Són - 01.01.2008, Blaðsíða 53
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 53
Þessi tilfinning smæðar einkennir mjög sjálfsævisöguleg ljóð kvenna,
en það sem er smátt er líka satt og réttlætir að frá því sé sagt. Um leið
fjallar kvæðið öðrum þræði um sjálft sig, það ferli sem í því felst að
yrkja það og skrifa. Kvæði Unu birtist í ljóðabók hennar, Vestmanna-
eyjaljóð, frá árinu 1929. Það er meðvitað raunaljóð, sett fram í fjörutíu
erindum undir rímnahætti. Í því leitast hún við að ríma ævi sína sem
lætur illa að þeirri stjórn, rím og reynsla fara ekki saman.17 Hún er
fimmtíu og eins árs þegar hún yrkir kvæðið og tekur það fram sem
háan aldur í einu erindinu:18
Fimmtíu og eitt árið út
er ég búin nú að lifa;
ævin blönduð sorg og sút,
sem ei þýðir allt að skrifa.
Hérna rímar hún saman lifa og skrifa og lítur því ekki á lífið aðeins
sem sögu, heldur einnig sem ljóð. Hún er mjög nákvæm með tölur og
tímasetningar, og einnig nöfn á mönnum og stöðum, eins og til að
treysta sannfræðina. Ævikvæðið byrjar hún á tólf erindum um erfiða
ævi fátækrar móður sinnar sem flosnaði upp eftir að eiginmaður
hennar drukknaði og lenti eftir það í margra ára hrakningum með
dóttur sína. Una vill gera móður sína að samnefnara, tákni fleiri
kvenna í sömu stöðu. Hún leggur mikla áherslu á illa meðferð sam-
félagsins á konum og vill festa þetta á spjöld sögunnar:19
Þar eitt ár við þröngan kost,
þénaði með dóttur sína.
Þetta skeði áður oft,
ekkjur náðu rétti týna.
17 Í grein sinni „Að yrkja á íslensku“ veltir Jón Helgason fyrir sér mismunandi
notkun Íslendinga á stuðlum og rími og vitnar þar í Unu Jónsdóttur eina kvenna.
Hann segir: „Þannig sé ég af ljóðakveri Unu skáldkonu Jónsdóttur í Vestmanna-
eyjum (sem mér þykir lærdómsríkt) að hún stuðlar jafnan rétt en rímar miður.“ Jón
Helgason 1959:28. Hann tekur ekki eftir að Una notast oft við frjálst rím sagna-
dansa. Sama á við um stuðlasetningu hennar sem lendir oft á áherslulausum
atkvæðum, ekki síst í ævikvæðinu sem Jón Helgason virðist ekki taka með í um-
fjöllun sína, hefur ef til vill ekki komist svo langt í bókinni, en dæmið sem hann
tekur er úr fyrsta kvæði hennar.
18 Una Jónsdóttir 1929:45.
19 Una Jónsdóttir 1929:41.