Són - 01.01.2008, Blaðsíða 51
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 51
Hjá henni við líkbörur eiginmannsins sitja grátkonur sem „hver sagði
þeirra / sinn oftrega, / þann er bitrastan / um beðið hafði.”8 Þannig
rekja þær hver fyrir annarri harma ævi sinnar og bera þá saman.
Meinið þungt
Öll ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum (1804–1836) eru sjálfs-
ævisöguleg, og það er ekki síst þess vegna sem þau á sínum tíma urðu
svo vinsæl meðal kvenna og gengu á milli þeirra í ótal uppskriftum.
Í ljóðum Guðnýjar fundu konur brot af sinni eigin þögguðu sögu.
Eitt þekktasta kvæði sitt, „Endurminningin er svo glögg“, yrkir hún
skömmu fyrir dauða sinn langt fyrir aldur fram í útlegð frá heimili og
börnum eftir að eiginmaður hennar hefur sagt skilið við hana.9 Kvæð-
ið er ljóðabréf sem hún sendir Kristrúnu systur sinni á Grenjaðarstað.
Það er trúnaðarmál milli tveggja kvenna, sett fram í röð endurminn-
inga. Í fyrsta erindinu af ellefu ávarpar Guðný systur sína og nefnir
sjálfa sig með nafni:10
Endurminningin er svo glögg
um allt það sem í Klömbrum skeði,
fyrir það augna fellur dögg
og felur stundum alla gleði.
Þú getur nærri, gæskan mín,
Guðný hugsar um óhöpp sín.
Kvæði Guðnýjar er sannkallað raunaljóð þar sem hún rekur raunir
sínar og grætur. Hún þráir heimili sitt í Klömbrum, „raunabyrgið“
sem hún málar upp í huganum og staðsetur í stórri landslagsmynd:11
Þegar óyndið þjakar mér,
þá er sem málað væri á spjaldi
8 Eddukvæði 1968:361.
9 „Endurminningin er svo glögg“ er fyrsta veraldlega kvæðið sem birtist á prenti
eftir íslenska konu, í Fjölni 1837, og er þar tekið sem vitnisburður um gáfur hennar
og ævikjör. Þannig heppnaðist henni með kvæðinu að gera sögu sína sýnilega þótt
hún hafi á vissan hátt borgað fyrir það með lífinu, en það birtist í kaflanum með
eftirmælum um þá sem látist höfðu árið 1836. Fjölnir 1837:30–31.
10 Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum 1951:99. Stafsetning hér og síðar í tilvitnunum
er færð til nútímahorfs.
11 Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum 1951:99.