Són - 01.01.2008, Blaðsíða 65
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 65
konan í kvæðinu, en þráin beinist þó ekki að því sem var tilefni þess,
þ.e. að lesa í bók, heldur að því er ætla mætti viðurkennda athæfi
kvenna að fara út í náttúruna um vor, fylgjast með lömbum og tína
blóm. En jafnvel það er of mikið og „þörfin kvað með þrumuróm: /
‚Þér er nær að staga.‘“
Hér er þörfin persónugerð sem valdsmannsleg en ósýnileg rödd
sem kemur einhvers staðar frá, eins og yfirvofandi ritdómarinn um
stökur sveitakvennanna, og skipar í beinni ræðu. Þráin hefur hins
vegar ekki aðra rödd en þá sem brýst í gegnum kvæðið sjálft. Eins og
mörg önnur ævikvæði kvenna endar einnig þetta á ævilokum og því
sem þá tekur við:68
Komi hel með kutann sinn
og korti mína daga,
eg held það verði hlutur minn
í helvíti að staga.
Fyrir skáldkonur er um tvo staði að ræða, heiminn og helvíti, og
hlutverk þeirra það sama á þeim báðum. Til himna komast þær ekki.
Þetta frumlega tregróf er ekki alveg einhlítt því að bréf sitt endar
vinkonan á því að taka það skýrt fram að bókina hafi hún „samt“
lesið. Síðan segist hún ekki muni senda Theodoru meira af þessu tagi
og „reyndu að þegja um það.“69
Theodora lofar að þegja um vísurnar um leið og hún gerir upp-
skátt um þær, að vísu með því að birta þær aðeins í handskrifuðu
kvennablaði og leggja þær í munn ónafngreindrar konu. Sigurður
Nordal komst þó í vísurnar og birti í Ritsafni. Í inngangi finnst honum
vissara að láta þeim fylgja skýringar svo að enginn skyldi nú halda að
„frú Theodora“ væri að yrkja um sjálfa sig. Að hans áliti eru vísurnar
„óþolinmæðisorð“, kveðnar „í gamni“ og í orðastað annarra, senni-
lega þá æskuvinkonunnar! Þá snýr hann út úr stefi vísnanna og segir
að hefði frú Theodoru langað til að verða „mikilvirkur og vandvirkur
rithöfundur“, undanskilið að hún varð hvorugt, hefði hún orðið að
„sitja við að ,staga‘ á pappír“ og „hætta að leika lausu við“,70 eins og
hún hafi nú gert það. Með þessu ómerkir hann ævisöguna í kvæðinu
með þeim sama þrumuróm og þar kvað þrána í kútinn.
68 Theodora Thoroddsen 1960:124.
69 Theodora Thoroddsen 1960:124.
70 Theodora Thoroddsen 1960:78.