Dagblaðið Vísir - DV - 14.10.2011, Side 26

Dagblaðið Vísir - DV - 14.10.2011, Side 26
26 | Viðtal 14.–16. október 2011 Helgarblað Tölur hafa aldrei átt við mig, ég botna ekki í þeim og hef aldrei getað reiknað. Ég hef nú samt lifað í áttatíu ár, það bjargaði mér að ég lærði fljótlega að spyrja þá sem vissu betur. Það er mjög einfalt.“ Einn daginn svaraði Jónas símanum í Landsbankanum. Á línunni var útvarpsstjórinn, Vil- hjálmur Þ. Gíslason, sem vildi vita hvort Jónas gæti hugsað sér að verða fréttaþulur. Jónas var til í að íhuga það en fékk þá svarið: Nei, það er enginn tími til að hugsa. Þú verður að byrja í kvöld. „Ég byrjaði um kvöldið og hef verið þar síðan.“ Listin að kunna að þegja Á þessum tíma hefur Jónas sinnt hinum ýmsu verkefnum fyrir Útvarpið og veit ekki einu sinni sjálfur hvað liggur eftir hann, hann veit það eitt að það er ógrynni. „Ég hef verið viðloð- andi Útvarpið frá átta ára aldri og verið með Kvöldgesti í þrjátíu ár. Ætli það sé ekki met í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Það er ósköp fallegt og gott að vita að maður hefur glatt einhvern. Kvöldgestir hafa Guði sé lof vakið athygli. Ég lagði á það áherslu að þátturinn væri þeirra, gestanna. Ég lærði að þegja og hlusta, það er dálítið seiðandi að þegja, þá talar gesturinn en ef þú ert sígjammandi fram í þá þegir hann. Listin felst í því að kunna að þegja þegar það á við. Ég var lengi að læra það,“ segir Jónas og bendir á að hann hafi aldrei farið í nám, það kenndi honum enginn. Stundum kenndi hann þó í Háskóla Íslands þegar Sig- rún Stefánsdóttir sá um nám í fjölmiðlafræði. „Einu sinni sagði ég nemendum mínum að þeir gætu lært um fjölmiðla í mörg ár en þeir yrðu aldrei útvarpsmenn nema þeir væru fæddir í það. Því það þarf hæfileika til að geta fengið fólk til að tala. En ef þú nennir að spyrja sérðu að hver maður á sína sögu. Ég sagði gjarna að fólk þyrfti ekki að hafa drepið mann til að vekja athygli mína á sér. Jafnvel einfaldasta saga þess getur kennt mér. Þeg- ar þú ferð að tala við fólk sérðu hvílíkur fjársjóður býr í mann- eskjunni.“ Lærði alltaf eitthvað Þrátt fyrir megna andúð á hefð- bundnum skólabekkjum stund- aði Jónas langt og strangt nám í útvarpinu og segist hafa verið í lengsta háskólanámi sem um getur. „Ég lít á útvarpið sem há- skóla. Ég lærði alltaf eitthvað.“ Hann lærði hvernig á að lifa lífinu og sitthvað um sigra. „Hver einasti gestur minn var sigurvegari, það var enginn lús- er. Allir höfðu þeir klórað í bakk- ann og klárað sig. Krabbameins- veikt fólk, hjartveikt, geðveikt … fólk sem hló, viðkvæmt fólk, fólk með langa sögu um ævintýraþrá eða erfiðleika í hjónabandi. Það var ótrúlegt að hlusta á þann fróðleik sem hver og einn bar með sér.“ Þá er viðeigandi að spyrja hvort hann búi ekki yfir ein- hverjum fróðleiksmolum, gull- kornum eða góðum ráðum til að hjálpa fólki að lifa lífinu vel. „Nei,“ segir hann hlæjandi. „Menn verða að reka sig á. Það fer enginn marblettalaus í gegn- um lífið. Ég kann ekkert frekar á það en aðrir, nema bara fyrir sjálfan mig, að gefast ekki upp.“ Einfari í hjarta sínu Hávær hringing truflar söguna. Jónas svarar, þetta er ríkisskatt- stjóri. Þeir eiga stutt samtal en Jónas sýnir honum mikla hlýju. „Sæll, elskan, það er hjá mér blaðamaður núna. Elsku dreng- urinn minn, mér líður alveg prýðilega. Heyrðu, drengurinn minn, þakka þér fyrir að hringja eins og fyrri daginn, þú ert eng- um líkur. Bless, vinur,“ segir Jón- as og leggur símann frá sér. Þeir eru gamlir vinir. „Hann vill alltaf vita hvernig mér líður. Ég stríði honum stundum á því að það sé vegna þess að hann vilji að ég haldi áfram að borga,“ segir hann glettinn. Þeir eru fáir sem þekkja Jón- as í raun. Hann hefur alltaf verið einfari í sér. „Ég lifi af því að tala en elska að þegja. Ég þoli ekki marga en er ekki illa við neinn. Ég gæti til dæmis ekki hugsað mér að fara með vinafólki í sum- arhús, ég yrði galinn og veit ekki um hvað ég ætti að tala. Mér finnst ekki gaman að tala um ekkert eins og tíðkast í sumar- húsum. Ég er mikið betur settur einn með sjálfum mér.“ Einfarinn hefur alltaf blund- að í honum en kjaftagangurinn um föður hans bætti ekki úr sök og þegar fólk sneri sér að synin- um og kjaftasaga komst á kreik um að hann hefði barnað unga stúlku aðeins fjórtán ára gam- all fylgdi því áralöng þjáning og skömm. Enda varð hann lengi fyrir aðkasti á eftir. Síðan hef- ur hann ætíð verið var um sig. „Ég er einfari í eðli mínu en nú er því lokið. Ég er hættur að vera felumaður. Nú er ég opinn fyrir öllu og glaður.“ Skammaður af skáldum Það var ekki alltaf auðvelt að vera sonur föðurins. Þegar Jónas byrjaði í útvarpinu heyrðust þær raddir að nú ætti að lyfta strák- rassinum. Það var sárt. „Þess vegna þurfti ég að sanna mig og gera betur en aðrir. Ég var að því fram á síðasta þátt, að sanna mig. Þannig hefur útvarpið verið fyrir mér öll þessi ár, ég er alltaf að reyna að sanna mig með því að gera vel, eilítið betur en hægt er að krefjast.“ Framan af þurfti hann þó að þola harða gagnrýni og það tók á. „Auðvitað var reynt að draga mig niður eins og aðra. Kjafta- gangur endalaus, að mér fannst dæmdur.“ Árið 1953 byrjaði hann með Létta tóna. Þátturinn lifði í tvö ár og á þeim tíma bárust 10.000 bréf. „En ég fór óendanlega í taugarnar á elítunni, skáld- mönnum sem voru ofarlega í hugum fólks. Ég fór til dæmis óendanlega í taugarnar á Tóm- asi Guðmundssyni sem skamm- aði mig í Mogganum. Steinn Steinarr skammaði mig í Vísi og séra Gunnar Benediktsson skammaði mig í Þjóðviljanum. Ég þótti óheyrilega leiðinlegur.“ Jónas rekur það fyrst og fremst til tónlistarinnar sem hann spilaði, „stórhættuleg lög eins og Hvítir mávar og ann- að slíkt“. Hann dæsir og horf- ir á mig: „Elskan mín, þetta var engu lagi líkt. Ég var náttúrulega ógurlega sorrí yfir því að vera svona vondur útvarpsmaður og tók gagnrýnina nærri mér. Auð- vitað er ekkert gaman þegar allir skamma mann en enginn hrós- ar manni. En ég stóðst þetta. Mér finnst eins og það sé fyrst á seinni hluta lífsins sem ég hef fundið að ég hef glatt ein- hvern. Og nú þegar ég er kom- inn á þennan stökkpall þá finnst mér eins og allir elski mig. Það er góð tilfinning.“ Hvíslari að handan Eftir öll þessi ár hefur hann aldrei slakað á kröfunum sem hann gerir til sín. „Ég þurfti að gera kröfur til mín, því mistök- in voru minn kennari. Á þess- um árum hef ég öðlast dýr- mæta reynslu sem ekki er hægt að kaupa. Engu að síður fann ég yfirleitt fyrir því þegar ég gekk inn í stúdíóið að ég væri að fara í viðtal og mér stóð ekki á sama. Ég var ekki stressaður en vissi alltaf að ég yrði að vanda mig, þetta yrði að takast.“ Sem betur fer fylgir honum gott fólk sem aðstoðar hann þegar á þarf að halda, jafnvel þótt hann viti það ekki sjálfur. „Ég vona að hann reiðist mér ekki fyrir að segja frá þessu en einu sinni sat ég með Konráði Adolphssyni, sem var þá ný- búinn að stofna Dale Carnegie. Ég vildi vita af hverju og hvern- ig þetta hjálpaði fólki. Eftir við- talið sátum við áfram og rædd- um málin við kertaljós. Þá sagði hann að allan þáttinn hefði vera staðið við hlið mér og að upp úr höfði mínu stæði ljóskeila. „En það merkilega er,“ sagði hann svo, „að ég er alls ekki skyggn.“ Upp frá því veitti ég því eftir- tekt að ég var aldrei einn. Fyr- ir hvern þátt gerði ég handrit sem átti að bjarga mér frá vand- ræðaþögnum á meðan ég hugs- aði hvern andskotann ég ætti að spyrja. En þó að viðmælandi ruglaði handritinu flæddu inn á mig spurningar. Það var ekki einleikið hvernig ég gat spurt út úr handónýtu handriti og slopp- ið nokkurn veginn heill frá því. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði hvíslara. Ég hef kallað hann það síðan. Hann var með mér í hverju einasta viðtali, hvísl- aði því að mér að nú ætti ég að spyrja að þessu. Og hann hefur fylgt mér alla leiðina hingað.“ Æðruleysið stafar frá hon- um þegar hann segir að stund- um hafi fólk gantast með að það sofnaði út frá honum. „Er það ekki gott? Er það ekki betra að geta slakað á en að liggja and- vaka, jafnvel í reiði? Ég heyrði undarlega sögu af því að rödd- in heilaði fólk því það félli í ró þegar það hlustaði. Líklega hef- ur það hjálpað að geta gefið eitt- hvað af sjálfum mér, svolitla ró.“ Gáfust aldrei upp Eftir andartaks hik heldur Jón- as áfram. „Þetta er búið að vera yndislegt líf. Ég er búinn að gera allt sem ég vildi gera, skrifa sext- án bækur og leikrit sem hafa öll verið flutt, setja upp átján leik- sýningar úti á landi, leika með Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleik- húsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Ísafjarðar.“ Segir svo „kommon“ með áherslu. „Ég er búinn að prófa allt. Ég er partur af leikstjóra, partur af leikara, partur af píanóleikara, partur af tónskáldi og ég málaði líka til að sýna að ég gæti það. Ég er ekkert af þessu í raun og veru en allt hjálpaði þetta mér í gegn- um lífið.“ Lífsviðhorf foreldranna reyndist líka gott veganesti. Þeg- ar Jónas lítur til baka voru það einna helst þeir og þeirra styrkur sem gerðu hann að betri manni. „Móðir mín missti fótinn fyrir neðan hné þegar hún var fjórtán ára en var mikil hestakona og lét ekkert stöðva sig, sundreið Héraðsvötnin einfætt. Hún stóð einnig með föður mínum sem var umdeildur maður alla ævi, ritstjóri Dags, ritstjóri Tímans, alþingismaður og útvarpsstjóri og allt var gert til þess að fella hann og koma honum í burtu, eins og þessi þjóð lætur. En allt- af stóð móðir mín með honum keik. Hún gafst aldrei upp. Pabbi var berklaveikur ung- ur smali í Þingeyjarsýslu hjá vandalausum. Á morgnana klæddi hann sig í sömu röku föt- in frá því í gær, hljóp þingeysk- ar heiðar og spýtti blóði. Það var ekki gaman fyrir ungan dreng en hann gafst ekki upp, hljóp. Ég gat ekki gefist upp með svona fólk nærri, ég fann fyrir ákveðnu stolti um að klára líf- ið, þó að ég vissi að á endanum myndi ég deyja.“ Kvaddi útvarpið Það var svo í sumar sem hann fann að eitthvað væri að en barðist á móti, vildi ekki viður- kenna það fyrir sjálfum sér að hann væri orðinn sjúkur maður þótt hann hafi nú samt vitað það innst inni. „Angistin nagaði mig á meðan ég vissi ekki hví ég væri svona orkulaus. Ég skildi það ekki. En nú þegar ég veit að það er partur af þessum aðdraganda er það í lagi.“ Hauki Heiðari Ingólfssyni, píanista, lækni og góðvini Jón- asar, tókst að lokum að sann- færa hann um að fara á spítala. „Um leið gerðist ég veikur. Allt í lagi með það, ég hef enga orku eftir. Mér þykir vont að láta leiða mig á milli staða. En hvað um það, den tid er búin. Ég er feg- inn að þurfa ekki að gera meira.“ Ragnar Aðalsteinsson ljós- myndari var síðasti kvöldgestur Jónasar. „Ég fann að ég var al- veg orkulaus. Þá vissi ég að þetta væri búið og kvaddi útvarpið í huganum. Það var falleg stund, ég var sáttur, laus, þráði ekkert og grét ekkert. Ferillinn hefur verið langur og nú kemur aldrei nýr kvöldgestur. Enginn fær að setjast í stólinn minn og reyna að endurvekja þáttinn, hann var minn og nú er honum lokið.“ Hlakkar til að deyja Á meðan hann greindi eigin- konu sinni, Sigrúnu Sigurð- ardóttur, frá niðurstöðunni, banvænu krabbameini, brosti hann og hefur brosað síðan. „Hún sagði að það hvernig ég tek þessu hjálpi þeim. Öll fjöl- skyldan veit hvað er í vændum og tekur því. Ég er tvíkvæntur og á þrjár yndislegar dætur, þær Hjördísi Rut, skurðstofuhjúkr- unarfræðing á Akureyri, Berg- lindi Björk söngkonu, sem bú- sett er í Flórída, og Sigurlaugu Margréti, útvarps- og sjónvarps- konu, og afar flott barnabörn sem ég veit að elska mig og sýna það aldrei betur en núna. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt betra en að fjölskyldan standi saman og hlæi fram á síðasta dag,“ segir hann, „kommon!“ Ástin er á sínum stað, seg- ir hann. Eiginkonan gerir ekk- ert annað en að stjana við hann. „Við erum búin að vera sam- an í hálfa öld. Auðvitað hef- ur það gengið eins og í öllum hjónaböndum, þetta er ekkert rjómalogn. Stundum er rjóminn þeyttur, stundum súr og stund- um sætur. Þessir síðustu mán- uðir hafa verið yndislegir. Við höfum gert okkar líf upp og vit- um nákvæmlega hvar við höfum hvort annað.“ Og dæturnar eru í góðu sam- bandi við hann. „Við erum mikl- ir vinir. Ég veit svo sem hvað þetta verður sárt en ég er sann- færður um að það hjálpi þeim að vita að ég fer á góðan stað þar sem mér mun líða vel. Svo mun ég láta vita af mér,“ segir hann og kímir. Til þess ætlar hann að nota ilmvatn. Ilmvatnið sem hann ilmar af núna. „Þegar ég mæti á svæðið læt ég lyktina fylgja. Það notar enginn þetta ilmvatn nema ég, svo það mun ekki fara á milli mála,“ segir hann og hlær. „Þú sérð að ég er fullur af lífs- gleði. Ég sé enga ástæðu til að vera með einhvern aumingja- skap, þetta passar akkúrat fyrir mig núna. Ég hlakka til að deyja og get þess vegna farið á morg- un.“ „Takk fyrir mig“ Jónas hefur gengið frá öllum lausum endum, skuldar engum neitt og hefur skipulagt jarðar- förina í smáatriðum. „Ég veit hverjir munu bera kistuna, þó að þeir viti það ekki sjálfir. Ég á bara eftir að loka augunum, en það verður jafnvel gert fyrir mig. Svo mun ég fylgjast með þessu öllu saman þegar þar að kemur.“ Röddin er orðin rám. Þetta er orðið gott, Jónas er orðinn þreyttur. Hann dregur tepp- ið sem hefur legið í kjöltu hans upp að höku og hjúfrar sig að því. Teppið er handverk eigin- konunnar, gert úr bútum, vín- rautt að lit. „Ég sagði prestinum að ég ætlaði að bera upp bón sem enginn hefði borið upp áður og bað hann um að lesa fyrir mig ræðuna sem hann ætl- ar að flytja yfir kistunni. Hann hló og ég held að hann sé enn að hlæja. En ég vil vita hvað sagt er um mig á bak við mig, hvað þá hvernig talað er yfir kistunni minni,“ segir Jónas hlæjandi. „Þú getur rétt ímyndað þér. Þá verður of seint að ætla að leið- rétta eitthvað.“ Íhugull svarar hann því hvernig hann vill að fólk komi til með að minnast sín. „Kannski að það muni hvernig ég var. Svo get ég ekki átt neina ósk aðra en þá að ég hafi ekki meitt neinn. Ég held að ég hafi ekki gert það, ég hef enga ánægju af því að kvelja fólk og opna ævinlega glugga fyrir flugum. Bréfin sem ég fæ frá ókunn- ugu fólki eru ekkert nema bless- unaróskir. „Takk fyrir að leyfa mér að koma sem kvöldgestur, ég lærði svo margt og það hef- ur gert mér auðveldara að lifa.“ Ég get ekki tekið þessu öðruvísi en með gleði. Ég átti ekki von á þessu í mínu lífi. Ég vil bara að fólk hugsi hlý- lega til mín. Það er nóg,“ seg- ir hann og brosir undurblítt. „Meira get ég ekki sagt, elskan. Nú ætla ég að hvíla mig, segir hann lágum rómi, hallar sér aft- ur og lokar augunum. „Takk fyrir mig.“ n Samheldin fjölskylda Jónas starfaði á RÚV ásamt dóttur sinni, Sigurlaugu Margréti. Þau brugðu á leik í stúdíóinu í sumar ásamt dóttur Sigurlaugar, Sól- veigu Torfadóttur. Jónas horfir ástúðlega á dóttur sína, gantast við hana og hlær með henni. Hættur á RÚV Jónas kvaddi en hætti ekki fyrr hann lagðist inn á spítala. Eftir síðasta Kvöldgestinn vissi hann að þetta væri búið og kvaddi útvarpið í huganum. Það var afar falleg stund. „Auðvitað var reynt að draga mig niður eins og aðra. Kjaftagangur endalaus, að mér fannst dæmdur. „Mér finnst eins og það sé fyrst á seinni hluta lífsins sem ég hef fundið að ég hef glatt einhvern. Og nú þegar ég er kominn á þennan stökkpall þá finnst mér eins og allir elski mig. Það er góð tilfinning.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.