Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 112
VÍKINGAALDARBYGGÐIN Á HOFSTÖÐUM Í MÝVATNSSVEIT 111
tíma verið breikkað. Bæði sást það á því að stoðirnar sem báru uppi
mæniásinn höfðu verið endurnýjaðar og færðar til og gólfinu hafði verið
breytt. Gólfið í húsinu var myndað úr mörgum öskulinsum, væntanlega
úr eldstæði í norðausturhorninu, það var gert úr stórum flötum steinum.
Svo var að sjá að sléttað hafi verið úr A5 þegar það var yfirgefið og húsið
A4 var byggt fyrir sunnan það.
Húsið A4 hafði skaddast mikið af súrheysgryfju og fjárhúsi sem byggt
var ofan á það á 19. öld. Samt var nógu mikið eftir af húsinu til að hægt
væri að sjá hvernig það var í laginu. Það hafði verið grafið niður eins
og A5 en einnig voru leifar af torfveggjum kringum vesturenda þess sem
voru byggðir ofan á uppmoksturslögum. Að innan var húsið um 7,3 m
að lengd og 4,4 m að breidd. Að austan, þar sem það var grafið inn í
brekkuna, var það 1,2 m að dýpt. Inngangur í húsið var á vesturenda
og gekk þar fram lítill gangur (1,9 m að lengd) með stoðarholum. Að
innan mátti sjá marga stoðarsteina og nokkrar stoðarholur þétt meðfram
hliðum hússins og einnig eftir miðbiki þess. Þessi frágangur bendir til
að þakgrind hafi verið með svipuðu ásþaki og A5. Gólfið hafði verið úr
mörgum þunnum viðarkolalögum, en við byggingarnar á 19. öld hafði
það að mestu eyðilagst, nema allra austast þar sem það var varðveitt. Í
norðvesturhorni var að sjá að hefði verið eldstæði en það hafði einnig
skaddast af síðari mannvirkjum.
Bæði húsin, A5 og A4, eru ákaflega svipuð að gerð – grafin inn í
brekkuna, með ásþaki, eldstæði í norðvesturhorni og litlum gangi fyrir
framan. Þessi líkindi og hitt, að þau eru notuð hvort á eftir öðru, benda til
þess að þau hafi verið til svipaðra nota. Mikið fannst af gjalli og örsmáum
járnflísum, sem hrokkið hafa af járninu þegar það var hamrað, í lögum
í þessum húsum og næst þeim, og af því má álykta að líklegt er að þau
séu smiðjur. Verið er að greina sýni af málmsmíðaúrgangi og vonast til að
niðurstöður muni hjálpa til við túlkun húsanna.
Hús úr torfi einvörðungu (mannvirki A2, C2, D2)
Þrjú hús eru áföst skálanum og öll reist eftir að hann hafði staðið um
nokkra hríð. Þangað til búið verður að gera fleiri C-14 greiningar verður
ekki fullvíst hvernig sambandinu milli þeirra er háttað. Húsið C2 var
byggt við norðurenda skálans og Daniel Bruun hafði grafið það upp. Það
hafði einnig skaddast mjög af byggingu með grjótveggjum (C1) sem var
reist ofan í það á 14. öld. Húsið með grjótveggjunum er frá miðöldum en
Daniel Bruun túlkaði það ranglega sem samtíma skálanum og taldi að það
væri goðastúkan. Hins vegar áttaði hann sig ekki á eldra torfhúsinu undir