Són - 01.01.2008, Blaðsíða 10
HELGI SKÚLI KJARTANSSON10
veginn einn um það, eða þau síðari skáld sem meðvitað léku list hans
eftir.2 Í norrænum fornbókmenntum má til að mynda finna dæmi sem
ekki eru með öllu ólík, og munu tvö vera frægust.
Annað er úr Tryggðamálum, sýnidæmi um hvernig mæla skuli
fyrir tryggðum fyrrverandi fjandmanna af háfreyðandi mælsku, og er
textinn varðveittur með þjóðveldislögunum. Sá sem „vegur á veittar
tryggðir“ skal vera „vargur rækur og rekinn“ „svo víða sem …“ og
fylgir löng upptalning í hálf-bundnu máli, þar í þetta:3
… sól skín,
snæ leggur,
finnur skríður,
fura vex,
valur flýgur
vorlangan dag,
stendur honum byr beinn
undir báða vængi, …
Hér er því hve víða griðníðingurinn sé rækur úr mannlegu félagi
svarað með líkingu, „svo víða sem …“ og runu af smámyndum sem
hver um sig sýnir eitthvað sem hvergi getur öðru vísi verið. „Svo víða
sem valur flýgur,“ það er eitt af þessum algildum og í rauninni ekki
meira um það að segja. En eitt andartak fær myndin að lifna við,
knöpp ljóðlínan4 að springa út í vísuhelming og sameina áheyrendur
í aðdáun á fálkanum sem svífur þöndum vængjum í vorgolunni eins
og hann sigli um loftið beggja skauta byr.
2 Ekki hefur Jónas kveðið án þess að hugsa til Hómers:
Valur í vígahuga
varpar sér á teig,
eins og fiskifluga
fyrst úr löngum sveig
hnitar hringa marga. …
Í næstu vísu notar hann orðin gjalla og fleygjast, líkt og Sveinbjörn í smyrilslíking-
unni (þar reyndar gella), hvort sem því veldur hending ein eða langminni skáldsins
á grískukennsluna á Bessastöðum.
3 Texti (og heitið Tryggðamál) samkvæmt Konungsbók, Grg. Ia (= Grágás. Islændernes
Lovbog i Fristatens Tid … (útg. Vilhjálmur Finsen), Kaupmannahöfn (det nordiske
Litaratur-Samfund) 1852), bls. 206, samræmt hér og skipt í ljóðlínur. Hóti
bragðminna í Staðarhólsbók: Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins (útg. Gunnar
Karlsson o.fl.), Reykjavík (Mál og menning) 1992, bls. 283.
4 Stuðluðu einingarnar í Tryggðamálum hafa margar verið aðeins tvíkvæðar á forn-
máli, t.d. „valr flýgr“, sem tæpast stendur undir ljóðlínu fornyrðislags – þótt annað
eins þekkist í ljóðahætti: „Deyr fé …“.