Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 122
Ekki eru hugmyndirnar þó alltaf hluti af opinberri hug myndafræði
samfélagsins. Má segja að þarna séu óopinberar hugmyndir á opinberum
stöðum og að baki búi mjög flókin og torskilin hugmyndafræði sem
kannski eigi rætur sínar að rekja til frummannsins og tilrauna hans til að
beisla umhverfi sitt. Með því að pára í náttúruna eða á náttúrulega hluti er
hún eða hlutirnir gerðir að hluta menn ingarinnar. Náttúran hefur yfirgefið
fyrra hlutverk sitt fyrir tilverknað manna og orðið hluti af samfélaginu
eða menningunni. Þannig má segja að manneskjan hafi náð ákveðnum
tökum á hinum torskildu þáttum tilverunnar, eða hinu yfirnáttúrulega.
Umhverfið sett í samhengi við hugmyndafræði samfélagsins verður þannig
viðráðanlegt. Segja má að með þessu hafi náttúrunni verið umbreytt í
menningu og hún innlimuð í menninguna.
Veggjakrotið er ósjaldan einskonar yfirlýsing af pólitískum eða kyn-
ferðislegum toga. Þar er gjarnan komið á framfæri ýmsum miður
skemmtilegum hugmyndum manna, sem ekki eru dæmigerðar fyrir
hugmyndir meirihlutans. Það sem ekki kemst annarsstaðar í letur, sökum
þess að þar koma fram kynþáttafordómar, sjúklegar hneigðir o. s. frv.,
lifir góðu lífi á veggjum náðhúsa, símaklefa og annarra staða þar sem
einstaklingar hafa ró og næði til að koma skilaboðum sínum áleiðis. Þó
má alls ekki halda að allt veggjakrot nútímans sé runnið undan rifjum
neikvæðra eða óæskilegra hugmynda, þvert á móti er oft um ýmis
spakmæli að ræða og jafnvel beinar tilvitnanir í heimsbókmenntirnar.
Einnig getur krotið verið staðfesting á því að Jón Jónsson hafi verið á
staðnum í eigin persónu og þannig eignast dálitla hlutdeild í eilífðinni.
Til eru mörg dæmi um slíkt í hellum hér á landi3 og við útræði svo sem
í Örfirisey og Lambhóli í Reykjavík4, þar sem bæði danskir kaupmenn á
18. öld og erlendir setuliðar á eftirstríðsárunum sýndu eða sönnuðu veru
sína á staðnum með áletrunum.
Ómögulegt er að skilja að krot og opinbert myndmál í öndverðu og
álitamál hvort nokkur munur hafi þar verið á. Þegar fram liðu stundir er
þó greinilegur munur á þessu tvennu.
Mynstur eru tákn sem hafa innihald og skilaboð. Charles Morris segir
„Menningarsamfélög eru háð táknum og kerfi tákna og mannshugurinn
er órjúfanlega tengdur virkni táknanna. Segja má að hugurinn sé í raun
greindur með slíkri virkni,“ 5 og Susanne Langer „...tákn er allt það sem
gerir okkur kleift að gera hið huglæga mögulegt“.6
Til að skilja mynstrin eða þau skilaboð sem þau kunna að búa yfir
verða menn að skilja hinar margvíslegu hliðar þeirra samfélaga sem
skópu þau. Mikilvægt er að hafa í huga að einfaldar línur eða myndir
EKKI ER ALLT SEM SÝNIST 121