Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 115
114 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Beint á móti D2 var A2, þriðja viðbyggingin við skálann. A2 hafði
verið byggt eftir að búið var að slétta úr A5 og einnig síðar en A4 var
reist, og er því líklega eitt af yngstu húsunum á staðnum. Það var 6,9 m
langt og 3,5 m breitt að innanmáli, veggirnir voru úr strengjatorfi, 1 m
að þykkt, og stóðu í 0,5 m hæð. Þakið hefur verið borið uppi af mæniás
sem hvíldi á tveimur miðstólpum en einnig voru hliðarstoðir við veggi.
Það hefur tengst grindinni í skálanum að vestan. Gólfin voru slitrótt og úr
móösku. Í suðausturhorni var eldstæði og í vestanverðu húsinu var sáfar
– en ílátið hafði verið fjarlægt og sáfarið síðan fyllt af málmsmíðaúrgangi.
Eins og húsin A4 og A5 virðist þetta hús hafa verið notað sem smiðja.
Þar sem jarðlagaskipan bendir til að það komi á eftir húsinu A4 er það
líklega þriðja smiðjan í röðinni á staðnum. Sérmerkilegar voru nokkrar
hauskúpur úr nautgripum sem fundust í torfhrunslögum sem fylltu tóftina.
Í torfhruni umhverfis suðurenda skálans fundust nokkrar til viðbótar og
kann að vera að veggirnir hafi verið skreyttir með slíkum hauskúpum.
Lítið hús til óþekktra nota (hús E2)
Síðasta húsið er nokkur ráðgáta. Það er lítil bygging, 5,8 x 3,8 m að
innanmáli, og er skammt vestan við nyrðri þverganginn í skála. Veggirnir
voru úr streng, þeir voru um 1 m á þykkt og stóðu í um 0,2 m hæð.
Ekki var greinilegur inngangur í húsið en á vesturhlið var mjótt op sem
tengdist rennu inni í húsinu sem lá meðfram vesturvegg þess. Steinaröð
var í vesturbrún rennu en við austurhlið voru fjórar verklegar stoðarholur
með jöfnu millibili. Þessar stoðir hafa líklega borið uppi þak en ekki er
víst að það hafi verið viðamikið. Ef til vill hefur það ekki náð yfir allt
húsið – vel má vera að yfirbygging þessarar tóftar hafi verið fremur opin,
hún kann að hafa verið úr timbri og torfveggirnir hafi verið undirstaða
til að lyfta veggjunum upp. Ekkert yfirborðslag fannst inni í byggingunni
og getur verið að gólfið hafi verið upphækkað og úr timbri; það myndi
einnig skýra það að ekki sér fyrir inngangi sem þá hefði líka verið
upphækkaður. Mestar líkur eru á að inngangurinn hafi verið á austurhlið
andspænis inngangi í skálann. Milli skáladyra og E2 hafði verið reist ílangt
fordyri úr torfi, eins og viðbygging við skálann. Það var um 5 m langt og
byggt úr streng, veggirnir um 1 m að þykkt og stóðu í um 0,4 m hæð.
Daniel Bruun hafði grafið upp töluverðan hluta þess, fjarlægt nokkuð
af veggjum og mestöll gólflög. Eftir því sem næst verður komist er ekki
þekkt hús á Íslandi sömu gerðar og E2 og ekki er fyllilega búið að ráða í
notkun þess. Fyrstu greiningar á lögum úr rennunni benda til að í henni