Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Side 139
139
er kenning um hugarstarf, um innri ferli sem sjá um að búa til nothæfa
mynd af umheiminum. Samkvæmt túlkunarhyggjunni leggur hugurinn til
umtalsverðan hluta þess sem við skynjum og er þar með frumforsenda þess
að við skynjum á merkingarbæran hátt. Túlkunarhyggjan tekur ekki sterka
afstöðu til spurninga um reynsluhyggju eða erfðahyggju; hún gerir þó ráð
fyrir að töluvert af skynferlinu geti ekki verið lært. Þess ber hins vegar að
gæta að nám getur verið með tvennum hætti innan þessa kenningakerfis
– annars vegar nám einstaklingsins og hins vegar nám tegundarinnar.37
Í síðara tilvikinu felst námið í því að einstaklingar af ákveðinni tegund
tileinkuðu sér eitthvað sem auðveldaði þeim lífsbaráttuna og þar með að
koma erfðaefni sínu á framfæri. Samkvæmt túlkunarhyggju er skynjunin
því samsuða þess hvaða ljós ber fyrir augu okkar og þess sem hugur okkar
leggur til skynjunarinnar. Þetta er í raun og veru líka kjarninn í kenning-
um Kants um skynjunina og skilninginn. Samkvæmt kenningum hans eru
skynjunin og skilningurinn í raun sami hluturinn og verða ekki aðskilin.
Áhrif Kants á þróun kenninga um sjónskynjun
Oft er horft til Þýskalands um miðja 19. öld varðandi upphaf kerfisbund-
inna tilrauna í skynjunarsálfræði og þá sérstaklega rannsókna þýska líf-
eðlisfræðingsins Johannesar Müller og nemanda hans, Hermanns von
Helmholtz.38 Müller setti fram áhrifamikla kenningu um sértæka tauga-
orku sem fól í sér að við skynjum ekki heiminn með beinum hætti heldur
sé skynreynsla okkar bundin þeim taugum sem örvaðar eru. Svo dæmi sé
tekið: þegar við lokum augum og þrýstum á þau upplifum við eitthvað sem
líkist sjónskynjun. Skynjandinn er því meðvitaður um ástand tauganna en
ekki um ástand ytri hluta. Þessi hugmynd er auðvitað meira en lítið í anda
Kants enda heldur Van Hoorn39 því fram að þessi hugmynd Müllers sé
bein útlegging á þekkingarfræði Kants.
Hermann von Helmholtz taldi að til þess að útskýra skynjun nægði
ekki að vísa einungis til ímyndarinnar sem varpast á augað. Einhvers konar
úrlausn skynseminnar, eða útlegging á því sem birtist, væri nauðsynleg.
Helmholtz gerði sér með öðrum orðum grein fyrir því að röklegt ginn-
37 d. Purves og R.B. Lotto, Why We See What We Do: An Empirical Theory of Vision,
Sunderland: Sinauer Associates, 2003.
38 Laura Otis, Müllers Lab, Oxford: Oxford University Press, 2007.
39 Willem Van Hoorn, Ancient and Modern Theories of Visual Perception, Amsterdam:
University Press Amsterdam, 1972.
ÞEKKINGARFRÆðI KANTS