Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 178
GREINARHEITI 177
Hugleiðingar um kumlstæði
Því miður fór aldrei fram ýtarlegri fornleifarannsókn á fundarstað grip-
anna í Baldursheimi til þess að afla frekari upplýsinga um kumlstæðið.
Þegar skráðar voru fornleifar í landi Baldursheims 1998 vísaði
Þráinn Þórisson, sem fæddur var í Baldursheimi, á stað 180 m austan
við trjágarðinn í Baldursheimi I (þar sem gamli bærinn hafði staðið), úti
undir girðingu, rétt fyrir sunnan mýrarfen. Þar hafði honum verið sagt að
kumlið hefði fundist.6
Í sambandi við uppsetningu nýrrar grunnsýningar Þjóðminjasafns
2004 fór greinarhöfundur að Baldursheimi í Mývatnssveit í þeim tilgangi
að reyna að finna staðinn þar sem kumlið hafði komið í ljós. Sigurður
Þórólfsson, gullsmiður í Mosfellsbæ, sem alinn var upp á Baldursheimi
og Margrét Ragnarsdóttur kona hans voru leiðsögumenn á staðnum.
Sigurður hefur lengi haft áhuga á hinu forna kumlstæði og taldi sig geta
staðsett það með nokkurri nákvæmi út frá frásögnum staðkunnugra,
lýsingu á fundinum og eigin athugunum. Sigurður átti í fórum sínum
stækkaða loftmynd af svæðinu sem tekin var 1958 og reyndist mjög
gagnleg við að meta hugsanlegar breytingar á staðnum frá því að kumlið
fannst. Á myndinni sést holtið austan við bæinn sem Arngrímur nefnir.
Eftir holtinu endilöngu liggur rofabarð frá norðri til suðurs sem sýnir
hve langt uppblásturinn hafði náð á 6. áratugnum. Vestan megin í holtinu
er tún sem ræktað var upp árið 1948. Rofabarðið hafði verið grætt upp
og er líklegt að þetta tvennt hafi stöðvað uppblásturinn að mestu, því
að rofmörkin virðast ekki hafa færst til vesturs frá því að loftmyndin var
tekin. Afstöðumynd var teiknuð upp eftir loftmyndinni.
Girðing er austan við túnið. Hún var færð til austurs árið 1999 og
er rofabarðið nú allt að 26 m fyrir innan girðinguna. Sigurður taldi að
kumlið hefði komið fram öðru hvoru megin við girðinguna, skammt frá
háholtinu. Þar er allt blásið í möl og á víð og dreif standa stakir steinar.
Ekki er hægt að sjá að þeir séu leifar neins konar mannvirkja. Á tveimur
stöðum voru þó undantekningar frá þessu. Þar var á báðum stöðum
stór steinn sem myndaði eins og gafl við suðurhlið og þyrping smærri
steina norðan við þá. Ekki er hægt að segja til um hvernig á þessum
steinaþyrpingum stendur. Vegna þess hve reglulegar steinaraðirnar eru
virðast þær hafa komið til eftir að holtið blés upp. Ef þær hefðu markað
útlínur kumla sem stóðu í upphaflegu yfirborði má telja líklegt að
steinaraðirnar hefðu riðlast meira, þegar holtið blés upp. Hugsanlega eru
þetta leifar barnaleikja. Full ástæða væri þó að athuga þessar minjar betur.
Þessar minjar eru rúmlega 1 m langar og um 60-70 cm breiðar. Afstaða