Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 22
timburstokkar þar á og kannski var bálkurinn nær miðju gólfi undirstöður
einnig en ekki sáust viðarleifar þar á. Þessar hleðslur sáust á þrjá vegu,
þótt þeim hafi eitthvað verið raskað, og voru enn í ágætri hæð til að vera
undirstöður veggjar. Jafnframt sýndust mér vera undirstöður í gólfinu á
þverveginn sem hefðu getað passað við stafgólfin en hrun og rót seinni
tíma gerðu slíka greiningu erfiða. Við vesturþilið sáust einnig undirstöður
en lægri og nærri miðjum vegg mátti sjá umbúnað sem freistandi var að
ætla að væri undan dyrum. Af og til kom upp grunur um að kirkjan hefði
brunnið en móaska og aðrar leifar bentu frekar til þess að einhverjir hefðu
hafst þar við.
Það var tillaga okkar að síðasta kirkjuskeiðið hefði verið þannig að
trégólf hefði verið á að minnsta kosti hluta kirkjunnar, undir kór og
eitthvað fram, en að í eldri kirkju hefði verið steinlagt gólf. Ef þetta er rétt
mat okkar er ljóst að tímasetja má þessa kirkju þannig að hún var reist um
1690 en tekin niður um 173518 og verið notuð, tímabundið, sem skemma
og/eða íveruhús eftir það.
Næstyngsta kirkjan
Næsta stig á undan var greinilegra en ég hafði búist við. Það var einnig
torfkirkja en að þessu sinni með steingólfi. Gólfið hafði verið mjög vel
gert á kafla, steinarnir sérvaldir saman og þeim raðað af nokkurri list.
Hluti þeirra var tilhöggvinn þannig að það var sem þeir hefðu verið
fleygaðir í sundur og brotinu snúið niður. Gólfið var ákaflega slétt. Nú
var farið í að fjarlægja steingólfið af mikilli varfærni. Fyrst datt mér helst í
hug að aftyrft hefði verið niður á melinn þegar timburkirkjan sem ég var
viss um að finna hefði verið reist. Undir steingólfið hafði verið rótað torfi
og möl til að rétta það af. Einnig mátti sjá að steinar voru settir undir í
sama tilgangi og með nokkuð vissu millibili voru notaðir öflugri steinar,
sérstaklega meðfram hliðum, líklega undir burðarbita. Stærstu steinarnir
voru grafnir niður um allt að 20 sm og ljóst að einhver hefur eygt vel út
gólfið til að hafa það slétt.
Hugmyndin um að seinni kirkjan hefði verið með trégólfi kom til af
tvennu. Annars vegar lágu viðarleifar þétt við gólfið og ofan á þeim voru
þakhellur, sperrubrot og torf. Sá hluti gólfsins sem var mest skaddaður var
við kórinn og fremst við dyr. Máldaginn sagði kirkju Sæmundar fimm
stafgólf en lengd stafgólfa er breytileg. Af rústinni mátti ráða að kirkjan
hafi verið um 7 m á lengd hið mesta og væru þá stafgólfin í mesta lagi
1,40 m. Ekkert fannst sem gaf tilefni til tímasetningar þessarar kirkju
en máldaginn fyrrgreindi gefur það til kynna að hún hafi verið orðin
KIRKJUBÓL VIÐ SKUTULSFJÖRÐ 21