Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Blaðsíða 47
47
Svo virðist sem norrænar málheimildir geti staðfest að þessi reiði-
umræða hafi nokkuð til síns máls. Í elstu dróttkvæðum norrænum virð-
ast skáldin í allra flestum dæmum virkja hugtakslíkinguna um persónu í
uppnámi sem ílát með þrýstingi en ekki líkinguna sem leggur að jöfnu
reiði og heitan vökva í íláti. Ólíkar kenndir, svo sem heipt, harmr, sút og
sorg eru sagðar „svella“ eða „þrútna“ í brjósti eða huga manneskjunnar.
Stundum vísar þrútnunin ekki til neinnar sérstakrar tilfinningar, held-
ur kemur aðeins fram að „móðr (hugur) svall“.11 Algengasta orðið fyrir
reiðitilfinningu í fornkvæðum, vreiði, finnst í þessu þrútnunarsamhengi,
og er athyglivert að ekki er endilega um neikvætt eða eyðileggjandi afl að
ræða, sennilega vegna þeirra lífeðlisfræðilegu sanninda sem koma fram
hjá skáldi eins og Eilífi Goðrúnarsyni kringum árið 900, að reiður maður
er að jafnaði óhræddur.12 Því má ætla að reiði sé álitið jákvætt afl, a.m.k. í
bardagasamhengi víkingaaldar, nokkuð sem lifir enn hjá höfundi Konungs
Skuggsjár (um 1250) er hann hvetur hirðmanninn til að höggva frá sér af
góðu skapi „og þó drjúglegri reiði“.13
Orðsifjar vreiði benda til hins sama, þ.e. að fornmenn hafi hvorki tengt
reiði við hita né vökva. Ásgeir Blöndal rekur orðið til þeirrar uppruna-
legu merkingar að hinn reiði sé „snúinn, afundinn eða afmyndaður af
vonsku“.14 Þó finnst ein undantekning á þessu, reiðihugtakið bræði og lo.
bráðr, rekur Ásgeir til frumrótarinnar *bher- ‘ólga, sjóða’. Áhugavert er að
veita því athygli að lo. bráðr og bráðlyndr eru gjarna tengd þeim stjórnlausa,
óþolinmóða og illkvittna í dróttkvæðum dæmum,15 líkt og áðurnefnd
heitavökva-líking ýjar að um hinn reiða, eins og við komum að síðar.
Það kom fram að reiði var ekki álitin neikvætt afl er kom að fornri
stríðsmenningu. Ef marka má umsögn Snorra Sturlusonar um Harald hár
11 Sjá Finnur Jónsson og Sveinbjörn Egilsson, Lexicon Poeticum, 2. útg., Kaupmanna-
höfn: det kongelige nordiske Oldskriftselskab, 1931: svella, þrútinn, þrútna. Meðal
dæma þar eru: móðr svall, heipt svall í Högna, hugr svellr í brjósti, sollinn bergjarls
brúðar vindr (þ.e. sollinn hugr).
12 Sjá Finnur Jónsson og Sveinbjörn Egilsson, Lexicon Poeticum, reiðr-2, einkum vísa
21 í Þórsdrápu, og Den norsk-islandske skjaldedigtning, IA, útg. Finnur Jónsson, 2.
útg., København: Rosenkilde og Bagger, 1967, bls. 152 (hér eftir: Skj).
13 Konungs Skuggsjá, útg. Magnús Már Lárusson, Reykjavík: H.F. Leiftur, 1950, bls.
116.
14 Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1995.
Þetta gæti bent til líkingahugsunar þar sem skyndileg breyting í andliti hins reiða
er varpað á fjörð sem breytir um svip eða „afmyndast“, t.d. þegar vindur blæs.
15 Finnur Jónsson og Sveinbjörn Egilsson, Lexicon Poeticum, bls. 61.
STUTTUR KVEIKUR SKALLA-GRÍMS