Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 29
Eitt af því sem vakti athygli að Kirkjubóli var að engir legsteinar
fundust eða merkingar. Enginn mundi eftir að hafa heyrt um legsteina
í garðinum nokkurn tímann. Þetta gæti verið í anda skipunar Jóns
Sigurðssonar Skálholtsbiskups frá 1345, þar sem hann staðfestir ýmislegt
úr bréfum eldri biskupa. Þar segir m.a. efnislega að ekki megi setja
málaða krossa í jörðu eða steina á leiði nokkurs manns svo þeir verði
ekki fótum troðnir. Þetta var ítrekað af seinni biskupum.47 Engu að síður
er til allnokkuð af gömlum legsteinum frá ýmsum stöðum.48 Í seinni
fornleifarannsóknum hafa ekki fundist legsteinar.49
Frá því grafið var að Kirkjubóli hafa verið birtar nokkrar rannsóknir á
kirkjugörðum sem veita betri tækifæri til samanburðar en árið 1985. Það
verður þó að segja með þær eins og flest annað í fornleifafræði Íslands að
heildarsafnið er það lítið að erfitt er að fella garðinn að Kirkjubóli inn
í formgerðarfræði. Þá er líklegt að aðstæður og staðbundnar venjur hafi
jafnan ráðið miklu um hvernig hlutir voru gerðir, ekki síst á afskekktum
stöðum. Sem dæmi má taka að grafirnar að Kirkjubóli voru grunnar, eins
og reyndar að Neðra Ási, en ekki er getið um slíkt að Þórarins stöðum.50
Slíkt mun hafa verið algengt á miðöldum.51 Af 37 gröfum að Kirkjubóli
var hægt að sjá öruggar kistuleifar í 21 en engar í fimm tilvikum. Svipað
mynstur má sjá t.d. að Neðra Ási en í helmingi tilfella voru kistur að
Þórarinsstöðum. Sú kirkja er sögð hafa lagst af um svipað leyti og stofnað
var til kirkju á Kirkjubóli. Þá voru dæmi um að torfi og grjóti væri hlaðið
að kistum á Kirkjubóli og svipað má sjá að Neðra Ási.
Kirkjugarðsveggurinn var úr torfi og grjóti, greinilega oft endur-
byggður, upp undir einn metri á hæð þar sem mest var. Sáluhlið var á
norðurvegg miðjum sem snýr heim að bæjarhúsum, eins og líklegast er að
þau hafi staðið. Jarðabókin (1710) tiltekur að jörðinni sé hætt við skriðum
og snjóflóðum auk sjávarflóða þegar fjörðinn leggi.52 Það síðastnefnda
hefur þó fremur ógnað engjum við árósinn en garðinum.
Garðurinn var um 900 m2 og því sem næst ferhyrndur, að því frátöldu
að hann var með þeim hornum sem mannvirki úr torfi vilja gjarnan vera,
náttúrulega ávölum. Austurveggur var nokkuð beinn en aðrar hliðar
bogadregnar.
Veggir höfðu eyðst nokkuð, bæði vegna hruns og ágangs vinnuvéla.
Meðal annars mátti sjá hjólför vinnuvéla þvert yfir garðinn frá sáluhliði,
rétt fyrir enda kirkjunnar og að vegg hinum megin.
Svo virtist sem veggirnir væru ólíkir. Þannig virtist austurveggur best
varðveittur með nokkuð bröttum brúnum en suðurveggur verst farinn
og illa hruninn. Þar var einnig nokkuð mikið af grjóti sem stóð út úr
28 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS