Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Side 105
104 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
staðar skaddast við fyrri uppgröft en þó var það töluvert þykkt eftir miðju
skálans endilangri. Umhverfis skálann mikla eru leifar sjö annarra húsa.
Eitt þeirra er djúpt jarðhýsi (G). Tvö hús eru að nokkru niðurgrafin (A4
og A5) og fjögur hús eru í viðbót, öll með torfveggjum (A2, C2, D2,
E2) (sjá 1. mynd). Umhverfis þessa húsaþyrpingu eru þunn sorplög og
sumstaðar eru afmarkaðri ruslahaugar. Jarðhýsið djúpa sunnan við skála
hafði verið fyllt af rusli.
Tímasetning með gjóskulögum hefur afmarkað notkunartíma allra
rústanna við í mesta lagi tvær aldir, um 950-1158 e. Kr. Á þessum tíma má
sjá nokkur byggingarskeið, viðgerðir og loks eru húsin yfirgefin. Enn er
verið að vinna að því að fá skýrari mynd af þeirri atburðarás og vonandi
munu frekari kolefnisgreiningar koma að gagni við það. Þegar hér er
komið sögu er búið að greina ellefu C14 sýni, flest úr aðalsorphaugnum,
og styðja greiningarnar þá tímasetningu sem gjóskulögin hafa gefið. En
verið er að undirbúa fleiri sýni úr lögum frá notkunartíma bygginganna
til að fá fram nákvæmari tímasetningu atburða á staðnum. Hér á eftir
verður fjallað um helstu atriði í hverri byggingu fyrir sig og rætt í hvaða
röð þær koma til sögunnar. Byggingarnar eru einkenndar með bókstöfum,
það kerfi er byggt á þeim stöfum sem Daniel Bruun notaði, en aukið við
það þegar þörf gerist.
Húsin
Skálinn (hús A/B)
Nokkuð er glöggt hvað fyrst hefur verið gert á bæjarstæðinu. Sennilega
hefur grasrótin verið rist ofan af mestöllu því svæði þar sem skálinn var,
þar eð lög sem myndast hafa við bygginguna, smágerðar torfleifar og
uppmokstur, lágu beint ofan á óröskuðu gjóskulagi sem talið er frá því
um 950 og undir veggjum. Skálinn ber þess merki að gert hefur verið
við hann oft og gerðar á honum breytingar. Sem stendur höfum við ekki
nákvæma tímasetningu á þessum viðgerðum og breytingum en eftir er
að vinna úr fleiri kolasýnum og er vonast til að hægt verði að fá nokkra
hugmynd um hvenær þær breytingar sem lýst verður hér á eftir voru
gerðar.
Tvennt er það sem eftir stendur af skálabyggingunni, neðsti hluti
torfveggjanna og undirstöður innri timburgrindarinnar sem hélt uppi
þakinu. Líklega hafa torfveggirnir verið reistir fyrst (þar eð þeir þurfa
yfirleitt tíma til að „jafna sig“)4 og síðan timburgrindin og þakið.
Veggirnir höfðu skaddast mikið við uppgröft Daniels Bruuns. Þó var
nóg eftir af þeim hér og hvar til að hægt væri að átta sig á gerð þeirra.