Skírnir - 01.01.1951, Síða 125
Skírnir Víxlkveðandi í Wídsíþ(?), Sturlungu og á Finnlandi 119
utan safns Jóns Ámasonar, hef ég ekki fundið annað en
draumsögu eftir Sigfús Sigfússon, er hann prentaði í fyrstu
bók sinni, Dulsýnir, 1915 (bls. 51—53). Dr. Kelchner hafði
líka veitt þessari einkennilegu sögu eftirtekt.
„Árið 1910, eitthvað hálfum mánuði fyrir páska, voru bændur í Mið-
Héraði komnir að heita mátti á nástrá af heybjargarskorti, og búið víða
að eyða kornbirgðum heimilanna frá mönnum. Biðu Vallamenn þess með
óþreyju, að skip kæmi i Reyðarfjörð með pantaðar vörur. Þann 8. mánað-
arins skrapp ég frá Eyvindará inn að Höfða að vitja kinda minna. sem
voru hirtar þar á heyi, sem ég átti. Ég var vel birgur og því eigi hræddur
um mig. Á útleiðinni hitti ég Jón Bergsson að Egilsstöðum og spyr hann
sem formann kaupfélagsins, hvort skipið með pantaða komið mundi koma
þann 10., sem sagt hefði verið. Hann kvaðst varla vænta þess fyrri en
nærri þeim 20. Með þessa fregn fór ég að Eyvindará.
Um fótaferðartíma næsta morgun dreymir mig, að upp á baðstofuloftið
kemur miðaldra kona, höfðingleg á svip, en þreytuleg og alvarleg, með
gulbleikt hár að mitti niður, ófléttað. Hún gengur að rúminu og segir:
„Komin að bjarga", og var þegar horfin.
Ég vaknaði og fór á fætur. Var þá þar kominn sendisveinn frá Egils-
stöðum að tilkynna komu pöntunarskipsins. Síðan gengu komlestir nótt og
dag upp Fagradalsbrautina, fram undir hátíðina. En aðfaranótt þess 17., eða
þriðjudaginn næsta fyrir páska, dreymir mig enn. Ég þykist staddur þar
úti á víðavangi, er ég þekkti eigi til. Hallaði landi þar með hjólbratta frá
vestri til austurs. Niður frá mér lá gróið lækjargil, þurrt og fagurt að sjá,
og fór snardýpkandi niður undan. Ég virði þetta fyrir mér og íhuga, hvar
það muni vera. Hvass þíðvindur blés úr vestri. Heyrist mér þá skær hljóm-
kliður í vindgnýnum neðan úr gilinu. Ég fer að hlusta. Gekk mér illa að
greina þenna hljóm frá, fannst hann þó helzt líkjast mannsrödd. Og þeg-
ar ég hlusta betur, þykist ég heyra kátlega kveðandi raust, hlátra, sköll og
ringi. Ég ræð þó af að ganga á hljóðið. Fer ég þá ofan gilið, unz fyrir
mér verður krappur olnbogi eða krókur. En þá gaf mér sjón að sjá, því
þarna blasir við mér í austri kolsvartur, bogadreginn, ginandi hellismunni,
allvíður. 1 honum utanverðum situr skessa eða flagðkona, feiknamikil vexti,
en þó óeðlilega vel sköpuð og fríð sýnum. Meiri ofsögur hafa verið sagðar
af ljótleik flagða en stærð, datt mér í hug, og starði á hana undrandi, eigi
sízt vegna athæfis hennar. Mér þótti hún líta við mér, en gefa mér engan
gaum. Hún reri þarna aftur og fram og til hliða, velti vöngum, skipti um
svipinn og kvað og kvað i ákafa, svo bergmálaði í hamrinum og blandaðist
vindniðnum. Var sem hún léki með látbragði það, sem hún fór með. Ég
heyrði skjótt, að það var vísa með fommannahætti, og tví- og þrítók hún
alltaf niðurlagið. Ég átti erfitt með að nema visuna vegna bergmálsins og
vindgnýsins. Fyrri hlutann annaðhvort nam ég eigi, eða ég gleymdi hon-