Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Blaðsíða 91
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 91
berglind rós mAgnúsdóTTir
Annað dæmi um val skýrsluhöfunda á sjónarhorni í þessum talnaleik er sú fullyrðing
að við Íslendingar „stöndum … höllum fæti gagnvart nágrannalöndum þegar horft
er til tölulegra mælikvarða. Námsárangur grunnskólanema er undir meðaltali Norð-
urlandanna …“ (bls. 9). Meðaltalið er vægast sagt skekkt vegna Finnlands sem kemur
mun betur út en öll hin Norðurlöndin og hækkar meðaltalið þannig að öll Norður-
löndin nema Finnland hafa árangur undir meðaltali Norðurlandanna. Þetta er vel
þekkt áróðursbragð í úrvinnslu tölulegra gagna til að skapa áhyggjur og ótta og ná
fram tiltrú á þeim breytingum sem talað er fyrir.
Valfrelsi
Fullyrðingin um að valfrelsi neytenda (foreldra) á svokölluðum menntamarkaði
tryggi gæði, jafnrétti og fjölbreytileika hefur farið víða og kemur m.a. fram í skýrsl-
unni. Margir hafa lagt hönd á plóg við að sýna að tengsl á milli gæða, jafnréttis og
menntunar eru mun flóknari en svo að hægt sé að tengja aukin gæði eða árangur við
einkarekstrarform (t.d. Lubienski og Lubienski, 2014). Víða þar sem mikil áhersla er
á foreldraval og samkeppni milli skóla hefur aðgreining og jaðarsetning ákveðinna
minnihlutahópa aukist á meðan samþjöppun þeirra sem búa við forréttindi hef-
ur magnast (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2014; Lundahl, Erixon Arreman, Holm og
Lundström, 2013; Reay, 2007). Eins er ljóst að á meðan gæði skóla eru aðallega metin
eftir meðalárangri á stöðluðum prófum ýtir það ekki undir skapandi og fjölbreytilegt
skólastarf (Lingard, Martino og Rezai-Rashti, 2013). Aðgreining eftir menningu, fötl-
un eða stétt er talin neikvæð og ógna lýðræðishlutverki skólans þar sem skólinn er í
raun eini staðurinn þar sem möguleiki gefst á að kenna ólíkum hópum fólks að lifa
saman og skilja veruleika hvers annars.
Í skýrslunni er jafnframt fullyrt að einkarekstur skili sér í aukinni almennri ánægju
foreldra: Garðabær er með meira en helming leikskólabarna í einkareknum leikskól-
um og í því sambandi er tekið fram að í þjónustukönnun sem Capacent gerði fyrir
sveitarfélagið árið 2012 hafi ánægja íbúanna með leikskólaþjónustu bæjarins mælst
yfir 90%, meiri en í öðrum sveitarfélögum landsins (bls. 35). Engar aðrar vísbendingar
eru nefndar, og heldur ekki tekið fram að Reykjavík og fleiri sveitarfélög hafi í sumum
tilvikum farið yfir 90% múrinn.
Ráðdeild – að ná niður kostnaði og auka skilvirkni kerfisins
Megintillögur á þessu sviði eru raktar og ræddar hér á eftir en þó ekki endilega í þeirri
röð sem um þær er fjallað í skýrslunni.
Tillaga um grunnskólakerfið
Lagt er til að gjöld til grunnskólamenntunar barna verði skert til að geta staðið sóma-
samlega að háskólamenntun. Höfundar segja að ríkið eyði „hlutfallslega of miklum
fjármunum … í fyrri stig námsferilsins“ (bls. 10) og er byggt á þeim upplýsingum að
fjárframlög á hvern nemanda í grunnskóla séu hærri en á hvern nemanda í háskóla-
námi.