Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 123
123
Árið 1921 var Kurt Koffka beðinn um að skrifa yfirlitsgrein um skyn-
heildastefnuna fyrir bandaríska tímaritið Psychological Bulletin, þá og síðar
eitt helsta vísindatímarit sálfræðinnar. Birtist greinin árið eftir, löng og
rækileg úttekt á hinni nýju sálfræðistefnu.49 Athyglisvert er að í greininni er
að finna býsna nákvæma greinargerð um rannsóknir Rubins. Koffka gerir
þeim reyndar næstum jafnhátt undir höfði og rannsóknum Wertheimers á
fí-fyrirbærinu, kannski vegna þess að langtum auðveldara var að fjalla um
þær með skiljanlegu móti en rannsóknir Wertheimers.50
Grein Koffkas varð til þess að kynna rannsóknir Rubins fyrir banda-
rískum sálfræðingum. Hún leiddi líka vafalítið til þess að hann var eftir
þetta talinn einn af sálfræðingum skynheildastefnunnar. Reyndar er nú
orðinn algengur sá sögulegi misskilningur innan sálfræðinnar að aðgrein-
ing fígúru og grunns hafi verið ein af uppgötvunum skynheildasinna. Það
er vitaskuld ekki rétt; Edgar Rubin átti allan heiður af þeirri uppgötvun.
Koffka átti síðar eftir að fjalla á nýjan leik um rannsóknir Rubins í höfuðriti
sínu um skynheildastefnuna, Principles of Gestalt Psychology. Þar eyðir hann
heilum kafla í aðgreiningu fígúru og grunns og fylgir nálgun Rubins.51
Þótt skynheildastefnan hafi byrjað með rannsóknum á skynjun, tók hún
fljótt til fleiri viðfangsefna sálfræðinnar. Wolfgang Köhler varð þekktur
fyrir rannsóknir sínar á hugsun hjá mannöpum, á því sem hann nefndi
„innsæi“ þeirra við margvíslegar þrautalausnir. Aðrir færðu sjónarmið
skynheildastefnunnar á vit félagssálfræðinnar og sálfræði listar. Árið 1922
skrifaði Koffka að skynheildastefnan væri „meira en kenning um skynjun,
já hún er reyndar annað og meira en sálfræðileg kenning“.52
En hér skildu leiðir með Rubin og skynheildastefnunni; því meir sem
þeir Wertheimer, Koffka og Köhler færðu út landamæri sinna fræða, þeim
mun minni samleið átti Rubin með þeim. Hann var ætíð þeirrar skoðunar
að sálfræðin væri giska óburðug grein sem ætti að halda sig við afmörkuð
viðfangsefni og umfram allt ekki að alhæfa niðurstöður af einu sviði sálar-
lífsins yfir á önnur svið, líta á smávægileg framfaraskref sem einhvers konar
„allsherjarlækningu“.53 Rubin vék að þessu einu sinni í bréfi til Christians
49 Kurt Koffka, „Perception: An Introduction to the Gestalt-Theorie“, Psychological
Bulletin, 19/1922, bls. 531–585.
50 Sama heimild, bls. 556–65.
51 Kurt Koffka, Principles of Gestalt Psychology, bls. 177–211.
52 Kurt Koffka, „Perception: An Introduction to the Gestalt-Theorie“, bls. 531.
53 Kai von Fieandt, „Edgar Rubin och gestaltpsykolgin: Några personliga minnen“,
Nordisk Psykologi, 3/1951, bls. 115.
„SÁLARFLEYIð MITT SKELFUR“