Skírnir - 01.01.1951, Síða 227
Skírnir
Ritfregnir
219
Jóns og ýmissa manna úti á landi. Þótt þau varði að mestu þjóðsagna-
söfnunina, er þar ýmsa fræðslu að finna um hugsunarhátt manna og menn-
ingu, vitaskuld þó einkum bréfritaranna sjálfra. Hefur Jóni sótzt þungt
róðurinn í fyrstu, en svo lauk, að hann safnaði meira en hann notaði,
enda hefur hann verið að velta fyrir sér að taka miklu fleiri greinir í
útgáfuna en síðar varð, svo sem gömul kvæði, vikivaka og þulur. Enn-
fremur datt honum stundum i hug að taka í hana hreinar þjóðsögur úr
Islendinga sögum, Ármanns sögu o. s. frv. Hann hefur haft spurnir af
hverri skræðu að kalla, glötuðum sem vísum. Hann minnist oftar en einu
sinni á Hörgdælu í bréfum sínum til Jóns Borgfirðings. 1 mínu ungdæmi
var haft fyrir satt, að Hörgdæla hefði verið til. Þóttust gamlir menn jafn-
vel hafa heyrt hana lesna, og enn eru nokkur munnmæli manna á meðal
þar í dalnum, sem hafa átt að vera úr Hörgdælu, hvað sem annars hefur
verið hæft í tilveru hennar. Auðséð er, að sumir menntamenn hafa látið
sér finnast fátt um söfnun þessa, enda voru slik fræði langt fram á 19. öld
af mörgum talin hindurvitni og hégiljur. Börn eru ávallt sólgin í þjóð-
sögur og trúa þeim að fullu. Unglingar líta á þær sem lygasögur og vit-
leysu, en er menn þroskast, hafa þeir yndi af þeim, þótt ekki trúi þeir
þeim bókstaflega, og þykja þær harla merkilegar fyrir margra hluta sakir.
Sumir menntamenn á 19. öld stóðu á unglingsstiginu að þessu leyti, og
jafnvel nú hef eg talað við menn, einkum hálfmenntaða, sem aldrei hafa
komizt af gelgjuskeiðinu í þessum efnum.
Bréf þessi eru aðeins úrval. Eru þau því lítt til fræðilegra nota, en
til fróðleiks og skemmtunar geta þau mörgum orðið. Þau eru að visu mis-
jafnlega skemmtileg og geta á stundum verið dálítið þreytandi lestur.
En þau eru mjög til skilningsauka á tilorðningu Islenzkra þjóðsagna og
ævintýra, enda hefur útgefandi auðsæilega einkum valið bréfin með það
að marki. Vitaskuld má alltaf deila um, hversu vel sé valið. Mér finnst
t. d. sum af bréfum Árna Helgasonar stiftsprófasts hefðu mátt missa sig,
en þau .taka ekki mikið rúm, og auk þess er svolítið hressandi að heyra
i þessum gamla glaðværa húmanista. Nokkrar skýringar eru við sum
bréfin á útlendum orðum og orðatiltækjum o. fl., en stundum finnst mér
þær vanta, einkum er liður á ritið.
Yfirleitt skrifa Jón Árnason og hinir bréfritararnir gott mál, þótt mál-
villur megi finna. Nokkur orð og orðatiltæki hef eg við fljótan lestur
rekizt á, sem annað hvort ekki finnast i orðabók Blöndals eða eru hér í
annarri merkingu en þar er gefið, t. d. rennigauti (86), vera í dorgum viS
e.h. (87), fyrirvaSi (160), atrekandi (167), meSmœling (251), ráSgegn
(267) og Ijúgsamur (355).
Frágangur allur á bókinni er hinn prýðilegasti.
Jóhann Sveinsson.