Gripla - 01.01.2003, Blaðsíða 291
ANDMÆLARÆÐUR
289
con, annales, res gestae eða aðeins vita; þá koma fyrir í titlum orð eins og
fundatio, genealogia, catalogus og narratio og síðast en ekki síst eru algeng
orðin liber og libellus. Sum þessara orða eru notuð um íslensk verk, Is-
lendingabók hefur í handriti titilinn Libellus Islandorum. Ari fróði minnist og
á verk sem svara til hinna latnesku nafngifta, hann talar um konunga ævi og
áttartölu, og Noregs konunga tal er gamalt nafn á Fagurskinnu. Líf eða
lífssaga er gömul þýðing úr latínu, vita.
Ekkert þessara orða hrekkur þó eitt og sér til að átta sig á því hvemig menn
litu á þau verk sem báru þessi nöfn á miðöldum. Og tilraunir sem menn hafa
gert til að ákvarða bókmenntategundir eftir merkingu orða í titli eða fyrirsögn
hafa ekki borið árangur og má vísa til hinnar gagnslitlu umræðu sem varð á 7.
og 8. áratug síðustu aldar um íslensk orð af þessu tagi.
Afstaða sagnaritaranna sjálfra til eigin starfa er síður en svo ljós í heim-
ildum eða verkunum sjálfum. Þar kemur að vísu fram að þeir vilja skrifa um
minnissamlega atburði, eins og Fyrsti málfræðingurinn skýrir skilmerkilega
frá í inngangsorðum ritgerðar sinnar. Lýsing sagnaritara á tilgangi sínum er oft
brotakennd og óljóst hvort þeir hafi talið alla þá hluti sem þeir settu á skrá til
þess eins skrifaða að mönnum bæri að hafa þá í minni og drægju af þeim
dæmi.
Ég vil hér í þessu sambandi nefna kunnan sagnaritara enskan, Gervasius
frá Kantarabyrgi, sem uppi er um aldamótin 1200. Hann skipti sögulegum
verkum niður í tvo flokka, gerði greinarmun á tvenns konar sagnariturum,
historici og chronici. Hvorirtveggi kepptu að sama markmiði, að segja sann-
leikann, en munurinn á þeim var sá að historici leyfðu sér að lýsa atburðunum
á listrænan hátt og máttu skemmta áheyrendum og lesendum en chronici
gerðu nákvæmlega og stuttlega grein fyrir atburðum, ár fyrir ár.
Þó að þessi sundurgreining segi okkur nokkuð til um afstöðu Gervasiusar
og varpi ef til vill ljósi á nokkum part sagnaritunar á latínu um og eftir
aldamótin 1200, eru söguleg verk frá þessum tíma margbreytilegri en svo að
þeim megi skipa í þessa tvo flokka. Þetta gildir þó sérstaklega um þau rit sem
voru skrifuð á þjóðtungum. Vissulega höfðu menn einnig í huga skiptingu
mælskufræðinnar eftir sanngildi: res factae og fictae, eða þrískiptinguna eins
og kemur fram hjá ísidór frá Sevilla: historia, argumentum og fabula, hin
fyrsta grein átti að vera sönn frásögn, sú næsta gat verið sönn en sú þriðja var
uppspuni. Gervasius hafði einnig í huga mismunandi stíl og form verka — og
þá er komið að því einkenni sem síðari alda bókmenntafræðingar hafa
notfært sér og vík ég að því hér á eftir,— en Gervasius hélt því einnig fram að