Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Qupperneq 115
115
var sömu skoðunar og kaus því að sniðganga hugtakið fyrirbærafræði þótt
margir aðrir hafi orðið til að nota það um sálfræðilega nálgun hans.28
Hin klassíska hefð í skynjunarsálfræði
Til þess að átta sig á nýmælinu í rannsóknum Rubins er nauðsynlegt að
huga aðeins að stöðu skynjunarsálfræðinnar um aldamótin 1900. Miklar
framfarir urðu í lífeðlisfræði á fyrri hluta 19. aldar. Upphaflega tóku þær
einkum til fyrirbæra á borð við öndun og hjartslátt en þegar kom fram um
miðja öldina beindist athygli lífeðlisfræðinga í auknum mæli að taugakerf-
inu og skilningarvitunum.29 Eiginleikar skyntauganna – tauganna sem bera
boð frá skynfærum til heila – virtust falla vel að þeim atómisma sem hafði
einkennt breska heimspeki þar sem litið var svo á að flóknar hugmynd-
ir yrðu til við margs konar samruna einfaldari hugmynda, sem oft voru
nátengdar skynjun. „Upphafið að hugsunum mannsins má rekja til þess
sem vér köllum skynjun, því sérhverja hugmynd sem er að finna í manns-
huganum hafa skilningarvitin fyrst veitt móttöku, að hluta eða öllu leyti.“
Svo skrifaði Thomas Hobbes um miðja sautjándu öld eins og frægt er.30
Með þessa hugmynd að leiðarljósi varð eðlilegt að líta svo á að skyn-
frumur flyttu slíkar einfaldar hugmyndir (eða skynhrif) til heilans þar sem
samsetning og túlkun þeirra ætti sér stað. Í lífeðlisfræðinni lýsti þetta sér
í kenningunni um „sérstakan taugakraft“ (e. specific nerve energy). Þessi
kenning var líklega fyrst sett fram af Charles Bell í Englandi, síðar útfærð
af Johannes Müller í Þýskalandi og þróuð í sinni djörfustu mynd í verkum
Hermanns von Helmholtz.31
28 Franz From segir meðal annars frá viðhorfi Rubins til Husserls, „Hvordan var
Rubin? – Sådan husker jeg ham“, Dansk filosofi og psykologi, 1. bindi, ritstj. Sven
Erik Nordenbo, Mogens Blegvad, Laurits Lauritsen, Ib Kristian Moustgaard,
Arne Friemuth Petersen, Nini Prætorius, Svend Erik Stybe og Edgar Tranekjær
Rasmussen, Kaupmannahöfn: Københavns Universitet, Filosofisk Institut, 1976,
bls. 163–170.
29 Edwin G. Boring, Sensation and Perception in the History of Experimental Psychology,
New York: Appleton-Century-Crofts, 1942. Einkar greinargóða lýsingu á hinni
klassísku hefð í skynjunarsálfræði er að finna hjá Julian Hochberg, „Sensation and
perception“, The First Century of Experimental Psychology, ritstj., Elliot Hearst,
Hillsdale, NJ: Lawrence Erlbaum, 1979, bls. 89–142.
30 Thomas Hobbes, Leviathan, Oxford: Oxford University Press, 1996, bls. 9, þýð.
mín. Bókin var fyrst gefin út í London 1651.
31 Edwin G. Boring fjallaði rækilega um hugtakið „sérstakur taugakraftur“ í bókum
sínum A History of Experimental Psychology og Sensation and Perception in the History
of Experimental Psychology. Þess má líka geta hér að þessi hugmynd bjó á bak við
„SÁLARFLEYIð MITT SKELFUR“