Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 56
50
SIGRÍÐUR MATTHÍASDÓTTIR
SKÍRNIR
stjórnmálum í byrjun tuttugustu aldar leiddu síðan til þess að
Islendingar fengu loks heimastjórn árið 1904.44
Hugmyndin um sjálfstæði þjóðarinnar skyggði þannig á alla
aðra þjóðmálaumræðu á síðari hluta nítjándu aldar. Guðmundur
Hálfdanarson talar í því sambandi um „heilaga leit“:
Islensk stjórnmál snerust algjörlega um hina heilögu leit að sjálfstæði.
Hugmyndin snerist upp í þráhyggju; þjóðernisleg og stjórnmálaleg mörk
urðu að fara saman til að íslenskur efnahagur og menning gætu blómstr-
að. Hugsunin var þægileg þar sem hún leysti Islendinga fullkomlega
undan ábyrgð á því sem miður fór í efnahag þeirra en gaf þeim einum
heiðurinn af því sem vel tókst. Ekkert annað málefni hafði viðlíka mátt
til að virkja fjöldann, til að setja upp tvær skýrar fylkingar („þeir“ gegn
„okkur“, „kúgarar" gegn „hinum kúguðu“), um leið og það lofaði hinni
fullkomnu lausn á öllum félagslegum og efnahagslegum vandamálum.45
Rök fyrir sjálfstæði Islands voru samkvæmt þessu af efnahagsleg-
um, félagslegum og menningarlegum toga. Fullyrt var að hagur
þjóðarinnar blómstraði sjálfkrafa þegar sjálfstæðið væri í höfn.46
Undirstöðuna undir málflutning Jóns Jónssonar Aðils er að finna
í þessari hugmyndafræði en fyrirlestrar hans voru, eins og fyrr
segir, fluttir á fyrstu árum tuttugustu aldar, á sama tíma og ís-
lendingar fengu heimastjórn.
Hér á eftir verða nokkrir þættir úr hugmyndum Jóns teknir til
athugunar. Eg leitast við að sýna hvernig þar er að finna svipaðar
eða sömu hugmyndir um eðli hins íslenska þjóðernis og Fichte
taldi vera einkenni á þýskri þjóð, enda er það skoðun mín að eft-
irfarandi ummæli Kedouries eigi við um skrif Jóns: „Rök Fichtes
44 Sjá Gunnar Karlsson, Landshöfbingjatíminn 1874-1904 [í handriti], Reykjavík
1991, s. 195-200, Agnar Klemens Jónsson, Stjórnarráð íslands 1904-1964 I,
Sögufélag, Reykjavík 1969, s. 3-5 og Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jóns-
son, Islandssaga til okkar daga, Sögufélag, Reykjavík 1991, s. 299 og 317.
45 Guðmundur Hálfdanarson, Old Provinces, Modern Nations ..., s. 88.
46 Nefna má að hugmyndin um pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar, frelsi og fram-
farir í einni sæng var snar þáttur í skoðunum sjálfstæðishetju íslendinga, Jóns
Sigurðssonar. Sjá Guðmund Hálfdanarson, „íslensk þjóðfélagsþróun á 19.
öld“, s. 34-39. Guðmundur telur hins vegar að það gæti vissrar þverstæðu í
hugmyndafræði Jóns. Þverstæðan felst í hugtakinu þjóðernisfrjálshyggja enda
er þjóðernisstefna eins og hún birtist t.d. hjá Fichte ófrjálslynd í eðli sínu.