Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Side 48
48
fagra, höfðu heiðnir menn norrænir samt fullan skilning á því að reiði gat
haft eyðileggjandi afleiðingar og var því regla Haralds sú að hvert sinn „er
skjót œði eða reiði hljóp á hann, at hann stillti sik fyrst ok lét svá renna af
sér reiðina ok leit á sakar óreiðr“.16 Meðal fornmanna ríkti því það sem
Kövecses kallar „ideal of channeled anger“,17 reiðin er æskileg á vissum
vettvangi en ekki annars staðar.
Nánari rannsókn á þrýstingsíláts-líkingunni sýnir að innihald ílátsins
(e. source) er menningarbundið. Í mandarín-kínversku er reiðin skilin sem
lofttegund sem eykur þrýsting sinn í hinum reiða einstaklingi.18 Nú er ekki
takmark þessa greinarkorns að gera reiðilíkingum íslenskum nein tæmandi
skil, og bendir allt til að fleiri en ein hugtakslíking hafi verið og sé enn
virkjuð í íslensku nútímamáli. Kínverska innihaldið fær mann vissulega til
að hugsa til hins fræga dæmis Þorsteins Gylfasonar um andlegt líf á Íslandi
„Það fýkur í bónda. Það fýkur aldrei í nefnd“.19 Hér mætti ætla að það sé
einhvers konar loft eða vindur sem fýkur í bónda, og að reiðinni sé jafnað
við vindinn. Þetta minnir á það er menn segjast hafa „ímugust á e-u“, þ.e.
‘andúð, óvild, illan bifur’. Eins og Ásgeir Blöndal skýrir einnig, er orðið
upprunalega kenning byggð á kenningamódelinu hugur er tröllkonu
vindur, Íma er tröllkonuheiti: Ímu-gustur.20 Það áhugaverða hér er að
þessi hugtakslíking (kenningamódel) er með öllu óskiljanleg og einungis
‘lifandi’ meðal elstu dróttkvæðaskálda. Rök þessarar líkingar mátti eflaust
finna í goðsögn sem Snorri Sturluson og co. skráðu ekki í Eddu, og eru
þau því með öllu horfin. En ef við veljum að skilja brjóstið (líkamann) sem
hólk eða ílát utanum tilfinningar, þá ætti einmitt að geta fokið í hann ef
við skiljum sem svo að tilfinningum eða geðshræringum (hug) sé jafnað við
vind. Vandinn hér er hinsvegar sá að hugr getur bæði vísað til tilfinninga
(svá segir mér hugr, hugr einn veit hvað býr hjarta nær) og íláts (mér kemr í
hug, hugr svall). En þegar fýkur í fólk má ætla að geðshræringar hafi auk-
inn þunga eða „vindstyrk“ eins og væri í þessu tilviki. Hinn kosturinn væri
16 Heimskringla I, ritstj. Bjarni Aðalbjarnarson, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag,
1941, bls. 144.
17 Kövecses, Metaphor in Culture, bls. 180.
18 Ning Yu, The contemporary theory of metaphor: Perspective from Chinese, Amsterdam:
John Benjamins, 1998.
19 Þorsteinn Gylfason, Að hugsa á íslenzku, bls. 134.
20 Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 421.
BERGSVEINN BIRGISSON