Húnavaka - 01.05.2015, Side 158
H Ú N A V A K A 156
Kvæðið er sex erindi. Þá orti Sveinn nokkur
erfiljóð er hann dvaldi á Höskuldsstöðum. Þannig
orti hann eftir Sigurð Pálsson lækni er drukknaði í
Laxá, skammt frá Höskuldsstöðum, niðri við sjó,
hinn 13. október 1910, rúmlega fertugur. Var
hann bróðir Árna prófessors í sögu við Háskóla
Íslands. Þá orti Sveinn eftir Sigurð Sigurðsson,
bónda á Húnsstöðum, föður Sigurðar fyrrverandi
landlæknis, er andaðist 28. janúar 1911, aðeins 45
ára. Erfiljóðið eftir Sigurð endar þannig:
Þig syrgja allir sveitarbræður þínir,
en sárast grætur ekkja þín og börn.
Því hver er nú, sem kærleika þeim sýnir,
já, hver skal vera skjöldur þeirra og vörn?
Ó, láttu, Drottinn, ljós þitt náðar skína
og lýsa þeim í gegnum böl og þraut,
svo ávöxt megi sinnar iðju sýna
og sigurkrans þér færa í grafarskaut.
Fleiri erfiljóð mætti nefna er Sveinn orti á
þessum tíma en ekki fleira til tínt af því tagi. Hann
orti ljóð fyrir ungmennafélög í Vindhælishreppi
og á Sauðárkróki. Hann setti saman ljóð í tilefni
þess er Kvennaskólinn á Blönduósi brann 1911.
Þar segir í upphafi:
Þegar nóttin foldu felur
fyrir sínum dökkva skildi,
Logi fer að heyja hildi,
herfang ekki lítið velur.
Ætlar sér í einu að taka
eitthvert mesta landsins smíði,
fárrammur í flestu stríði,
fús hann naumast snýr til baka.
Eins og ungum mönnum er títt hreifst Sveinn af ungmeyjum á þessum
árum og orti til þeirra ljóð. Og vel hefur Sveini litist á þessa ungfrú, sem hann
kvað þannig til:
Ó, hvar er slíka fegurð hægt að finna,
hún finnst ei, því að hún er hvergi til.
Því bros á vör og blómgar rósir kinna
það blíðari hlýtur vekja munaryl.
Sigurður Pálsson læknir.
Sigurður Sigurðsson bóndi á
Húnsstöðum.