Dagblaðið Vísir - DV - 20.11.2009, Blaðsíða 37
helgarblað 20. nóvember 2009 föstudagur 37
að vera foreldri og sýnir hvað maður
ræður ofboðslega mikið yfir barninu
sínu. Þú mótar tilfinningalegt lands-
lag barnsins þíns. Óhjákvæmilega er
þetta ótrúlegt vald og ótrúleg ábyrgð.
Almennt get ég sagt um þetta að ég
held að það sé sama hvað uppaland-
inn sé velviljaður, gáfaður eða góður,
uppeldið sé samt sem áður vonlaust
verk. Og þegar það virkilega mis-
tekst og börnin eru beinlínis sköð-
uð þá er það algjör hryllingur, jafn-
vel mesti hryllingur sem hægt er að
hugsa sér.“
Steinunn á eina dóttur. Ef hún
ætti son kveðst hún viss um að hann
væri orðinn mæðrasonur.
„Ég held að ég geti sagt það sama
og ein konan í bókinni: Sem betur
fer eignaðist ég ekki son til að eyði-
leggja.“
Runa af skyndikonum
Í upphafi sögunnar fer Karl, sem á
bæði hús í Frakklandi og Bandaríkj-
unum, til Íslands til að reyna að vinna
aftur ástir Unu sem hann var í sam-
bandi með í sjö mánuði fyrir sautj-
án árum. Síðan þá hafði hann aldrei
verið í sambandi með konu, einung-
is átt skyndikynni og hafði sett sér
þá reglu að sænga aldrei hjá sömu
konunni oftar en þrisvar. Óuppfyllta
ástin og þráin eftir Unu veldur því
að hann gat ekki hugsað sér frekara
samneyti en þetta við aðrar konur.
Steinunn segist skoða þessa þrá-
hyggju í ástinni í bók sinni. „Karl get-
ur bara elskað þessa einu konu frá því
hann sér hana fyrst í mýflugumynd
þegar þau eru aðeins ellefu ára göm-
ul. Hann fer því aldrei annað í sam-
band, á sér bara endalausa runu af
skyndikonum en er algjörlega með-
vitaður um það að hann vilji ekki
fast samband við nokkra aðra konu
nokkurn tímann. Svo fær hann ást-
ina sína, þótt líkurnar á því hafi ver-
ið hverfandi, og nær að byggja upp
með henni fallegt líf.
En bókin er full af alls konar
spurningum um hvort allur sann-
leikurinn sé þarna og fleira. Það
myndi almennt vera sagt að bókin
hefði „happy end“ en ein vinkona
mín sem er ofboðslega skörp spurði
mig í gær: „Er þetta „happy end“ á
bókinni?“ Hún svaraði sér sjálf um
hæl og sagði: „Nei, hann er það ekki.“
Þannig að ég er búin að upplifa því-
líka breidd í túlkunum á bókinni.“
Pluma sig verr einir
Í tilvitnuðum orðum Joseph Conrads
fremst í bókinni segir að það sé stað-
reynd að elskhugi búi í öllum mönn-
um en ekki öllum konum. Ertu sam-
mála þessu?
„Það er grundvallarmunur á
mönnum og konum þegar að þess-
um málum kemur. Ég veit í raun-
inni ekki hvað ég á að segja um þetta.
Tilvitnunin kemur ekki til á und-
an bókinni, ég fann hana þegar ég
var að skrifa bókina og mér fannst
hún passa við söguefnið. En hvort
þetta er stóri sannleikur eða ekki veit
ég ekki, mér finnst þetta alla vega
hljóma ótrúlega vel og vera ótrúlega
sláandi. En kannski má ímynda sér
að karlmenn þrái það enn þá meira
en konur að ...“ Steinunn gerir smá-
hlé á máli sínu. En heldur svo áfram:
„Kannski má ímynda sér að lík-
amleg ást skipti karlmenn meira
máli en konur. Tökum sem dæmi:
Karlmenn sem búa einir plumma sig
almennt verr en konur sem búa ein-
ar. Og þegar annað hjóna deyr pluma
konur sem verða eftir sig yfirleitt bet-
ur en karlar. Það er því alla vega eitt-
hvað í þessari setningu sem er þess
virði að skoða. En eins og bókin er
að sumu leyti stríðin er þetta svolít-
ið stríðin setning,“ segir Steinunn og
hlær.
Ákveða fyrir makann
Í bókinni nánast stelur Karl Unu úr
hjónabandinu sem hún er í í skjóli
nætur. Þau stofna svo til sambands
í framhaldinu. Samtalið berst að því
hversu mikil pressa það hljóti að vera
á einstaklingum sem hefja sambúð á
þessum nótum að láta dæmið ganga
upp og Karl veltir því reyndar fyrir
sér í bókinni.
„Það er auðvitað gífurlega pressa
sem þessu fylgir,“ segir Steinunn. „Ég
held að fólk upplifi líka pressu al-
mennt í samböndum, þótt til þeirra
sé ekki stofnað eða þau séu ekki
endurreist á jafndrastískan hátt, að
standa undir öllum þeim kröfum
sem makinn gerir. Það væri til dæm-
is útilokað fyrir mig sem kvenrit-
höfund að vera í langtímasambandi
með manni sem væri alltaf að gera
sérstakar kröfur á mig.
Ég og minn sambýlismaður, Þor-
steinn Hauksson tónskáld, erum
bara saman í þessu. Auðvitað reyn-
um við að koma vel fram hvort við
annað og reynum að vera skemmti-
leg frekar en hitt og það er honum að
minnsta kosti auðvelt,“ segir Stein-
unn og brosir.
Er hann þá ekki með neinar kröf-
ur á þig?
„Að minnsta kosti ekki í nein-
um venjulegum skilningi, að á þess-
um tíma eigi þetta að vera svona og
á öðrum tíma eitthvað hitt, heldur
flæðum við bara einhvern veginn
saman í gegnum hversdaginn. Og við
erum ekki með einhverjar ofboðs-
legar meiningar um hvernig þessi
hversdagur eigi að vera. Við borð-
um yfirleitt á einhverjum ákveðnum
tíma á kvöldin en að öðru leyti erum
við ekki að setja hvort öðru skorð-
ur. Mjög margt sambýlisfólk setur
maka sínum alveg ótrúlegar skorð-
ur. Það vill sjálft eitthvað ákveðið
og þá verður makinn bara að falla
inn í munstrið. Ég horfi á það með
hræðslu hvað fólk er til í að ákveða
mikið fyrir sína nánustu.“
Kvennabósi eða hommi?
Einhverjir sem lesa þetta gætu hugs-
að að þú getir leyft þér að hugsa
svona, en fólk sem er að reka heim-
ili með kannski þremur börnum og
er í níu til fimm vinnu verði að hafa
meira skipulag og skorður en tveir
listamenn með frjálsan vinnutíma
og engin börn á heimilinu.
„Já, ég er sammála því. Það er
gjörólíkt ástand hjá fólki sem hefur
stórt heimili og vinnu úti í bæ held-
ur en hjá tveimur listamönnum. Það
er hins vegar mjög flókið að gera
þetta sem við erum að gera. Það eru
rosalega mörg úrlausnarefni, líka
af praktískum toga, en þá erum við
til dæmis ekki með pressu hvort á
annað að það verði endilega að ger-
ast núna heldur flæðir þetta eðli-
lega áfram. Við hjálpumst að í þessu,
ég hef tekið að mér ákveðna hluti
og Þorsteinn aðra og það er enginn
ágreiningur og vesen um þetta sem
mér finnst óendanlega dýrmætt,“
segir Steinunn og leggur á áherslu á
orð sín með raddbeitingu og líkams-
tjáningu.
Margir sem lesa um Karl Ástuson
í bók Steinunnar myndu líklegalega
nota um hann orðið „kvennabósi“.
Steinunn kveðst hins vegar ekki gera
það í ljósi þeirra ástæðna sem liggja
að baki hegðun hans. Hún segir hins
vegar ekki hægt að einfalda mál-
ið þannig að allir sem eigi einungis
skyndikynni við konur séu mæðra-
synir, sjái á eftir æskuástinni eða
hvort tveggja.
„Tveir menn sem haga sér svipað
geta gert það af gjörólíkum ástæð-
um,“ útskýrir Steinunn. „Sumir
svæsnir kvennabósar geta til dæmis
verið hommar sem eru að reyna að
leyna því fyrir sjálfum sér, umheim-
inum eða hvorutveggja. Og þetta er
svo heillandi, að hafa tvö nákvæm-
lega eins munstur en ástæðurnar
geta verið þvílíkt ólíkar.“
Ást er stjórnlaust villidýr
Heldurðu að algengt sé að fólk sem
hefur verið í hjónabandi í fjölda ára,
og þá ekki með æskuástinni, sjái eftir
því að hafa ekki lagt meira á sig til að
halda lífi í sambandinu með kærast-
anum eða kærustunni sem það átti á
táningsárunum?
„Eftirsjá eftir æskuástinni kem-
ur líka fram í Sólskinshesti [síðustu
skáldsögu Steinunnar] og eftir að
hafa hugsað um og skrifað um þessa
hluti í þessum tveimur bókum held
ég að í okkur öllum blundi einhvers
konar þráhyggja. Ég held að mjög
mörg af okkur eigi sér einhvern leyn-
igest sem er í sérstöku uppáhaldi.
Það er kannski einhver sem mað-
ur hefur einhvern tímann kysst eða
aldrei kysst, einhver sem maður átti
einhver augnablik með en varð ekki
neitt meira en getur verið nákvæm-
lega jafn sterkt og mikið fyrir því.
Sumir eru svo heppnir að þetta er
þeirra maki, en fólk lifir langa ævi og
þetta er ekkert einfalt mál. Og þetta
þarf ekki að vera einhver æskuást, en
það eru held ég yfirleitt einn eða tveir
sem eru aðal og skipa tilfinningaleg-
an sess hjá viðkomandi. En þetta get-
ur verið einhver sem fólk getur ekki
hugsað sér að eyða ævinni með. Það
getur verið að það sé ekki hægt því
fólkið á ekki skap saman eða annað.
En ást er villidýr sem fólk hefur ekki
stjórn á. Fólk ræður hvað það gerir,
hvort það hefur samband og svoleið-
is, en það ræður ekki yfir tilfinning-
unum. Þú rekur þær ekki bara burt.“
Bylting að flytja til Berlínar
Þið Þorsteinn hafið verið lengi sam-
an.
„Í tuttugu ár,“ segir Steinunn. Og
bætir við jafnharðan: „Mér finnst það
algjört afrek. Mér hefði aldrei dott-
ið í hug að það væri hægt, líka vegna
þess að síðustu tíu, fimmtán árin, eft-
ir að við fórum að búa saman, höfum
við verið saman 24 klukkutíma á sól-
arhring. Við vinnum í sama húsi og
sofum í sama rúmi þannig að þetta
er algjör (skáletrað) sambúð.“
Þannig að þið bjugguð ekki sam-
an fyrstu fimm til tíu árin af sam-
bandinu?
„Nei, þegar við kynntumst vorum
við bæði nýbúin að koma okkur upp
húsnæði í Reykjavík og bæði búin að
búa ein í tíu ár og vorum því ekkert að
flýta okkur.“
Steinunn og Þorsteinn fluttu til
Berlínar fyrir tveimur árum eftir sjö
ára búsetu í Frakklandi fram að því,
þrjú ár í París og svo fjögur ár í litlu
þorpi í suðurhluta landsins. „Þetta er
ekki hugguleg lítil breyting á lifnað-
arháttum, þetta er bara bylting. Það
er ekkert líkt með þessu,“ segir Stein-
unn um búferlaflutningana. Fólkið sé
gjörólíkt, auðvitað séu til margar mis-
munandi tegundir af bæði Frökkum
og Þjóðverjum, en ef maður reyni að
ímynda sér þjóðirnar sem einhvers
konar heild þá séu Frakkar og Þjóð-
verjar algjörlega ólíkt fólk.
„Ef við tökum bara hreint og beint
yfirborðið sem snýr að hversdeginum
þá eru Frakkar með heilu serimón-
íurnar af hegðunarmynstri þar sem
allt gengur út á kurteisi. Það er stans-
laust verið að bjóða góðan daginn,
„gleðilega“ matarlyst, gleðilegt síð-
degi, góða kvöldið og svo framveg-
is. Þjóðverjar, og Berlínarbúar líklega
sérstaklega, eru miklu hrjúfari á yfir-
borðinu. En það sem Þorsteinn kom
auga á er að Þjóðverjar sýna samt sem
áður miklar tilfinningar. Berlín er að
því leyti gangandi leikhús.
Plúsar og mínusar við fjarlægð-
ina
Spurð hvers vegna þau hafi flutt segir
Steinunn að upphaflega hafi ætlunin
ekki verið að yfirgefa Frakkland. „Við
ætluðum hins vegar alltaf til Berlín-
ar í hálft eða eitt ár. Þegar okkur mis-
tókst að fá húsnæði eins og við ætl-
uðum að fá í Frakklandi, sem fól í sér
heldur erfiða og leiðinlega atburða-
rás, gáfumst við upp á því og fluttum
til Berlínar. Við höfum alls ekki séð
eftir því, til dæmis ef ég horfi á þetta
út frá minni vinnu þá hafa fimm af
skáldsögum mínum komið út hjá
stóru forlagi í Þýskalandi, Rowohlt,
og allar hafa komið út í Svíþjóð og ég
fer heilmikið um til að hitta lesend-
urna og lesa upp.“
Steinunn segist þó vissulega
sakna Frakklands mjög mikið. „Ég
held að allir sem ná fótfestu í Frakk-
landi og flytja svo burt sakni lands-
ins og þjóðarinnar, þetta er bara svo
stórkostlegt og sérstakt. Maður á
líka að sakna staða sem maður hef-
ur búið á, annars er ekkert varið í þá.
En ég veit ekkert hvað framtíðin ber í
skauti sér. Við gerum ekki fimm ára
áætlanir. Það er bara ekki svoleiðis
hjá okkur.“
Er ekki ágætt að vera fjarri þrasinu
um Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóð-
inn, spillingu og fleira á Íslandi?
„Ja, það er algjörlega bæði og,“ seg-
ir Steinunn og verður örlítið alvarlegri
á svip. „Það er á hreinu að ef ég ætti
nóga peninga þá myndi ég vera sex,
sjö mánuði á ári í útlöndum og rest-
ina á Íslandi. Mér finnst þessi fjarvera
frá Íslandi hafa mjög neikvæðar hlið-
ar. Ég sakna þess að vera ekki innan
um mína þjóð þegar illa gengur og ég
sakna vina minna bara mjög mikið.
Ég á líka mjög góða vini í útlöndum
en þeir koma ekki í staðinn fyrir mína
íslensku vini. Sum árin hefur okkar
lukkast að vera hér fjóra, fimm mán-
uði á ári en þetta er óskaplega dýrt,
tímafrekt og erfitt ef maður á ekki
tvennt af öllu. Þess vegna hefur þetta
þróast út í það að við erum svo til ein-
göngu erlendis. En það að vera fjarri
kreppunni á Íslandi er gott að sumu
leyti en öðru leyti hábölvað.“
Finnur ekki fyrir aldrinum
Steinunn á fjörutíu ára rithöfundar-
afmæli í ár. Blaðamaður lýkur sam-
talinu á að spyrja hana hver sé mun-
urinn á nítján ára stelpunni sem
skrifaði ljóðabókina Sífellur árið
1969 og konunni á besta aldrinum
sem skrifaði Góða elskhugann.
„Að hve miklu leyti breytist mað-
ur er endalaust umhugsunarefni
sem enginn á svar við,“ segir skáld-
konan. „Þegar ég fer að hitta skóla-
félaga mína þá finnst mér ég alls
ekkert breytt. Það er bara eitthvað
hulstur sem verður úr sér gengið en
sálin er mjög söm við sig. Ég finn alla
vega alls ekki fyrir þessum árum sem
hafa hlaðist á mig sálarlega. Ég verð
samt að segja eins og mamma sagði
fyrir ekki löngu að þegar maður legg-
ur upp í lífið hefði maður ekki trú-
að hvað heimurinn er grimmur. Það
eru ákveðin þyngsl sem óhjákvæmi-
lega koma yfir mann með árunum
eftir því sem maður fréttir meira um
heiminn og hans illu vélráð. Það sem
fer verst með mig eftir því sem árin
líða er að sjá hvernig farið er með
minni máttar í heiminum, sérstak-
lega börn.
Um leið og maður segir það verð-
ur maður alltaf að taka hina hliðina
með, að það er líka tilefni til þess að
maður verði léttari í lund með árun-
um þegar maður sér hvað manns-
andinn getur verið gjörsamlega
óbrjótanlegur. Maður horfir á fólk-
ið í einræðisríkjunum sem reis upp
gegn kúguninni og gegn því að fara
að njósna um vini sína og beint út í
opinn dauðann. Og það vissi hverjar
afleiðingarnar yrðu. Það eru sögur í
þessum dúr sem halda manni gang-
andi.“ kristjanh@dv.is
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur
n Fæðingardagur: 26. ágúst 1950.
n Fæðingarstaður: Reykjavík.
n Foreldrar: Sigurður Pálsson vörubílstjóri (f. 1915) og Anna Margrét
Kolbeinsdóttir hjúkrunarkona (f. 1920).
n Sambýlismaður: Þorsteinn Hauksson tónskáld (f. 1949).
n Dóttir: Tinna Traustadóttir (f. 1974).
n Fyrsta bók Steinunnar kom út árið 1969, ljóðabókin Sífellur, og síðan þá
hafa komið út eftir hana nítján skáldverk.
n Þekktasta bók Steinunnar er Tímaþjófurinn sem kom út árið 1986. Frönsk
kvikmynd byggð á sögunni var frumsýnd árið 1999.
n Fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsöguna
Hjartastað.
n Steinunn hefur einnig skrifað útvarps- og sjónvarpsleikrit auk þess sem
hún skrifaði bókina Ein á forsetavakt - dagar í lífi Vigdísar Finnbogadóttur.
„Það vill sjálft eitthvað
ákveðið og þá verður
makinn bara að falla inn
í munstrið. Ég horfi á það
með hræðslu hvað fólk er
til í að ákveða mikið fyrir
sína nánustu.“
„Mér finnst þetta svolítið
óhuggulegt en um leið er
þetta hluti af því að vera
foreldri og sýnir hvað
maður ræður ofboðslega
mikið yfir barninu sínu.“