Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 45

Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 45
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 45 hAnnA rAgnArsdóTTir Ferðin til upprunalandsins Nokkrar stúlkur fóru í hópferð til upprunalandsins með fjölskyldum sínum og ræddu ferðina í hópviðtali. Það sem helst kemur fram í viðtalinu er að stúlkurnar voru bæði spenntar og kvíðnar fyrir ferðina. Þeim fannst upprunalandið skrítið í upphafi ferðar, og loftið heitt og skrítið. Þær fóru í heimsókn á barnaheimilið þangað sem foreldrar þeirra sóttu þær. Þeim fannst erfitt að koma þangað aftur, einkum þar sem nú voru þar börn sem voru mikið fötluð. Þær fengu góðar móttökur. Stúlkurnar fóru einnig á staðina þar sem þær fundust, t.d. á markaði, fyrir utan sjúkrahús, við inngang að blómagarði. Einnig hittu þær fóstrurnar sem höfðu annast þær á barnaheimilinu. Stúlkurnar sögðust stundum hugsa svolítið um hvernig lífið hefði verið hjá þeim ef þær hefðu ekki komið til Íslands. Sumum fannst það erfitt. Aðrar sögðust ekkert hafa hugsað um þetta og fannst lífið bara gott eins og það er. Stúlkurnar töluðu um að þeim hefði verið strítt og mikið spurðar þegar þær voru yngri. Þeim fannst það leiðinlegt. Sumar voru bara spurðar en ekki strítt. Ein stúlka sagði: „Þetta var svona frá því í fyrsta til þriðja bekk. Alltaf verið að biðja okkur að segja eitthvað á [uppruna- málinu]. Ég sagði í leikskólanum að pabbi minn væri keisari í [upprunalandinu].“ Í upprunalandinu lentu stúlkurnar í því að vera ávarpaðar á málinu sem þar er ríkjandi og fannst það skrítið. UMrÆÐUr Og lOKaOrÐ Niðurstöður viðtalanna við börnin benda til þess að þau hafi flest aðlagast fjölskyld- um sínum, samfélagi og skólum mjög vel. Um er að ræða fjölbreyttan og öflugan hóp barna sem flestum gengur vel í námi og félagslega. Í hópnum eru þó börn sem eiga við námserfiðleika að stríða. Rætt hefur verið opinskátt við börnin um ættleiðinguna og upprunalandið þó mis- jafnt sé hversu mikla áherslu foreldrarnir leggja á tengslin við upprunalandið (Elsa Sigríður Jónsdóttir og Hanna Ragnarsdóttir, 2010; Hanna Ragnarsdóttir og Elsa Sig- ríður Jónsdóttir, 2010). Þetta endurspeglast m.a. í því hversu auðvelt börnin eiga með að tala um ættleiðinguna í viðtölunum. Börnin hafa mismikinn áhuga á að vita meira eða hitta upprunalega foreldra sína. Fræðimenn hafa bent á að mikilvægt sé fyrir að- lögun ættleiddra barna að nýjum heimkynnum að þau séu hvött til að tjá hugsanir sínar um uppruna sinn og tilfinningar gagnvart honum, en einnig hvernig það sé gert (Beckett o.fl., 2008; Brodzinsky, 2006; Friedlander, 1999; Hawkins o.fl., 2007; Jórunn Elídóttir, 2013; Linville og Lyness, 2007; Mohanty, 2013; Reinoso o.fl., 2013). Pryor og Pettinelli (2011) leggja áherslu á að það sé flókið, en jafnframt afar mikilvægt fyrir ætt- leidd börn að semja sjálfsævisögu sína og þau þurfi að treysta á stuðning kjörforeldra við það. Í viðtölunum tjá börnin sig opinskátt um ættleiðinguna. Ljóst er að foreldrar þeirra veita þeim góðan stuðning við að semja sjálfsævisögu sína með því að ræða við þau um ættleiðinguna og upprunalandið (Elsa Sigríður Jónsdóttir og Hanna Ragnars- dóttir, 2010; Hanna Ragnarsdóttir og Elsa Sigríður Jónsdóttir, 2010).

x

Uppeldi og menntun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Uppeldi og menntun
https://timarit.is/publication/581

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.