Són - 01.01.2015, Page 160
158 AnnA ÞorBjörg ingólfsdóttir
Guðrún Stefánsdóttir frá Fagraskógi
Að Guðrúnu Stefánsdóttur stóðu sterkir stofnar og hún ólst upp í
menningarlegu umhverfi í Fagraskógi við Eyjafjörð. Hún var systir
skáldsins Davíðs Stefánssonar og ekki að efa að hún hafi snemma orðið
handgengin skáldskap og reynt fyrir sér í þeim efnum. Hún mennt-
aðist vel heima í Fagraskógi en þráði að sækja sér frekari menntun í
æðri skólum. Ragnheiður Guðbjargar Hrafnkelsdóttir segir í inngangs-
orðum sínum að Guðrúnu hafi sviðið sárt að vera ekki styrkt til náms
eins og bræður hennar. Engu að síður tókst henni að komast í fjórða
bekk Kvennaskólans og ljúka þaðan prófi á einu ári með góðum vitnis-
burði vorið 1913, þá tæplega tvítug að aldri (Ragnheiður Guðbjargar
Hrafnkelsdóttir 2015:bls. iii).
Guðrún var einn vetur í Svíþjóð. Um það segir Ragnheiður: „Fyrir
Guðrúnu var það liður í menntun og uppfræðslu að „sigla“ og fá reynslu
af menningu og siðum annarrar þjóðar“ (bls. iii−iv). Guðrún vann fyrir
sér við þjónustustörf en líkaði illa í Svíþjóð og kom aftur heim og fór að
vinna, fyrst í Landsbankanum en svo hjá Veðurstofunni. Þar vann hún
til ársins 1930 er hún giftist Jóni Magnússyni, skáldi og beyki. Guðrún
og Jón eignuðust þrjár dætur en misstu einn son í vöggu (bls. vii−viii).
Guðrún bar alla tíð hag kvenna mjög fyrir brjósti. Hún var um tíma
virk í Kvenréttindafélagi Íslands og sat þar í stjórn í nokkur ár. En þekkt-
ust er Guðrún fyrir að hafa stofnað, ritstýrt og gefið út tímaritið Nýtt
kvennablað frá 1940−1967, fyrstu árin með Maríu Knudsen og Jóhönnu
Þórðardóttur en ein eftir að samstarfskonur hennar létust, Jóhanna 1942
og María 1946. Og eftir að Jón, eiginmaður hennar, lést árið 1944 hafði
hún lifibrauð sitt að mestu af sölu blaðsins (bls. viii−xi).
Árið 1927 birtust fyrstu ljóð Guðrúnar Stefánsdóttur á prenti í
tímaritinu Dropum sem birti eingöngu skáldskap eftir konur en flest ljóð
sín birti hún í Nýju kvennablaði eins og áður er komið fram. Um ljóð
og ljóðagerð Guðrúnar segir Ragnheiður Guðbjargar Hrafnkelsdóttir
að hún hafi skipað sér á bekk með nýrómantísku skáldunum á þriðja
áratugnum þar sem bróðir hennar, Davíð Stefánsson, var í fremstu röð
(bls. vi). Hún telur að Guðrún hafi staðið í skugga hans og það hafi ef
til vill ráðið því að hún réðst aldrei í að gefa út ljóðabók sjálf (bls. xvi).
Ragnheiður segir enn fremur að sér sé það „ekki ljóst hvort Guðrún leit
raunverulega á sig sem skáld eða hvort ljóðin voru henni fyrst og fremst