Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 108
VÍKINGAALDARBYGGÐIN Á HOFSTÖÐUM Í MÝVATNSSVEIT 107
Timburgrindin var ekki bogadregin eins og veggirnir, heldur voru
stoðaraðirnar beinar. Alls eru fimm raðir af stoðum eftir skálanum
endilöngum. Tvær raðir yst og röð í miðju með nokkuð reglulegum
millibilum (um 4 metrar milli stoða) og tvær innri raðir, mun þéttari – og
bera þær einnig merki um margendurteknar viðgerðir og endurnýjaðar
holur. Þetta fyrirkomulag – sem lýsa mætti sem fjórskipa skála – er afar
óvenjulegt og óvíst að það sé hentugt byggingarlag. En vegna þess að
skálinn hefur verið lengi í notkun og sjá má merki um miklar viðgerðir
og breytingar á undirstöðum timburgrindarinnar, er mjög sennilegt
að þarna sjáist í einu ummerki um tvö byggingarskeið. Þá hefur á öðru
skeiðinu verið röð af stoðum í miðju, sem báru uppi mæniásinn, en á
hinu hafa verið tvær raðir af stoðum sem voru tengdar með bitum um
þvert hús. Ef þessi túlkun er rétt, er samt mjög erfitt að vera viss um hvor
gerðin kom á undan – við rannsókn Daniels Bruuns var víða skorið á
mikilvæg tengsl í jarðlagaskipaninni og gólflög geta auðveldlega gengið
til og aflagast. Flestar stoðarholurnar í miðröðinni sáust í yngsta gólflaginu
en flestar stoðarholurnar í ytri röðunum komu fyrst í ljós þegar gólflög
höfðu verið fjarlægð. Þetta gæti bent til þess að innri holuröðin sé frá
eldra skeiðinu. Breytingin frá grind með hliðarásum og þverbitum í grind
þar sem stoðaröð í miðju ber uppi mæniás hefði ekki valdið miklum
breytingum á útveggjum – hefði ekki einu sinni þurft að valda breytingum
á ytri stoðaröðinni en á henni hafa raftarnir hvílt. Aðalbreytingin hefur
verið á þakgerðinni, útliti þakgrindar og ef til vill hæð hennar.
Margvísleg ummerki um innri frágang má sjá í skálanum en hér verður
aðeins getið um það helsta. Skálinn er um 35,8 m að lengd og 6 m að
breidd að innan. Honum var skipt að minnsta kosti í þrjá hluta. Þeir eru
aðalrýmið í miðju og norður- og suðurendi en þeir eru báðir aðskildir frá
aðalrýminu með gangi sem liggur um þvert húsið, um 1,5 m að breidd.
Dyr voru á nyrðri ganginum beggja vegna en aðeins að vestan á þeim
syðri. Svo er að sjá að sjálf burðargrind endanna tveggja og miðjunnar sé
ekki ein heild – undirstöður timburgrindarinnar mynda ekki beinar línur
og breytingar á þeim virðast ekki verða á sama tíma. Því má líta á þetta
sem aðskildar byggingar þó að þær kunni að hafa litið út eins og eitt hús
séð að utan.
Gólflögin voru nokkuð vel varðveitt en þau fundust aðeins í skálanum
miðjum þar sem þau fylltu ílanga dæld. Þau voru aðallega úr ösku úr
eldstæðum sem safnast hafði saman í dældinni. Í þeim fannst nokkuð
af gripum, þeir voru einkum sunnan og austan við eldstæðið. Í gólfinu
miðju voru tvö eldstæði, hvort við endann á öðru og skammt milli þeirra.