Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Side 23
23
bókmenntafræði rétt komin á táningsár.39 Erfitt er að gera henni skil í
stuttu máli, t.d. af því að hún er afar fjölbreytt, fátt hefur verið skrifað um
hugræn málvísindi hérlendis og svið bókmenntafræðinnar yfirleitt er víð-
ara en það var fyrir nokkrum áratugum. Að auki leggja menn ólíka merk-
ingu í hugtök. Heitið hugræn skáldskaparfræði nota margir, annars vegar
um sérstaka kenningu Reuvens Tsur (e. Cognitive Poetics), en hins vegar
um fræðasviðið allt. Í íslensku nútímamáli er hins vegar venjan að nota
bókmenntafræði sem almennt heiti á því sviði sem fæst við bókmenntir og
því er fylgt hér. Þar með verður nafnið hugræn skáldskaparfræði látið ná
yfir tvennt, annars vegar kenningu Tsurs; hins vegar þann anga hugrænnar
bókmenntafræði er tekur einkum til stílfræði og ljóðlistar, en um hann
verður fjallað í sérstökum kafla. Annar kafli verður um hugræna frásagn-
arfræði og stöðu hennar innar frásagnarfræðinnar almennt. Loks verður
fjallað um fagurfræði viðtakna, siðfræði lesturs og hugræna söguhyggju
og menningarfræði, en tvennt hið síðasttalda hefur færst æ meira í aukana
síðustu ár – og tekur til allra greina bókmennta.40 Hér skal þó í upphafi
fjallað um tvo brautryðjendur hugrænnar bókmenntafræði.
1. Meðal brautryðjenda
Ungversk-ísraelski bókmenntafræðingurinn Reuven Tsur tók til við að
þróa sínar kenningar áður en hugræn málvísindi voru komin á skrið og
er t.d. lítt hrifinn af metafórukenningum Lakoffs.41 Formalismi, strúkt-
úralismi, sálfræði og taugalíffræði eru stefnurnar og fræðasviðin sem hann
sækir frekast til, auk sálfræðilegra málvísinda. Tsur heldur því fram að með
atbeina hugrænna skáldskaparfræða megi á kerfisbundinn hátt gera grein
fyrir tengslunum milli formgerðar bókmenntatexta og áhrifanna sem les-
endur/áheyrendur skynja – og skilja að auki milli formgerða textanna og
áhrifa af öðrum toga.42 Tsur fæst einkum við ljóðlist. Hann kannar, m.a.
með empírískum aðferðum, hvaða áhrif ýmsir þættir hennar hafa á skynj-
un lesenda, en hann hefur líka velt því fyrir sér hvernig altæk vitsmunaferli
39 Sjá t.d. Alan Richardson og Francis F. Steen, „Literature and the Cognitive
Revolution: An Introduction“, Poetics Today 1/2002, bls. 6–7.
40 Umfjöllun um aðra anga hugrænnar bókmenntafræði eins og þróunarhyggju, bíður
betri tíma.
41 Sjá Reuven Tsur, „Lakoff’s roads not taken“, Pragmatics & Cognition 2/1999, bls.
339–359.
42 Reuven Tsur, „Aspects of Cognitive Poetics“, Cognitive Stylistics: Language and
cognition in text analysis, ritstj. Elena Semino og Jonathan Culpeper, Amsterdam
og Philadelphia: John Benjamins, 2002, bls. 279.
„HOLdIð HEFUR VIT“