því að beina sjónarhorni þeirra að ákveðnum viðfangsefnum eða úrlausnarefnum. Eftir tveggja ára reynslu af hinni endurbættu kennsluskipan skólaárin 1975–1977 tók að gæta óþreyju meðal nemenda eftir róttækari breytingum á kennsluháttum í skólanum. Ríkari reynslunni frá 1975 voru nemendur nú orðnir virkari og gagnrýnni í afstöðu sinni til eigin náms og til starfshátta í grunnskólum. Setning grunnskóla- laga 1974 og útgáfa aðalnámskrár grunnskóla 1976 höfðu eflt mjög áhuga margra þeirra á mennta- og uppeldismálum, starfskjörum kennara og samtökum þeirra (Guðbjörg Pálsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 1978, 5. og 6. kafli). Nemendasamfélagið hafði líka eflst mjög þegar hér var komið sögu; á þetta við um fjölda nemenda sem og félagslíf þeirra og samskipti innbyrðis. Skólaárið 1974–1975 voru skráðir nemendur í B.Ed.-námi 175 en aftur á móti 336 í upphafi skólaárs 1977–1978. Á sama tímabili, frá skólaárinu 1974–1975 til 1977–1978, fjölgaði stöðugildum fastráðinna kennara úr 13 í 21; þ. á m. voru þrjár prófessorsstöður (Gyða Jóhannsdóttir, 2006). Vísbendingu um eflingu nemendasamfélagsins gefur blaðaútgáfa á vegum þess. Áður er getið hins fjölritaða málgagns, Snepils. Haustið 1977 hófu fyrirliðar nemenda að gefa út tímarit undir nafninu Höður: Skólamálablað nemendaráðs K.H.Í. Komu út þrjú tölublöð af því, þar af tvö árið 1978. Einstaka kennarar við skólann lögðu reyndar blaðinu til efni. Vert er að taka fram að aðild B.Ed.-nema að nemendaráði var ekki skyldubundin heldur valfrjáls, gegn gjaldi. Haustið 1976 höfðu 40–50% nemenda, misjafnlega margir eftir námsárum, greitt félagsgjald. Öllum nemum var aftur á móti frjálst að sækja fundi ráðsins; þótti gott ef 20–30 nemendur sóttu fund (Um fyrirkomulag nemenda- ráðs – föðurleg áminning, 1977, bls. 3). Af þessum sökum er örðugt að segja til um að hvaða marki ályktanir ráðsins og afstaða spegluðu viðhorf nemenda almennt. Fyrst í stað beindist gagnrýni nemenda að slælegri framkvæmd af hálfu kennara á ýmsum greinum reglugerðar sem lutu að samstarfi og samráði um skipulagningu námsins. Gagnrýni af þessu tagi kom fram á fundi sem nemendur 1. námsárs héldu með hlutaðeigandi kennurum í janúar 1977 (Fundur nemenda á 1. ári og kennaraliðs KHÍ 27.1. '77, 1977; Kröfugerð nemenda á 1. ári, 1977; ÞÍ. Fundur 27. janúar 1977, bls. 160). Nemendur lögðu þar fram kvörtunarskjal í átta liðum; m.a. var kvartað undan ófullnægjandi skipulagningu kennslu og framsetningu fyrirlestra; skorti á samráði við nemendur um gerð námsáætlana og efnisval sem og undan slælegri framkvæmd reglu- gerðarákvæða um kennslu. Á skólaráðsfundi í júní 1977 ítrekuðu fulltrúar nemenda aðfinnslur sínar með því að óska eftir frekari þátttöku og aðild að gerð námskráa og kennsluáætlana (ÞÍ. Skólaráðsfundur 25. júní 1977, bls. 170).

x

Uppeldi og menntun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Uppeldi og menntun
https://timarit.is/publication/581

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.